143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair ehf.

600. mál
[14:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við mat á því hvort setja eigi lög á verkfallið verður að líta til þess hvort um sé að ræða það stóra og mikla almannahagsmuni að þeir réttlæti að sett séu lög. Ég get ekki betur séð en að í áliti minni hlutans sé tekið undir þau sjónarmið að það sé um jafn ríka hagsmuni að ræða og raun ber vitni.

Það er í rauninni eina skilyrðið sem við þurfum að vega og meta og dómstólar hafa veitt löggjafanum rúmt svigrúm til að taka ákvörðun um hvort það sé fyrir hendi.

Hér hefur verið fullyrt að ríkissáttasemjari hafi ekki verið búinn að neyta allra úrræða og að það sé skilyrði fyrir því að hægt sé að setja svona lög. Það er rangt. Hæstiréttur gerir það ekki að skilyrði í dómi sínum nr. 167/2002 og heldur ekki Alþjóðavinnumálastofnunin. Ríkissáttasemjari var búinn að setja fram sáttatillögu (Forseti hringir.) sem annar samningsaðilinn hafnaði. Það hefði engu breytt þó að miðlunartillaga hefði fylgt í kjölfarið, henni hefði verið hafnað. (Forseti hringir.)

Þess vegna leggjum við líka til þá breytingu að stytta þann tíma sem aðilar hafa — virðulegi forseti, ég fer að ljúka máli mínu — til að semja og ég vonast til þess að það verði breið samstaða um það á þinginu að greiða atkvæði með því ákvæði.