143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég mun ekki sannfæra hana í þessu máli, en mér finnst afar ósanngjarnt eða sérstakt, sérstakt skulum við hafa það, að tillögur okkar séu gagnrýndar úr öllum áttum. Í fyrsta lagi eru þær gagnrýndar fyrir að vera eins og þær eru, að við skulum fara í þá vegferð sem við viljum fara í og svo eru þær gagnrýndar út frá því að ekki sé gengið nógu langt. Ég er ekki viss um að ég geti sannfært hv. þingmann eða gert henni til hæfis í þessum efnum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að við erum að reyna að leiðrétta þann forsendubrest sem varð á árunum eftir hrun. Í kjölfar hrunsins var ákveðið að ráðast í gerð hinna svokölluðu neyðarlaga. Þar með var þeim sem höfðu lagt fjármuni sína í banka, inn á bankabækur, og hefðu væntanlega tapað þeim fjármunum, bættur sá skaði. Ég held að ef við erum að tala um ríka og fátæka getum við alveg skilgreint þá sem ríka sem geta leyft sér að leggja fjármuni í banka. Var það röng aðgerð? Það var líka ákveðið að setja 200 milljarða til þeirra sem höfðu lagt fjármuni í peningamarkaðssjóði. Var það líka röng aðgerð? Hæstiréttur ákvað í rauninni að bæta þeim sem höfðu verið með gengistryggð lán, dæmdi þau ógild, þannig að þeir fengu leiðréttingu. Var það ósanngjörn niðurstaða? (Forseti hringir.) Þar var ekki gerður greinarmunur á því hversu háar fjárhæðir væri um að ræða. Ekki var farið í mannamun. (Forseti hringir.) Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður mundi svara þessum spurningum.