143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mundi leggjast ákaflega vel í mig vegna þess að vísitölubinding lána er í raun hið gagnstæða. Vísitölubindingin, eins og ég hef reyndar heyrt hv. þm. Frosta Sigurjónsson segja sjálfan, er trygging sem lántakandinn fellst á að veita lánveitandanum í efnahagssveiflu niður á við. Þá felst lántakandinn á að lánveitandinn komi til með að hafa allt sitt á þurru, það er hugsunin. Auðvitað er eðlilegt sanngirnismál að þarna sé eitthvert jafnræði.

Við viljum ekki hverfa til þess tíma sem sparifé brann allt upp eins og gerðist á áttunda áratugnum svo að þetta er spurning um að finna eitthvert réttlæti í þessu. En við höfum ekki búið við slíkt réttlæti í ár eða áratugi. Við viljum reyna og þurfum að reyna að koma fjármagnskostnaði hér niður. Það held ég að allir vilji. Sumum stjórnmálaflokkum þykir það æskilegt og gott ef það heita Evrópuvextir, þeir eru óskaplega lágir. En það er mjög hættulegt að fara með þá niður ef þeir heita Íslandsvextir. En ég held að það sé bara gott yfirleitt að reyna að ná vaxtastigi niður í landinu og kostnaði við lán.