143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

600. mál
[14:04]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ótvírætt að þessar verkfallsaðgerðir hafa áhrif á fjölmarga og að miklir efnahagslegir hagsmunir eru í húfi. Það er samt mikilvægt að átta sig á því að til þess að brjóta stjórnarskrárvarinn rétt allra launamanna þarf annaðhvort þjóðaröryggi eða almannaheill að vera verulega ógnað.

Almannaheill er alltaf matskennt en með greinargerðinni koma fram sláandi tölur sem renna vissulega stoðum undir að hér sé um brýna almannahagsmuni að ræða. Því skal þó haldið til haga að Félag íslenskra atvinnuflugmanna hefur gert athugasemdir við það mat og telur það gróflega ofmetið, m.a. vegna þess að stór hluti ferða Icelandair er tengiflug og hefur því ekki bein áhrif á íslenskt atvinnulíf eins og önnur flug.

Sú sem stendur hér hefur þó ekki forsendur til að taka afstöðu til þess. Spurningin vaknar nú hvort þessi frestun verkfallsaðgerða uppfylli þau skilyrði sem þarf til að brjóta þessi mannréttindi. Vegna vafa á því treystum við okkur ekki til að styðja tillöguna.

Við hvetjum jafnframt deiluaðila til að halda áfram að leita farsælla samninga en í frumvarpinu er gert ráð fyrir gerðardómi ef samningar takast ekki sem er hlutlaus farvegur í slíku ferli.

Við í Bjartri framtíð erum á gulu í þessu máli.