143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

(SII: Á þessi … að standa hérna æpandi á stjórnarandstöðuna í ræðustól? Bæði í gær …) (Gripið fram í: Er það leyfilegt?) (SII: Er það bara …?) (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ræðumaður hefur orðið.)

Virðulegi forseti. (JónG: Róaðu þig, Sigga mín.)(Gripið fram í: … alþingisstól.) (SII: Ég er alveg róleg. Það ert þú sem ert svolítið æstur.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Forseti biður hv. þingmenn um að sýna háttsemi og gefa hv. ræðumanni orðið.)

Takk fyrir það, virðulegi forseti. Hér er mál komið til umfjöllunar og meðferðar Alþingis, annað frumvarp til laga á verkfallsaðgerðir sem við eigum við hér á mjög stuttum tíma. Mig langar í upphafi máls míns aðeins að taka þær aðstæður fyrir út frá því, og þar með er ég ekki að benda sérstaklega á þann meiri hluta sem nú situr í þinginu heldur almennt það hvernig við fjöllum um mál, að það er niðurstaða mín eftir meðferð þessara tveggja mála, þó að ágætismálsmeðferð hafi verið fyrir hendi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, gestir fengnir á fundi og öllum gefist tækifæri til að viðra sjónarmið, að það sé staðreynd að hraðinn sem við afgreiðum þessi mál á sé allt of mikill.

Það er hefð fyrir því og fordæmi fyrir því áður í þinginu undir öðrum ríkisstjórnum en þegar við erum að ræða svona stór grundvallaratriði finnst mér, og ég trúi ekki öðru en að meiri hluti hv. þingmanna sé sammála mér um það, að þarna þyrftum við að gefa okkur meiri tíma til umræðu um grundvallaratriði sem er mjög óheppilegt að ræða í slíkum flýti.

Það hefur til að mynda komið fram í báðum málunum að menn telja þessa aðferðafræði, og þá er ég að vitna sérstaklega til þeirra sérfræðinga sem við höfum fengið á fund hv. umhverfis- og samgöngunefndar, ekki góða. Menn eru líka sammála um að mjög nauðsynleg sé að líta til Norðurlandanna hvað varðar heimildir ríkissáttasemjara á Norðurlöndunum og þeirrar aðferðafræði sem þar er beitt þegar kemur að vinnudeilum sem er önnur en á Íslandi.

Við erum að ræða, getum við sagt, „akút“ mál án þess að ná að fara inn í umræðu um grundvallaratriði, sem er samt auðvitað það sem ætti að vera hlutverk löggjafans í málum sem þessum.

Mér fannst líka athyglisvert, áður en ég kem að áliti því sem ég skrifa undir ásamt öðrum fulltrúum minni hlutans í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, það sem hefur hvarflað að mér og ég náði ekki að nefna á fundi nefndarinnar. Þegar við erum að ræða ólíka hópa, sjúkraliða, grunnskólakennara, flugmenn og um daginn starfsmenn Herjólfs veltir maður fyrir sér hvernig við förum með lagasetningu á verkföll í þinginu og hvort það væri ekki í raun eðlilegra, og þetta segi ég aðeins til umhugsunar fyrir hv. þingmenn, að það væri ein og sama nefndin sem færi með vinnumarkaðsmál og velferðarmál sem tæki öll þessi mál til umfjöllunar fremur en að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fjalli um verkföll á samgöngustarfsmenn og hv. allsherjar- og menntamálanefnd fjalli hugsanlega um lagasetningu á verkfall grunnskólakennara. Ég velti þessu fyrir mér. Ef þetta á eftir að verða tíður viðburður held ég að það sé komin mjög stór þörf á að við ræðum vinnulag.

Eins og ég sagði áðan leitaðist hv. formaður nefndarinnar við að leyfa sem flestum sjónarmiðum að koma fram á fundi nefndarinnar í morgun og það eru auðvitað ýmsar spurningar sem vakna sem við höfum svo sem ekki svarað til fulls eftir umfjöllun nefndarinnar. Hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson nefndi það til að mynda hér að það álitamál hefði komið upp hvort eðlilegt væri að ákvarðanir gerðardóms eigi að gilda þann tíma sem gerðardómur ákveður. Þetta höfðum við hreinlega ekki tíma til að ræða neitt út í hörgul, þ.e. hvort það eigi að vera einhver tímasetning á slíkum ákvörðunum.

Önnur athugasemd sem kom fram, sem ég er ekki viss um að hafi komið fram í máli annarra hv. þingmanna, er að það sé ekki endilega sérstaklega heppilegt að það sé Hæstiréttur sem tilnefni þriðja mann í gerðardóm þar sem Hæstiréttur kunni að taka þessi mál fyrir á síðari stigum. Þá veltir maður því fyrir sér hvort þar gæti hugsanlega einhver annar aðili verið heppilegri. Það er ekki þar með sagt að það sé á nokkurn hátt auðvelt mál að finna þann sem á að tilnefna aðila í gerðardóm. Nefndur var hugsanlega ríkissáttasemjari, en hér er ég aðeins að sýna fram á, og þetta snýst einungis um hin fræðilegu úrlausnarefni um framkvæmd slíkrar lagasetningar, ekki endilega um hin pólitísku og lögfræðilegu álitaefni. Því náum við ekki að svara á þeim hraða sem þessi mál fara hér í gegn þannig að mér finnst það vera umhugsunarefni fyrir okkur öll, alla hv. þingmenn, þvert á flokka, hvernig við viljum standa að svona málum í framtíðinni sem ég segi að sjálfsögðu að ég vona að verði ekki fleiri.

Hér hefur verið talað mikið um það að um neyðarúrræði sé að ræða. Þá fullyrðingu hljótum við að setja í samhengi við það að við stóðum hér 1. apríl og þá voru samþykkt önnur lög, raunar í andstöðu við ýmsa þingmenn í stjórnarandstöðu, m.a. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þar sem við töldum í því máli að ekki hefði verið sýnt fram á þá ríku almannahagsmuni sem réttlættu slíkt inngrip í verkfallsréttinn, í þessi mannréttindi, til þess að standa við slíkt verkfall.

Við færðum fyrir því rök og þau eru tíunduð hér stuttlega, rifjuð upp í nefndaráliti minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar en þau eru einfaldlega þau að samningsréttur launamanna er varinn í 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og það þarf mjög þung rök til að grípa inn í hann með lagasetningu. Það hefur hins vegar verið dæmt í slíku máli og komið fram að, þrátt fyrir þessi ákvæði mannréttindasáttmálans, þrátt fyrir þessi ákvæði stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir ákvæði alþjóðlegra samþykkta sem við höfum gerst aðilar að, svo sem Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, hafa dómstólar ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilur svo fremi sem ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir.

Ég fór með þessa ágætu klásúlu í gærkvöldi sem snýst um það hvernig við metum almannahagsmuni, en það hefur verið sagt svo ég rifji það upp, með leyfi forseta, „verkfallsrétturinn eins og hann birtist og er túlkaður í mannréttindasáttmálanum er ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðisþjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra“, eins og þar segir.

Þá erum við auðvitað komin að því að þótt það væri óskaplega þægilegt ef við gætum einhvern veginn fest það í lög nákvæmlega hvað þetta þýðir er þetta alltaf matsatriði. Það má þó segja það um þetta frumvarp, og kom fram í máli þeirra gesta sem sóttu fund hv. umhverfis- og samgöngunefndar, að þar er þó að minnsta kosti leitast við að leggja eitthvert mat á efnahagslega vá sem getur stafað af verkfallsaðgerðum atvinnuflugmanna.

Það kom hins vegar líka fram á fundinum að við erum í sjálfu sér ekki í neinum aðstæðum til að leggja neitt sjálfstætt mat á það hversu mikil þessi efnahagslega vá er og það kom líka fram að menn sem mættu fyrir nefndina voru ekki á eitt sátt um það hver hún væri nákvæmlega.

Minni hlutinn tekur hins vegar undir að það er alveg ljóst að þessar aðgerðir hafa mikil og víðtæk efnahagsleg og samfélagsleg áhrif, ekki síst á ferðaþjónustuna og fyrirtæki sem tengjast henni, en að sjálfsögðu líka á inn- og útflutning og ferðir almennings til og frá landinu. Spurningin er hvort við teljum ástandið komið á þann stað eftir mjög stuttar verkfallsaðgerðir, til að mynda ólíkt sjómannaverkfallinu sem ég vitnað til dóms um áðan frá 2002 sem hafði þá staðið í sex vikur, hvort við metum að þessir almannahagsmunir séu orðnir nægjanlega ríkir. Eitt af því sem háir okkur í því máli er að geta lagt sjálfstætt mat á þessa efnahagslegu hagsmuni.

Það væri auðvitað æskilegt að við hefðum á einhvern hátt getað gert það.

Síðan er að sjálfsögðu mikilvægt, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór yfir, að sá fjöldi mála sem liggur á borði ríkissáttasemjara vekur okkur áhyggjur sem og hvert stefni. Það er eðlilegt að benda á það eins og við gerum í nefndaráliti að ef hér verður um endurtekna lagasetningu að ræða veikir það að sjálfsögðu verkfallsréttinn til frambúðar. Spurningar vakna hvort ekki dofni í raun hvatar aðila til að ná samningum ef reikna má með því að lög verði sett á verkfallsaðgerðir.

Það hefur vissulega verið bent á hins vegar að það ber mjög mikið á milli aðila og ég held að við getum alveg staðfest það eftir fund nefndarinnar í morgun að það er svo, það ber mjög mikið á milli aðila og það hefur líka verið bent á að þarna sé ekki um láglaunahóp að ræða sem sé að berjast fyrir auknum réttindum, hann sé að gera kröfur umfram það sem við höfum til að mynda séð í samningum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins og þarna sé ekki um láglaunahóp að ræða.

Þar komum við aftur að hinu matskennda í þessu máli. Í fyrsta lagi getum við sagt að við höfum mismikla samúð með kröfum þeirra hópa sem berjast fyrir kjörum sínum, en getum við dregið eitthvert strik í sandinn um það hverjir eiga að hafa verkfallsréttinn til að berjast fyrir launum sínum og hverjir ekki? Mannréttindi, eins og gestur á fundi nefndarinnar í morgun orðaði það, geta ekki verið tekjutengd. (Gripið fram í: Nei.) Það horfumst við í augu við að ef við ætlum að skoða þetta út frá þessum grundvallarréttindum sem hafa verið skilgreind og við höfum undirgengist, bæði á alþjóðlegum vettvangi en eru líka skilgreind í stjórnarskrá okkar, þá getum við eiginlega ekki verið að taka tillit til slíkra þátta þótt þessir hópar hafi að sjálfsögðu mismikla samúð og við getum rætt það út frá öðrum þáttum.

Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga að hér er um grundvallarréttindi að ræða, það eru mjög óvenjulegar aðstæður uppi á vinnumarkaði, það er fjöldi mála á borði ríkissáttasemjara og þó að við verðum, eins og hér hefur verið rætt talsvert í máli þeirra hv. þingmanna sem hafa tekið til máls á undan mér, að horfa á hvert einstakt tilfelli fyrir sig er það svo að í þessu tiltekna máli hefur umræða um lagasetningu, vegna þess að hér voru sett lög í Herjólfsmálinu 1. apríl, þó að það sé ekki sambærilegt mál, verið uppi alllengi í umræðunni.

Við skulum ekki ímynda okkur að það hafi ekki einhver áhrif á umræðuna við samningaborðið.

Það hefur líka talsvert verið rætt um verkfall flugvirkja 2010. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir aðstæður í samfélaginu þá. Ég held að málflutningur hennar þar sýni að það er mjög mikilvægt að við tökum afstöðu til hvers máls í aðstæðum á hverjum tíma. Ég vil líka halda því til haga, eins og ég gerði í umræðunni um Herjólfsverkfallið eða yfirvinnubannið, að í þessum málum er ekki hægt að segja: Aldrei. Það er ekki hægt. Við verðum að horfast í augu við það að við erum með, getum við sagt, ákvæði sem heimila inngrip í verkfallsaðgerðir. Það sem er vandi löggjafans er að leggja mat á það hvenær slík róttæk inngrip séu réttlætanleg.

Hér kom fram í gær af hálfu hæstv. innanríkisráðherra að fari svo að menn meti það mikilvægt eða nauðsyn að grípa inn í aðrar verkfallsaðgerðir sem kunna að vera fram undan verði það ekki gert með bráðabirgðalögum af hálfu hæstv. innanríkisráðherra. Hún styður það að Alþingi verði kallað saman ef til þess kæmi.

Ég fagnaði þeirri afstöðu í gær og geri það aftur hér og við gerum það í nefndaráliti minni hlutans, en ég ítreka það eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir að það er mikilvægt að fá slíka yfirlýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra. Ég teldi eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra við umræðu eða atkvæðagreiðslu hér á eftir greindi þinginu frá afstöðu sinni í því máli. Það verður algjörlega að liggja fyrir áður en boðað verður til þingloka.

Ég tel að lokum að það sé ekki ástæða til að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega. Ég tel að ég hafi farið ágætlega yfir þau atriði sem eru undir, þau grundvallarréttindi sem eru undir, þær aðstæður sem nú eru uppi á vinnumarkaði og vil alls ekki lengja umræðuna neitt frekar um það. Ég tel að fyrir þessum sjónarmiðum sé gerð ágætlega grein í nefndaráliti minni hlutans og síðan við atkvæðagreiðslu síðar um málið en nota samt tækifærið að lokum til að þakka fyrir ágæta málsmeðferð af hálfu hv. umhverfis- og samgöngunefndar um málið í morgun.