143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Hún var um margt málefnaleg og flestir viku að efnisatriðum málsins. Mig langar til þess að bregðast við nokkrum fullyrðingum, kannski leiðrétta misskilning og hnykkja á nokkrum atriðum.

Fyrsta atriðið sem mig langar til þess að hnykkja á er að ég tek undir með öllum þeim, bæði í meiri hluta og minni hluta sem komið hafa hér og sagt að það þurfi að meta hvert tilvik fyrir sig. Það er algjört lykilatriði vegna þess að hér hafa þingmenn, einkum þingmenn Samfylkingarinnar, komið í pontu og talað um að þessi löggjöf kalli yfir okkur frekara inngrip löggjafans. Svo er ekki. Þessi mál verða alltaf — og ég ítreka það — þau verða alltaf að vera sjálfstæð og þau verður að meta sjálfstætt út frá þeim veruleika sem við blasir í hvert og eitt skipti.

Þá er eitt sem er algjört lykilatriði og í rauninni eina matið sem löggjafinn á að byggja á varðandi það hvort hann setur lög eða ekki, það er að þeir hagsmunir sem eru undir fyrir almenning og þjóðina verða að vera það ríkir að það réttlæti lagasetningu sem eins og hér um ræðir. Ég tek undir með þeim sem sagt hafa að þetta séu þung skref sem stigin eru hér.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir gerði hér að umtalsefni ábendingu sem fram kom á fundinum, að það gæti verið óeðlilegt og leitt til einhvers konar vanhæfis að Hæstiréttur skipaði einn mann í gerðardóminn. Það er rétt að okkur gafst ekki tækifæri til þess að fara mjög ítarlega yfir það, en ég vil þó taka það fram af því að menn hafa vitnað hér í hæstaréttardóm nr. 167 frá árinu 2002. Í því máli skipaði Hæstiréttur alla þrjá aðilana í gerðardóm. Héraðsdómur, sem var nú staðfestur með vísan til forsendna, gerði engar athugasemdir eða vék að því á nokkurn hátt, væntanlega vegna þess að hvorugur aðilinn gerði neinar athugasemdir við það. En ég sé því ekkert til fyrirstöðu að Hæstiréttur tilnefni mann, ég sé ekki að hann eigi að vera vanhæfur á nokkurn hátt.

Ég vil leiðrétta eitt meðan ég man. Í nefndarálitinu gleymdist að geta eins aðila sem mætti á fundinn, Björgólfs Jóhannssonar, og Hrafnhildur Stefánsdóttir kom á fund nefndarinnar sem sérfræðingur, ekki sem aðili.

Ég vil líka taka það fram hér og benda á að þó að það séu óvenjulegar aðstæður á vinnumarkaði breytir það ekki mati löggjafans. Þegar löggjafinn metur það þannig að þessir ríku almannahagsmunir séu til staðar má það ekki skipta máli að aðrar kjaradeilur séu í farvatninu, það verður að vera sjálfstætt mat á hverju tilviki fyrir sig. Löggjafinn mundi lenda í allverulegum vandræðum með að taka svona ákvarðanir ef hann þyrfti að taka mið af því að aðrar aðgerðir eða ágreiningur væru í gangi. Ég held að það skipti miklu máli.

Varðandi það að nefndin þurfi að taka sér lengri tíma þá er það sjónarmið út af fyrir sig, en það er líka sjónarmið þegar ákvörðun er tekin um að setja lög á verkfall að það þurfi að vinna hratt og örugglega. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna fyrir það að ágætissamstaða var um málsmeðferðina, hún gekk vel.

Hér var fullyrt í ræðu að þetta væri einhver stefna ríkisstjórnarinnar, að þetta væri fyrirsjáanlegur þáttur. Svo er ekki, alls ekki. Ég vara við því að send séu út slík skilaboð úr ræðustól Alþingis að samningsaðilar eigi að fara að gera ráð fyrir því í kjaraviðræðum sínum að þetta sé það sem koma skuli. Svo er ekki, en auðvitað verða hagsmunirnir metnir í hverju tilviki.

Hér var fullyrt að fulltrúar frá ASÍ teldu að hér væri brot á alþjóðlegum samningum sem Ísland væri aðili að. Reyndar kom aðeins einn aðili frá ASÍ á fund nefndarinnar, lögfræðingur samtakanna. Hann vísaði í ILO, en ég tek það fram að túlkun mín á þeim samningi er ekki sambærileg við túlkun hans. En ég spurði þann ágæta aðila hvort ASÍ tæki undir kröfugerð flugmanna. Hann vildi engu svara um það.

En vegna þess að hér var fullyrt að menn væru að vísa í laun og launakjör almennt, þá hef ég ekki orðið var við það í þessari umræðu. Það hefur enginn úr meiri hlutanum í umræðunni í dag vísað til þess að hér sé um stétt að ræða sem borið hefur meira úr býtum en aðrir. Það eru ekki rök í þessu máli. Það eiga allir sama samningsrétt hvar sem þeir standa. Það verður að virða.

Við Íslendingar erum háðir flugsamgöngum, ekki bara vegna þess að við búum á eyju í miðju Atlantshafi heldur búum við líka frekar strjálbýlt í mjög stóru landi. Flugsamgöngur eru gríðarlega mikilvægar, ekki bara innan lands, heldur líka við umheiminn. Þegar þessar samgöngur eru skertar skerðast lífsgæði allra landsmanna. Það er þess vegna sem við stígum þessi þungu skref í dag að setja lög á verkfallið.

Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna og þeirra sem tóku þátt í umræðunni og vonast til þess að frumvarpið verði að lögum hér seinna í dag.