143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þegar við lítum á kjarasamninga og samninga á vinnumarkaði hlýtur markmiðið í heild að vera að menn gangi sáttir frá þeim samningum. Það er markmiðið. Þá hugsar maður: Hvernig skipulag hefur verið sett í kringum þá samninga, þá samningagerð og kjarasamninga á Íslandi miðað við hvernig það hefur verið gert í nágrannalöndum okkar? Maður hlýtur að spyrja þessarar spurningar þegar Alþingi þarf í annað skipti núna á nokkrum vikum að koma að með lagasetningu til að stöðva verkfall. Það stöðvaði yfirvinnubann í fyrra skiptið og núna verkfall sem er búið að standa í 12 klukkustundir.

Það að grípa inn í með löggjöf, eins og kom fram á nefndarfundi í morgun, gegn grunnréttindum fólks, réttindum sem það hefur ákveðið að beita, hlýtur að þurfa að vera það síðasta sem menn gera. Þetta kom alveg skýrt fram á nefndarfundi, líka þegar menn fara af stað í verkfall, þá verða þeir að gæta meðalhófs og leita allra annarra leiða. Það kom líka fram á nefndarfundi í morgun.

Það sem er öðruvísi á Íslandi en í nágrannalöndum okkar er að ríkissáttasemjari hefur til dæmis ekki jafn mikil verkfæri til að grípa inn í. Hann hefur ekki verkfæri eins og það að hnýta smærri stéttarfélög við stærri samningagerðir, sem kemur í veg fyrir að lítil stéttarfélög geti beitt verkfallsréttinum til að taka heilt samfélag í gíslingu. Þessi verkfæri eru ekki til staðar á Íslandi og það þarf klárlega að endurskoða þetta allt. Það gengur ekki að löggjafinn sé alltaf að stíga inn í verkfallsdeilur með lögum. Það er ekki góð regla.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hver hefur rétt eða rangt fyrir sér í málinu. Ásakanir eru á báða bóga sem menn bera af sér. Þegar maður spurði hvort einn aðilinn hefði haft rétt fyrir sér um að það væri verið að ganga svona á rétt hans þá báru menn það af sér og sögðu annað um hinn. En staðan er þessi: Við erum í annað skipti að setja lög á verkstöðvun. Ókei, hvernig verður þá framtíðin? Það er nokkuð ljóst að ef þetta eru ríkir almannahagsmunir eða efnahagsleg vá stafar af þessum aðgerðum, sem eru forsendurnar sem verða að vera til staðar samkvæmt dómafordæmi á Íslandi til að setja lög á verkföll, og ef Herjólfsyfirvinnubannið var það þá komum við náttúrlega að því að þetta eru flugmenn, og hvað þá með flugfreyjur? Hvað með flugvirkja? Það er verið að setja nokkuð skýrt fordæmi.

Þá er kannski spurning hvort við eigum ekki að ganga hreinna til verks. Í fyrsta lagi að setja betri reglur um það að koma á samningum og sátt á vinnumarkaði, líta til nágrannalanda okkar í því samhengi. Í öðru lagi að menn verði bara heiðarlegir með það að þessar stéttir megi ekkert fara í verkfall, þær hafi ekki þann rétt. Þá eiga menn að vera heiðarlegir með það og skilgreina það í lögum að það varði almannahagsmuni og réttlæta þá ef menn vilja og ganga heiðarlega til verks í því efni.

Annað sem stjórnvöld verða að horfa á í þessu samhengi er það sem kom fram á nefndarfundinum: Ef aðilar á vinnumarkaði, sem sagt stéttarfélög, ganga að stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að fara í verkfall, sem er vissulega lögbundið ofbeldi sem aðilum er heimilt að beita og stöðva jafnframt að aðrir taki upp vinnu þeirra — það er að sjálfsögðu lögbundið ofbeldi en þeir hafa þennan rétt — og ef þeim finnst að löggjafinn, yfirvöld, gangi óþarflega hart gegn þeim og troði á þeim rétti þá beita þeir öðrum leiðum. Það kom skýrt fram á nefndarfundi í morgun. Þá beita menn öðrum leiðum. Menn verða veikir, það verða ofboðslega mikil veikindi, menn fá í magann, menn draga lappirnar í vinnunni og það verða tafir sökum þess. Þannig að þegar menn setja slík lög núna verða þeir að horfa til þess að þetta er í annað skiptið. Þetta eru lög, það er ekki búið að reyna allar aðrar leiðir sem á að vera meðalhófsreglan, bæði hjá þeim sem beita lögbundnum ofbeldisrétti sínum til verkfalla og hjá þeim sem ætla að stöðva verkföllin og þennan rétt fólks. Það þarf að sjálfsögðu að gæta meðalhófs og ganga ekki lengra en þörf er. Hérna er lagasetning aftur notuð þegar hefði verið hægt að gera aðra hluti. Það er ekki búið að fullreyna öll verkfæri til að ná samningum. Það er ekki búið að fullreyna þau öll. Það er ekki búið að fara í gegnum tékklistann og tékka þau af. Með þetta allt í huga ættu stjórnvöld að fara virkilega varlega.

Þetta frumvarp verður náttúrlega samþykkt en í framtíðinni ættu stjórnvöld virkilega að stíga varlega til jarðar því að annars vitum við ekki hvað getur gerst. Það getur orðið upplausn.