143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál sem er afar viðkvæmt og margar hliðar á. Engu að síður vil ég nefna það hér í upphafi, og við segjum það líka í álitinu að það er óumdeilt af hálfu okkar sem erum í minni hluta nefndarinnar, að verkfallsaðgerðir Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair hafa víðtæk samfélagsleg áhrif, þá ekki síst á ferðaþjónustu og fyrirtæki sem tengjast henni, en líka á inn- og útflutning og ferðir almennings til og frá landinu. Verkföll hafa nefnilega yfirleitt áhrif á þriðja aðila og á það við um verkfallsaðgerðir flugmanna hjá Icelandair Group eins og aðrar verkfallsaðgerðir. Víðtæk neikvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf eru óhjákvæmileg afleiðing verkfalla og verkföllum er beinlínis ætlað að hafa áhrif á samfélagið í því skyni. Slík áhrif þurfa því að vera mjög alvarleg og ógna ótvíræðum almannahagsmunum til að unnt sé að réttlæta lagasetningu.

Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur gríðarlega áherslu á að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við teljum ótvírætt að mjög þung rök þurfi til að grípa inn í aðgerðir með lagasetningu. Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja fram niðurstöðu. Allar slíkar leiðir þarf að fullnýta áður en inngrip löggjafans kemur til álita. Fram hefur komið, m.a. í vinnu nefndarinnar í morgun, að þótt bilið milli aðila sé mikið þá séu samningsumleitanir ekki fullreyndar, t.d. kom þar fram að ekki væri enn komin miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara.

Við sérstakar aðstæður, þegar um einstaka kjaradeilu er að ræða sem hefur mjög víðtæk áhrif og bil milli aðila er óbrúanlegt, getur inngrip löggjafans komið til álita. Slík réttlæting hefur í ýmsum tilvikum verið talin fyrir hendi, en þá hefur ávallt verið um að ræða einstakar deilur sem hafa verið úr samhengi við heildstæða kjaramálastefnu á vinnumarkaði.

Nú horfir öðruvísi við. Sú deila sem hér um ræðir kemur beint í kjölfar lagasetningar á yfirvinnubann örfárra undirmanna á Herjólfi fyrir sex vikum. Í þeirri deilu var notuð fallbyssa vegna staðbundinna hagsmuna og örfárra einstaklinga. Deilan nú er ein margra í langri röð kjaradeilna sem stefna í vinnustöðvanir að óbreyttu. Á afgreiðsludegi þessa frumvarps stendur yfir daglangt verkfall grunnskólakennara, verkfallsaðgerðir sjúkraliða standa yfir og nýafstaðið er verkfall framhaldsskólakennara. Þá standa einnig yfir kjaraviðræður við flugvirkja og flugliða hjá Icelandair Group svo dæmi séu tekin. Þetta einstaka mál er því ekki í neinu tómarúmi. Það er hluti af hrinu verkfallsaðgerða sem eru í gangi og voru fyrirsjáanlegar og eru hluti af gríðarlegri ólgu á vinnumarkaði. Það er umhverfið sem við erum stödd í núna og menn grípa til lagasetningar í.

Virðulegi forseti. Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir. Í því sambandi er rétt að vísa til, og gerum við það í nefndarálitinu, dóms Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu frá 2002 þar sem fram kemur að dómstólar geri ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg og m.a. er þar ítarlega vísað til lögskýringargagna.

Í morgun komu fulltrúar Alþýðusambands Íslands fyrir nefndina. Í þeirra máli kom fram að þetta frumvarp stæðist ekki þá sáttmála sem við erum aðilar að, m.a. reglur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, og að þetta frumvarp sé brot á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Núverandi stjórnarmeirihluti hefur þegar samþykkt lög á verkfallsaðgerðir starfsmanna á Herjólfi á grunni staðbundinna hagsmuna sem hæpið er að geti talist uppfylla þá ríku kröfu um skilgreiningu almannahagsmuna sem fram kemur í fyrrnefndum dómi. Því er full ástæða til að gera athugasemdir við þá vegferð sem stjórnarmeirihlutinn virðist vera kominn á. Með lagasetningu út af Herjólfsdeilunni gaf stjórnarmeirihlutinn skýr skilaboð til vinnuveitenda í greinum sem sinna mikilvægri þjónustu á borð við samgöngur um að gripið yrði inn í kjaradeilur við minnstu truflun á reglulegri starfsemi. Með því var samningsstaða launamanna veikt verulega og hún sett í mjög mikla óvissu. Það hefur komið á daginn að lögin sem sett voru vegna Herjólfsdeilunnar voru mjög afdrifarík mistök eins og minni hlutinn varaði við á sínum tíma.

Við í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar höfum líka áhyggjur af því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða án stefnu af hálfu þessarar ríkisstjórnar sem mun veikja verkfallsréttinn til frambúðar. Ef viðsemjendur eru farnir að líta á lagasetningu á verkfallsaðgerðir sem eðlilegt inngrip er hætt við því að litlir hvatar séu til að ná samningum með hefðbundnum hætti. Það er hið alvarlega í málinu nú, hið alvarlega samhengi sem við stöndum frammi fyrir. Það er ekki hægt að láta lagasetningu á verkföll, trekk í trekk, koma í stað kjaramálastefnu af hálfu stjórnvalda.

Nú blasir við að fleiri stéttir gætu farið í verkfall á næstu vikum og mánuðum. Því leggjum við á það mjög mikla áherslu að ekki verði gripið til neyðarlagasetningar af hálfu ríkisstjórnarinnar í því þinghléi sem fram undan er. Lög á kjaradeilur virðast vera orðin hluti af almennri kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar og geta því ekki verið réttlætt af neyðarréttarsjónarmiðum í þinghléi. Þau eru þvert á móti orðin fyrirsjáanlegur þáttur kjaramálastefnu stjórnvalda. Það er fagnaðarefni að innanríkisráðherra hefur lýst því yfir fyrir sitt leyti að heimildir til setningar bráðabirgðalaga verði ekki nýttar í þinghléi vegna vinnustöðvana, en ekki eru allar vinnudeilurnar sem núna eru í gangi á sviði þess ráðherra. Þess vegna er það óhjákvæmilegt að okkar mati og við gerum kröfu um það hér að forsætisráðherra stígi í ræðustól og lýsi því yfir við þingheim að hann sé sama sinnis hvað varðar aðrar deilur.

Virðulegi forseti. Það ástand sem er komið upp á vinnumarkaði er sjálfskaparvíti núverandi ríkisstjórnar. Þetta er afleiðing kjaramálastefnu ríkisstjórnarinnar. Framlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninganna 21. desember sl. var langt undir væntingum. Ríkisstjórnin lofaði þá gjaldskrárlækkunum og öðru sem er ekki enn komið til framkvæmda þó að hálft ár sé liðið frá yfirlýsingunni. Við erum komin inn á mitt ár og ekki hefur enn verið staðið við loforðið. Sú fyrirætlan var líka sett í uppnám með því að byggja alla kjarasamninga á viðleitni til að tryggja langtímastöðugleika. Svo hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar allar lagst á það eitt að létta byrðar þeirra tekjuhæstu en þyngja byrðarnar á þá sem hafa lægstu tekjurnar. Um það getur aldrei skapast friður. Þetta er framlag ríkisstjórnarinnar í þessari erfiðu stöðu.

Ég get nefnt hækkun á gjaldskrám í heilbrigðisþjónustu. Því hefur verið mótmælt harðlega af aðilum vinnumarkaðarins. Menn sitja við sinn keip og standa við það en halda áfram að lækka álögur á þá sem hæstar hafa tekjurnar.

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur líka keppst við að eyða öllum möguleikum til að skapa samstöðu um framtíðarsýn um stöðugleika með því að reyna að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það eitt og sér var ófriðarleiðangur þessarar ríkisstjórnar vegna þess að þar með ætluðu menn sér að loka dyrum sem geta skapað hér hagsæld til lengri tíma án umræðu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er gripið hér fram í eins og þetta komi málinu bara ekkert við. (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmaður sem grípur fram í fyrir mér ætti að hafa það í huga að það er ólga á vinnumarkaði í öllu samfélaginu. Þetta mál er ekki í neinu tómarúmi. Það er í þessari ólgu sem ríkisstjórnin hendir hverju málinu á fætur öðru sem gerir ekkert annað en að rugga bátnum og skapa enn meiri óstöðugleika og enn meiri óvissu. Það er staðreyndin sem menn þurfa að horfast í augu við. Við erum ekki bara að tala um eina kjaradeilu, að setja lög á hana, við erum að tala um að þessi ríkisstjórn sé lögð af stað með seríu af lagasetningum á vinnudeilur. Í því andrúmslofti erum við núna. Það er nýjasta framlag ríkisstjórnarinnar í þeirri ólgu sem er á vinnumarkaði. Við erum að vara við því.

Við hljótum að spyrja: Hvar á að enda þá vegferð sem menn hófu með Herjólfslögunum fyrir sex vikum gegn kjaradeilu átta eða níu manna? Hagsmunirnir voru staðbundnir, stóðust ekki prófið hvað varðaði nein formsatriði eða dóma sem fallið hafa í slíkum málum. Fram undan er verkfallshrina og önnur verkföll eru í gangi. Í því samhengi verðum við að ræða þessi mál. Hvað er löggjafinn að segja um þær verkfallsdeilur?

Verði þetta frumvarp að lögum hér í dag er Alþingi og ríkisstjórnin að senda þau skilaboð til kennara, sem hófu verkfallsaðgerðir sínar í dag, að sama hvort hagsmunirnir séu staðbundnir eða um sé að ræða þjóðhagslega hagsmuni, hátekjuhópa eða lágtekjuhópa þá skipti það engu máli, lagasetningum verði beitt af þessari ríkisstjórn á vinnudeilur. Okkur er sagt það. Það er verið að staðfesta það með þessum gerningi. Af því hef ég verulegar áhyggjur. Við erum ekki stödd í tómarúmi með þessa einu deilu. Þeir kennarar sem eru að sækja leiðréttingu á kjörum sínum fá þau skilaboð frá Alþingi í dag.

Virðulegi forseti. Ég verð að koma inn á það í lok ræðunnar að mér þótti undarlegt af hæstv. ráðherra sem flutti þetta mál í gær að nota lögin sem sett voru á flugvirkja árið 2010 sem eitthvert dæmi eða réttlætingu á því sem nú er verið að gera. Ég verð að nefna það hér vegna þess að ég tók þátt í þeirri lagasetningu. Þá höfðu öll úrræði verið gernýtt, en það er ekki uppi á teningnum nú. Þá var búið að semja, búið að aflýsa verkfalli og samningur hafði verið felldur, þannig að öll úrræði höfðu verið nýtt. Að auki var rúmt ár frá efnahagshruni okkar Íslendinga og tveim dögum fyrr varð eldgos á Fimmvörðuhálsi sem hleypti ferðaþjónustu í algjöra óvissu. Að sama skapi, virðulegi forseti, var ekki ólga á vinnumarkaði á þeim tíma heldur var samfélagið almennt að draga saman vegna efnahagsáfallsins sem hafði dunið á okkur rúmu ári fyrr. Það voru aðstæðurnar þá.

Aðstæðurnar núna eru allt aðrar. Nú erum við með viðsemjendur sem hafa ekki fullnýtt sín verkfæri. Við erum líka í þeirri stöðu að þetta er hluti af verkfallshrinu úr af gríðarlegri ólgu á vinnumarkaði. Ég bið hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarþingmenn, að reyna að sjá fyrir sér hvaða afleiðingar það geti haft að halda áfram þessari vegferð. Það er verið að veikja samningsstöðuna hjá launamönnum í landinu, þeim sem standa núna í harðvítugum kjaradeilum, hvort sem er á einkamarkaði eða hinum opinbera. Það er verið að sýna á spilin annað skiptið í röð. Þessi tvö deilumál sem stöðvuð hafa verið með lagasetningu eru svo ólík að þau sýna það að þessari ríkisstjórn er trúandi til alls. Það eru engin prinsipp, það eru engin viðmið þegar kemur að lagasetningum. Munurinn er svo stór á milli þessara tveggja mála að allt þar á milli getur rúmast í ákvarðanatöku þessarar ríkisstjórnar hvað varðar lagasetningu á vinnudeilur.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Fyrri hluti ræðu minnar var hefðbundinn. Ég gerði grein fyrir minnihlutaálitinu með ákveðnum viðbótum. Staðan er alvarleg og ég tel að við á hinu háa Alþingi þurfum að eiga alvörusamtal um það hvað við ætlum að gera. Hvernig ætlum við að virða verkfallsréttinn? Hvað ætlum við að gera við hann í framtíðinni? Þetta gengur ekki svona, stefnulaus lagasetning aftur og aftur og ítrekað.