143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er haldið hér fram að ekkert samhengi sé á milli þeirrar lagasetningar sem hefur verið sett á verkfallið í Vestmannaeyjum, á Herjólfi, og það verkfall sem nú er hafið hjá flugmönnum. Samhengið liggur augljóslega í því að gríðarlega miklir hagsmunir eru undir fyrir mjög mikinn fjölda fólks. Því var haldið hér fram áðan af hv. ræðumanni að það hefði verið um mjög fáa að ræða í Vestmannaeyjum — það er 5 þús. manna samfélag. Það er ekki lítið samfélag á íslenskan mælikvarða.

Verkfall í 300 manna stétt hefur áhrif á þúsundir og aftur þúsundir manna. Það hefur áhrif á okkar helstu útflutningsgreinar, á margar sterkar stoðir í atvinnulífi okkar. Það er ekkert hægt að líkja því í sjálfu sér við annað en afleiðingar náttúruhamfara fyrir þessar atvinnugreinar.

Ég vil aðeins biðja hv. þingmann að skýra það betur út fyrir okkur hvaða samhengi hún fær með slíkum samanburði við mögulegt verkfall annarra stétta og nefnir það að kennarar megi eiga von á lagasetningu. Hvernig dregur hún þá ályktun þegar hópur kennara er nú nýbúinn að vera í verkfalli sem tók bara nokkuð langan tíma?

Það er í mínum huga með ólíkindum hve skinheilagir margir þingmenn minni hlutans eru hér þegar þeir ræða þetta mál í ljósi þess, og ég bið þingmanninn að bregðast aðeins betur við því, að á síðasta kjörtímabili var ein stétt, flugstéttin í landinu, að fara í verkfall með tilheyrandi afleiðingum og þá var lagasetning tilbúin hér hjá þessu sama fólki. Þetta sama fólk var tilbúið með lagafrumvarp (Forseti hringir.) til að fara með í gegnum þingið en þá féll stéttin frá því að fara í verkfall. Nú er það mat ríkissáttasemjara (Forseti hringir.) að lengra verði ekki haldið, það sé enginn samningsgrundvöllur á milli þessara hópa. (Forseti hringir.) Eigum við bara að sitja hér hjá? Ég vil heyra það frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur: Eigum við að sitja hér hjá á Alþingi og gera ekki neitt í málinu?

(Forseti (SilG): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)