143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:03]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var aðeins að telja upp allar aðgerðir sem farið hefur verið í af hálfu ríkisins, bankanna. Ég hef ekki tölurnar yfir það sem hefur verið gert þar, við vitum að það er eitthvað. Við vitum að það eru hátt í 50 milljarðar í bílalánum.

Greiðslujöfnun einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði eru um 7,6 milljarðar. Íbúðalánasjóður var líka með 110%-leiðina. Hins vegar er það kannski eitt óréttlætið að Íbúðalánasjóður hefur komið minna til móts við viðskiptavini sína en bankarnir. Við þekkjum ástæðu þess sem er að Íbúðalánasjóður er í miklum vanda staddur og það er visst óréttlæti í því. En það er eins og ég segi, hrunið var meiri háttar óréttlátt. Ætli það sé ekki hvað óréttlátast fyrir leigjendur og unga fólkið? Ég sé ekki endilega að það hafi verið óréttlátast fyrir fólk sem hafði þegar keypt sér fasteign, nema þá sem voru alveg nýkomnir inn á fasteignamarkaðinn í fyrstu íbúð sinni.