143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara hringinn í kringum það sem ég var að tala um. Ég var ekki að tala um 110%-leiðina sem aðgerð fyrri ríkisstjórnar, ég var að tala um útgreiðslu vaxtabóta sem var vissulega á hendi fyrri ríkisstjórnar (Gripið fram í: Já.) og ég var ekki að bera 110%-leiðina á nokkurn hátt saman við þær aðgerðir sem eru til umræðu og afgreiðslu nú. Ég frábið mér að verið sé að hlaupa hringinn í kringum það í þessari umræðu.

Ég hjó eftir því mjög snemma í þessu ferli að hv. þingmaður sagði eitthvað á þá leið að þegar þessar aðgerðir kæmu til framkvæmda yrði farið að velja úr hverjir ættu að fá útdeilingu og hverjir ekki. Mátti skilja hann þannig að einhver tilviljanakennd eða jafnvel pólitísk stjórn yrði á slíku. Nú gagnast þessi aðgerð sem slík 69 þús. heimilum. Báðar aðgerðirnar sem hafa verið hér til umræðu gagnast um 100 þús. heimilum. Þetta eru allt saman heimili sem fengu ekki leiðréttingar áður og 60% þeirra eru með heimilistekjur undir 8 milljónum. 80% þessara heimila skulda meira en helming í íbúðunum sem þau búa í. Það er ekki beint efnafólk í mínu huga, hv. þingmaður. Ef hins vegar þessi 446 manna hópur, sem hér er dreginn fram, á rétt — ég segi: ef hann á rétt — á einhverjum bótum, hámarkið er 4 milljónir, mundi það samsvara 1,6–1,7 milljörðum (Gripið fram í.)af þessum 80 milljörðum. Hins vegar er kjarninn í þessum tillögum sá að aðgerðin er almenn. (Gripið fram í.) En af því að menn hafa líka gagnrýnt forgangsröðunina hlýtur maður að spyrja: Hvað tafði menn í fjögur ár (Forseti hringir.) að taka á málefnum þeirra hópa sem þeir hafa talað mest fyrir í þessari umræðu, þ.e. leigjenda, þeirra sem búa í búseturéttindum (Forseti hringir.) o.fl.? Hvað tafði menn í fjögur ár?