143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:30]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

(Forseti (SilG): Forseti biður þingmenn um að hafa ró í þingsalnum.)

Frú forseti. Það er beinlínis skylda og hlutverk stjórnvalda hverju sinni að ráðstafa almannafé af ábyrgð og skynsemi sem styrkir á einhvern hátt framtíðarforsendur landsmanna. Það er akkúrat það sem við deilum um hér, hvort þessi tillaga stjórnvalda sé skynsamleg eða yfir höfuð réttlætanleg. Kostnaður ríkissjóðs og ríkisstofnana við aðgerðina er metinn á 100–150 milljarða yfir fjögurra ára tímabil.

Aðgerðirnar á að fjármagna með bankaskatti sem ekki er búið að fjármagna í þessi fjögur ár. Við vitum ekki hvort hann dugir til. Ef ekki þarf að skera enn frekar niður. Maður velti fyrir sér hvar svigrúmið sé. Er það í heilbrigðiskerfinu? Er það í menntakerfinu?

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að á meðan ég flyt þessa ræðu er einmitt verkfall í grunnskólum og mótmæli voru hér fyrr í dag.

Við stöndum frammi fyrir því að Framsóknarflokkurinn hyggst nú efna hluta af kosningavíxlinum með allt öðrum hætti en lofað var án þess að því fylgi aðgerðir sem kalli fram stöðugleika til framtíðar. Af hverju segi ég Framsókn en ekki meiri hluti? Kannski af því að það hefur varla heyrst til sjálfstæðismanna í þessum umræðum nema þá helst til þeirra sem þora að segja það augljósa, að þetta sé óskynsamleg og óforsvaranleg dreifing á almannafé. Nú þegar talsvert er liðið á 2. umr. um málið hefur aðeins einn þingmaður úr þeim flokki haldið ræðu og var hann á móti frumvarpinu. Það var hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason og við hlýðum á Pétur Blöndal á eftir, eða hvað? Já, Pétur H. Blöndal er búinn. Ég heyrði reyndar ekki þá ræðu. Hins vegar hef ég lesið nefndarálit frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og það er afskaplega vandað og greinir svo vel frá því af hverju það væri glapræði að samþykkja þetta frumvarp.

Stuðningsmönnum frumvarpsins hefur löngum orðið tíðrætt um hugtakið forsendubrest en í dag eru forsendur mér ofar í huga, ekki síst vegna þess að sama hversu vel ég rýni frumvarpið og greinargerðina með því, þar er hvergi gerð tilraun til að skilgreina í hverju þessi forsendubrestur liggur nákvæmlega. Í því samhengi velti ég því fyrir mér hvaða forsendur landsmenn hafa almennt búið við í tugi ára og af hverju og við hverju við megum búast. Hverjar eru forsendur okkar í dag og í náinni og ókominni framtíð? Höfum við til að mynda einhvern tímann búið við fyrirsjáanleika og stöðugleika í samfelldan tíma? Munu þessar aðgerðir styrkja forsendur okkar um ókomna tíð? Mun niðurfelling á húsnæðisskuldum sumra, sem dreifist reyndar afskaplega þunnt á hvert heimili, raunverulega hjálpa þeim sem verst eru settir? Munu aðgerðirnar bæta hag þeirra í framtíðinni? Getum við réttlætt þessa dreifingu gæða fyrir komandi kynslóðum?

Íslenskt efnahagslíf hefur í raun verið röð reglulegra áfalla og forsendubresta. Við höfum prófað ýmsar leiðir til að öðlast þann stöðugleika sem okkur vantar og fyrirsjáanleika en aldrei þorað að stíga það skref að losa okkur við gjaldmiðilinn þó að hann hafi tekið reglulegar dýfur sem hafa reynst öllum heimilum landsins dýrkeyptar með tilheyrandi hækkun á verði neysluvara og húsnæðis.

Nú ætlum við að leiðrétta forsendubrestinn sem við urðum fyrir fyrir sex árum þegar mest var, þegar við upplifðum 19% verðbólguskot, en fyrir 30 árum upplifðum við hvorki meira né minna en 30–80% verðbólgu. Í þessu samhengi langar mig að vitna í nefndarálit frá 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Það er í raun sérálit hv. þm. Péturs H. Blöndals. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Í janúar 2009 nam 12 mánaða verðbólga 18,6% en þá var toppi náð. Verðtryggð lán hækkuðu á þessum tíma um sama hlutfall. Í kjölfarið fóru margir að tala um forsendubrest þar sem skuldarar hefðu ekki mátt búast við svo mikilli verðbólgu. Á þessum tíma voru samt aðeins sex ár frá því að 12 mánaða verðbólga náði 9,4% (1. janúar 2002). Í heilan áratug, 1975–1984, fór 12 mánaða verðbólga ekki undir 30%. Í ljósi sögunnar er því undarlegt að tala um forsendubrest. Nær væri að telja skyndilegt atvinnuleysi og almennt tekjufall auk hækkandi skatta til forsendubrests.“

Eins og ég sagði er þetta ákaflega vandað nefndarálit með góðum skýringum og talnaefni sem ég hvet alla til að lesa. Það er á mannamáli, eins og maður segir.

Raunar er það til marks um hversu umdeilt þetta frumvarp er á meðal stjórnarliða að litlu munaði að ekki næðist meiri hluti til að samþykkja nefndarálit í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Tveir af þremur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni hafa nefnilega tjáð sig um það opinberlega að þeir sjái sér ekki fært að samþykkja frumvarpið. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá náðist einungis að skila inn meirihlutaálitinu vegna þess að annar þingmannanna forfallaðist á fundinum og varamaður sem var tilbúinn að kvitta undir álitið steig inn. Það er umhugsunarefni og til vitnis um hversu umdeild þessi niðurfelling er, enda um gríðarlega afdrifaríka aðgerð að ræða því að maður eyðir ekki 80 þús. milljónum tvisvar heldur bara einu sinni.

Við höfum í raun alla tíð búið við efnahagslegt óöryggi og sveiflur í efnahagslífinu. Hvað höfum við gert? Við höfum prófað að festa gjaldmiðilinn við ýmsar myntir, við höfum reglulega tekið núll aftan af honum og tekið upp ýmsa plástra. Við neyddumst til að mynda til að taka aftur upp gamalkunnan plástur árið 2008, þ.e. gjaldeyrishöft, allt til að bjarga okkur fyrir horn. Í raun var aldrei tekið á grunnforsendunum. Upphaflega átti þetta að vera skammvinnur plástur eða til tveggja ára en nú sex árum síðar grasserar sýkingin enn og ekkert raunsætt plan er í gangi um að rífa plásturinn af án þess að eiga það á hættu að efnahagslífið fari hreinlega á hliðina og gjaldmiðillinn okkar verði verðlaus enn eina ferðina. Þar fyrir utan greip þáverandi ríkisstjórn til víðtækra aðgerða í þágu heimilanna í landinu, sem var nauðsynleg aðgerð á sínum tíma enda allt annað ástand en blasir við okkur nú. Vanskil við Íbúðalánasjóð eru um 7% og þar af um helmingur eðlileg vanskil sem menn hafa ekki áhyggjur af að verði ekki greidd þótt seinkun hafi orðið á því.

Nú sex árum síðar ætlum við að fara í aðgerðir sem munu kosta ríkissjóð frá 100–150 milljarða kr. svo að fólk geti greitt nokkrum þúsundköllum minna á mánuði af verðtryggðum fasteignalánum sínum. Við skulum ekki fara í neinar grafgötur um það að dreifingin verður svo þunn að hún getur ekki með nokkru móti bjargað þeim sem eru illa staddir, ekki með nokkru móti.

Í fjármála- og efnahagsráðuneytinu gera menn sér fulla grein fyrir þessu. Mig langar að vitna í opinbert minnisblað ráðuneytisins um frumvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Flest heimili sem skráð voru fyrir verðtryggðum lánum vegna kaupa á fasteignum til eigin nota á árunum 2008 og 2009 hafa notið einhverra úrræða á borð við sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem greiddar voru árin 2011 og 2012. Eins og fram kemur í frumvarpi til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána reiknast öll opinber úrræði sem heimili hafa þegar notið til frádráttar leiðréttingar. Af þessu leiðir að afar fá heimili eiga rétt á hámarksniðurfærslu sem er 4 millj. kr.“

Í stað þess að fókusera á grunnforsendurnar, lækka skuldir ríkisins og styrkja innviðina fyrir alla, ætlum við að lækka verðtryggð húsnæðislán um 80 milljarða. Á sama tíma finnst okkur rétt að verja 4,6 milljörðum í húsaleigubætur þótt Hagstofan telji að um 27% landsmanna séu leigjendur. Þar að auki skulda um 20% fasteignareigenda ekkert í fasteigninni sinni og fá því engan hluta af þessari aðgerð, ekki neitt. Eins fellum við ekki neitt niður hjá þeim sem tóku verðtryggt lán til að kaupa búseturétt þó að hann sé aðfararhæfur rétt eins og aðrar eignir, svo ekki sé minnst á þá sem fjárfestu í menntun í stað fasteignar á verðtryggðum lánum.

Hvaða forsendur ætli þeir hópar búi við sem ég nefni? Hafa þeir ekki orðið fyrir forsendubresti? Kostar það leigjendur minna að lifa en okkur hin sem eigum fasteign? Hefur leigan ekki fylgt vísitöluhækkunum og verið þar með verðtryggð? Hækkuðu lán þeirra sem eiga búseturétt ekki eins og verðtryggð lán hinna? Misstu þeir ekki vinnu eins og aðrir við hrunið? Hækkaði framfærslukostnaður þeirra ekki líka? Svona gæti ég haldið áfram í allan dag.

Það þarf ekki annað en að lesa umsagnir ýmissa hagsmunaaðila til að átta sig á því að þetta er lélegt plan. Þetta er plan sem mun gefa mörgum smáplástur á sárið en ekkert í þessari aðgerð kemur til með að styrkja framtíðarforsendur þeirra sem njóta og gera þær stöðugri, síður en svo.

Ríkisstofnanir á borð við Íbúðalánasjóð hafa til að mynda áætlað tjón sitt frá 7 til 24,5 milljarða. Hver ætli borgi brúsann af því tjóni? Eru það ekki einmitt við öll, leigjendur, fasteignareigendur, öryrkjar, nemendur, þeir sem veikir eru og ekki síst ókomnar kynslóðir?

Það sem ætti að vera forgangsmál er að bæta þessar forsendur og koma á efnahagslífi sem tryggir okkur stöðugleika til framtíðar. Stóra málið er að stunda ábyrga hagstjórn, minnka skuldir ríkissjóðs og koma Íslandi í eðlilegt fjármálasamband við umheiminn. Það er plan til framtíðar. Þá fyrst getum við farið að tala um forsendur og forsendubrest, skilgreint hvað forsendubrestur er og hversu langt við getum gengið í að bæta hann og hversu lengi. Gleymum því heldur ekki að ríkissjóður er ekki botnlaus hít, full af peningum af himnum ofan. Peningurinn kemur frá skattgreiðendum og er svo dreift aftur. Það er undir stjórnvöldum hvers tíma komið að forgangsraða. Ef peningurinn nægir ekki þarf að draga saman grunnþjónustu, það er svo einfalt.

Fókuserum frekar á þann afmarkaða hóp landsins sem þarf sárlega á aðstoð að halda og er miklu frekar í greiðsluvanda en nokkurn tímann skuldavanda. Hvernig hefði til að mynda verið að taka þann milljarð sem mun nú renna til heimila sem eiga hreina eign upp á meira en 120 milljónir og dreifa honum einfaldlega til þeirra sem hafa minnst, óháð því hvort þeir eru með verðtryggð húsnæðislán, eru leigjendur eða jafnvel á götunni? Hefði það ekki verið réttlátari dreifing sem hefði samt gert okkur kleift að bæta gæði allra landsmanna svo um munar með því að greiða niður skuldir ríkissjóðs? Þar fyrir utan mundi það ekki bara koma sér vel fyrir landsmenn í dag heldur komandi kynslóðir.

Helsta verkefni ríkisstjórnar og mesta hagsmunamál allra heimila ætti að vera að ná stöðugleika og ná niður verðbólgu, tryggja að forsendubrestur sé ekki normið. Þá þurfum við ekki að hlaupa til á nokkurra ára fresti og slökkva elda upp á hundruð milljóna. Heimili og fyrirtæki í landinu gætu jafnvel farið að ná endum saman og gert eitthvað sem heitir langtímaplön, sem við þekkjum ekki.

Það er ekkert launungarmál að okkur í Bjartri framtíð hugnast ekki þessi aðgerð. Við sjáum enga framtíðarlausn í aðgerðinni og við teljum hana óhagkvæma, óréttláta og að hún stuðli svo sannarlega ekki að stöðugleika.

Höfum það líka í huga að hér duga engin töfrabrögð af því að skuldir hverfa ekki. Þær lenda á endanum á skattgreiðendum með einum eða öðrum hætti, núverandi og komandi kynslóðum.

Gleymum því heldur ekki að allir urðu fyrir brostnum væntingum enn eina ferðina, ekki bara þeir sem fjárfestu í verðtryggðum húsnæðislánum. Þetta held ég að sjálfstæðismenn viti og þess vegna heyrist ekkert í þeim. Ég bið þá samt um að íhuga það þegar þeir kvitta undir þetta frumvarp og bera þar með jafna ábyrgð á því gagnvart komandi kynslóðum. Þögn er sama og samþykki í þessu tilfelli og það þarf ansi breitt bak til að geta lokað augunum fyrir þeirri ábyrgð sem felst í þeirri þögn. Mig langar að nefna hvað það er lýsandi fyrir málefnið sem við erum að ræða núna, eitt stærsta mál ríkisstjórnarinnar, að á þessum tímapunkti situr einn sjálfstæðismaður í salnum. Það er hv. þm. Pétur H. Blöndal, eini maðurinn sem hefur látið sig málið varða. Það er staðan, það er virðingin sem málinu er sýnd.

Ég segi fyrir mitt leyti með góðri samvisku þvert nei við þessari aðgerð og greiði atkvæði á móti henni.