143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:57]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hreyfir hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir stóru máli. Yfirlýsing þáverandi forsætisráðherra um að innlán skuli tryggð var ekki á kostnað ríkissjóðs. Sú yfirlýsing var á kostnað kröfuhafa, eigenda skuldabréfa. Sá kostnaður sem ríkissjóður hefur borið af þessu er kostnaður vegna Sparisjóðs Keflavíkur, sem er minni háttar í öllu samhenginu.

Það sem verið var að reyna að ná fram þarna var að koma í veg fyrir allsherjarhrun í samfélaginu og það tókst. Þetta var talin einfaldasta leiðin og ég skal afhenda mínum ágæta samþingmanni hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur skjal um þetta mál, erindi sem ég aflaði mér. En varðandi hitt atriðið, verðbréfasjóðina, þá var skuldabréf bankanna í tveimur tilfellum ranglega keypt út úr verðbréfasjóðum. Bankarnir keyptu út úr verðbréfasjóðunum og sú aðgerð stenst varla að mínu mati, en hún var ekki á kostnað ríkissjóðs þannig að það er enginn tvískinnungur eða hræsni í því. Það sem stendur eftir er þetta átak eða þessi vörn innstæðueigenda í Sparisjóði Keflavíkur. Ef hann hefði staðið utan við það þá hefði orðið allsherjarhrun í Keflavík, þá hefðu bæjarfélög á Suðurnesjum lent í fullkomnu greiðsluþroti.