143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

600. mál
[14:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er hægt að viðurkenna að við ákveðnar aðstæður er réttlætanlegt fyrir löggjafann að grípa inn í þann helga rétt sem verkfallsrétturinn er. Til þess þarf að vera búið að fullnýta öll úrræði í samningum og ríkissáttasemjari þarf að vera búinn að fullnýta öll úrræði sem hann hefur. Svo er ekki í þessu tilviki. Málum þarf líka að vera háttað á þann veg að um einstakt tilvik sé að ræða, en ekki röð atvika.

Við sjáum núna að við erum í ástandi uppnáms á vinnumarkaði sem er sjálfskaparvíti ríkisstjórnarinnar, komið til vegna framgöngu hennar þar sem hún hefur ekki hirt um að efna sinn þátt í samningum sem gerðir voru á vinnumarkaði í lok síðasta árs. Hún hefur keppst við að létta sköttum af ríkasta fólki landsins á sama tíma og auknar byrðar eru lagðar á lágtekjufólk og meðaltekjufólk. Það er þessi stefna sem hefur leitt okkur í algert öngstræti. Ríkisstjórnin verður sjálf að bera ábyrgð á því(Forseti hringir.) hvernig til þessara átaka á vinnumarkaði hefur verið stofnað.