143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég tók eftir því í ræðu þingmanns að 110 milljarðar höfðu farið í gegnum gengislánadóma til heimila og 46 milljarðar með 110%-leiðinni, en í gengislánadómunum fór þetta til 9 þús. heimila og 46 milljarðarnir í 110%-leiðinni fóru til 13 þús. heimila. Það hefur skapað fyrir það fólk einhverja leiðréttingu, en þá sitja allir hinir eftir sem gátu staðið í skilum og voru með verðtryggð lán, venjuleg heimili sem hafa ekki fengið neina fyrirgreiðslu. Er ekki sanngjarnt að beita einhverjum aðgerðum til að draga úr þeim mismun sem orðið hefur, þessum mikla ójöfnuði? Eða eigum við að hafa áhyggjur af því að nýr ójöfnuður skapist við þetta? Erum við ekki meira að draga úr ójöfnuði en að mynda nýjan?