143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ef horft er til þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað, bæði í umhverfis- og samgöngunefnd og eins í umræðunni í þinginu, er ákveðinn samhljómur um vissa grundvallarþætti. Í fyrsta lagi er samhljómur um að þær aðgerðir sem hér liggja til grundvallar, þ.e. verkfallsaðgerðir flugmanna, hafa mikil áhrif og alvarleg af efnahagslegum forsendum. Eins og rakið er í nefndarálitum bæði meiri og minni hluta er þar auðvitað um að ræða gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna og fyrirtæki sem tengjast henni en líka á inn- og útflutning, fyrir svo utan almenn ferðalög fólks til og frá landinu.

Efnahagslegu áhrifin, það er erfitt að festa hönd á því hvað þau eru mikil í krónum og aurum, en það er hins vegar mikilvægt og það liggur fyrir bæði af hálfu meiri hluta og minni hluta, að óumdeilt er að þau eru óhemjumikil, enda blasir það við að fyrir land sem er jafn háð samgöngum í lofti og Ísland er hefur truflun af þessu tagi gríðarleg áhrif.

Áætlað hefur verið að þetta verkfall hefði áhrif á 70% farþegaflutninga til og frá landinu og trúlega 90% af vöruflutningum í lofti, þannig að þetta er verulega umtalsvert að því leyti og gott að það liggur fyrir af allra hálfu að menn gera sér grein fyrir að þarna er um að ræða gríðarlega mikla efnahagslega hagsmuni, þjóðarhagsmuni, sem eru í húfi.

Í annan stað er heldur ekki dregið í efa að okkar reglur, lagaumhverfi geri það að verkum að álitið er heimilt að löggjafinn grípi inn í aðgerðir af þessu tagi þegar miklir almannahagsmunir eru í húfi. Það er líka mikilvægt að þetta liggi fyrir.

Það sem kannski skilur á milli, og kannski ekki óeðlilegt, er að menn meta með mismunandi hætti annars vegar hvort allt hafi verið reynt sem hægt var áður en lagasetning af þessu tagi kemur til og hins vegar liggur auðvitað í loftinu líka álitamál um það hvort almannahagsmunirnir eru nægir til að það réttlæti inngripið sem hér á sér stað.

Menn verða seint sammála um slíka hluti en ég held að af hálfu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og ríkisstjórnarflokkanna sé það ótvírætt mat að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða af þessu tagi núna í þessu tilviki við þær aðstæður sem hér eru uppi, þrátt fyrir að það liggi jafnframt fyrir af hálfu bæði þess ráðherra sem flytur málið og okkar sem stöndum að meirihlutaáliti í umhverfis- og samgöngunefnd að þetta eru auðvitað þung spor. Það er ekki með neinni léttúð sem menn ganga til þessa verks, það er auðvitað þannig að það er meginhlutverk aðila á vinnumarkaði að semja um kaup og kjör sína á milli. Aðkoma ríkisvaldsins með löggjöf í því sambandi er gríðarlega óheppileg og óæskileg og hlýtur í öllum tilvikum að skoðast sem neyðarúrræði.

Ég vék að því að menn mætu hugsanlega á mismunandi hátt hvort reynt hefði verið til þrautar að láta hlutina ganga saman hjá ríkissáttasemjara, og þá var réttilega bent á að miðlunartillaga samkvæmt lögum hefur ekki verið lögð fram. Hins vegar lagði ríkissáttasemjari fram sáttatillögu sem að efni til er ekki ástæða til að ætla að sé með neinum hætti öðruvísi en miðlunartillaga af hans hálfu. Henni var hafnað af hálfu Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Að mínu mati standa öll rök til þess að miðlunartillögu hefðu beðið sömu örlög. Í ljósi þess að hér er um viðkvæma starfsemi að ræða þar sem tímafaktorinn skiptir mjög miklu máli held ég að það væri óskynsamlegt af löggjafanum að bíða með lagasetningu í þessum efnum eftir því að það ferli yrði látið ganga til enda, eins og mér heyrðist sumir hv. þingmenn vera að gefa í skyn að væri æskilegt í umræðunni áðan.

Ég held líka að það liggi alveg ljóst fyrir, ekki síst eftir fund okkar í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun, að gríðarlega langt er á milli aðila. Þeir eru mjög ósammála um þessa hluti og því miður var ekki, svo vægt sé til orða tekið, mikið samkomulagshljóð í mönnum á þeim vettvangi. Þetta varð til þess að styrkja alla vega mig í því áliti að hér væri inngrip nauðsynlegt.

Um aðra þætti málsins ætla ég svo sem ekki að fjalla nánar. Ég fagna því að innan meiri hlutans tókst samstaða um að stytta þá tímafresti sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu, það er auðvitað til þess fallið að stytta það óvissutímabil sem ella gæti dregist fram eftir sumri og fram á haust. Það er mikilvægt þegar málin eru komin í þennan farveg að óvissan vari sem skemmst, ég held því að það sé jákvæð breyting á málinu.

Ég vil líka nefna að í þessu tilviki er ekki verið að taka samningsfrelsið af aðilum. Þeir halda því auðvitað áfram og geta náð samkomulagi með bindandi hætti sín á milli áður en gerðardómur kemur saman og jafnvel eftir að hann kemur að málum. Sá möguleiki er ekki tekinn af þeim að komast að frjálsu samkomulagi sín á milli ef forsendur af þeirra hálfu breytast.

Í mínum huga hefur sú umfjöllun sem vissulega hefur verið afar stutt en þó þess eðlis að hún hefur gefið okkur tækifæri til að glöggva okkur á flestum hliðum málsins orðið til þess að styrkja mig í þeirri trú að þetta sé réttlætanlegt í þessu tilviki, þetta sé nauðsynlegt í ljósi efnahagslegra hagsmuna og að mikilvægt sé að ferlið gangi þá hratt fyrir sig þannig að neikvæðar afleiðingar verði sem minnstar.