143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:15]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að við eigum alltaf að vera að hugsa um heimilin, það sé kominn tími til þess, ég er alveg sammála hv. þingmanni hvað það varðar. En það eru kannski aðrar leiðir sem við höfum verið að kalla eftir. Það er til dæmis aukinn stöðugleiki, lægra vaxtastig, þess vegna erum við í mínum flokki, Bjartri framtíð, mjög áfram um að klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið vegna þess að við viljum skoða hvort í upptöku evru geti falist ávinningur fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Okkur greinir kannski á um leiðir, en við teljum að stöðugleiki, jafnvel upptaka nýs gjaldmiðils, komi í veg fyrir svona forsendubrest í framtíðinni, þetta er ekki í fyrsta skipti. Við getum ekki stanslaust farið í svona kostnaðarsamar aðgerðir til að leiðrétta lán heimilanna. Það eiga eftir að verða fleiri gengisfellingar á Íslandi með krónuna, það er alveg ljóst.