143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dáist að trúnaðartrausti hv. þingmanns, þegar öll heilbrigð skynsemi sýnir að stærðargráða þessarar leiðréttingar er 0,1% af einkaneyslu og rétt rúm 3% af fjárlögum hvers árs, að það geti valdið slíkum efnahagslegum hamförum að ganga til móts við þarfir heimilanna. Ég hvet hann til þess að reikna þetta sjálfur og ekki trúa í blindni greiningu Seðlabankans.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út í annað. Hann nefndi hér áðan að 400 heimili sem skulda 10 milljónir og væru að greiða stóreignaskatt ættu rétt til þessarar leiðréttingar. Ég vil spyrja hann: Hvar hefur hann séð þær upplýsingar? Ég hef nefnilega séð sömu upplýsingar og hann í efnahags- og viðskiptanefnd frá ríkisskattstjóra og sannarlega eru einhver heimili í þeirri stöðu að skulda 10 milljónir og eiga hreina eign upp á 100 milljónir plús og allt, það er rétt, en það stendur bara ekki að þau eigi rétt til þessarar leiðréttingar. Þessi lán gætu hæglega verið erlend gengislán, lögleg eða ólögleg, það geti hæglega verið að þetta fólk hafi fengið einhverjar leiðréttingar áður. Það kæmi mér gríðarlega á óvart — við vitum að það voru auðugustu heimilin sem gátu fengið þessi erlendu lán, þessi erlendu gengislán, tóku þau í gríð og erg og hafa fengið mjög miklar bætur. Ég á ekki von á því að stór hluti af þessu mengi sé að fara að taka þetta.

Ef við setjum þetta í samhengi er þessi hópur og skuldir hans 0,4% af heildarleiðréttingunni. Í leið gengislánadómanna fengu 9 þús. heimili 110 milljarða, það voru fleiri, fleiri milljónir á heimili. Í 110%-leiðinni voru það 13 þús. heimili sem fengu 46 milljarða, mörg þeirra vel yfir 7 til 15 og allt upp í 30 milljónir á heimili.