143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:55]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kostnaðurinn kemur náttúrlega fram í nefndarálitinu alveg klárlega, 80 milljarðar og áhrifin á Íbúðalánasjóð. Sjóðurinn hefur rakið það sjálfur. Ég treysti mér hins vegar ekki til að dæma um áhrifin á sveitarfélögin og stóru töluna, áhrif á ríkissjóð í framreiknuðu töpuðu skattfé. Það eru örugglega einhverjar hliðar á því sem hægt er að rekja þarna.

Hvert var fyrra atriðið sem hv. þingmaður spurði um, ef ég má spyrja? (ÁÞS: Kostnaðurinn við forsendubrestinn.) Ég átta mig ekki almennilega á honum fyrir utan þann almenna forsendubrest sem varð hér við hrun. Það varð forsendubrestur í samfélaginu í heilu lagi og það að hann eigi sérstaklega við þennan þátt er mér ekki alveg ljóst, ég get ekki lesið það sérstaklega. En ég bendi á að allar þær aðgerðir sem hér hafa verið gerðar, 110%-leið og fleiri, hafa verið á kostnað fjármálafyrirtækja en ekki á kostnað ríkissjóðs og þar skilur á milli. Ég hef lokið máli mínu.