143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér erum við að fjalla um þetta stóra og afskaplega umdeilda mál sem kallað er skuldaniðurfelling þrátt fyrir að frumvarpið beri heitið Leiðrétting verðtryggða fasteignaveðlána. Það er ekki ofsögum sagt að menn greini mikið á, ekki aðeins þegar kemur að pólitískum skoðunum hér innan húss heldur einnig í umsögnum sem hafa verið veittar um málið.

Við fengum málið til umsagnar í hv. fjárlaganefnd og skilaði minni hlutinn umsögn sem fylgiskjali II við álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þar kemur fram að minni hlutinn telur að það liggi allt of lítil greining að baki þessum aðgerðum sem eru mjög kostnaðarsamar. Ég held að alveg ljóst sé og að það hafi komið mjög vel fram í umræðunni að svo er, það eru ekki nægjanlegar upplýsingar um stöðu mjög margra hópa. Við höfum líka gagnrýnt forgangsröðunina með því að fara í svona flatan niðurskurð. Hér hefur auðvitað mikið verið rætt, eðli málsins samkvæmt, að verið sé að færa fé til þeirra sem mikið hafa eða eiga skuldlausar eignir í miklum mæli í stað þess að greina enn frekar þá hópa sem urðu fyrir hinum raunverulega forsendubresti, sem svo hefur verið nefndur. Það er ekki búið að greina þetta niður á mismunandi fjölskyldustærðir og það er ekki búið að greina þetta niður á eignastöðu, hverjir munu njóta, hvenær fasteignin var keypt. Það skiptir miklu máli.

Það hefur komið fram sem var ekki ljóst þegar við skrifuðum þetta álit, þ.e. hvernig þetta kæmi niður á hin ýmsu svæði. Það liggur fyrir að það er mikill landsbyggðarhalli. Þá er það fyrst og fremst vegna fasteignaverðs. Það er vert að minna á að þar varð sami forsendubrestur í svo mörgu, til að mynda er varðar mat og það að kaupa sér aðföng sem hækkuðu þar eins og alls staðar annars staðar. Það hlýtur að vera hluti af forsendubrestinum.

Því er ekkert að leyna og er óhætt að rifja það upp enn og aftur að í kosningabaráttunni voru 300 milljarðar sú tala sem var nefnd og oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á fundi þar sem ég sat. Þess vegna getur sú aðgerð sem hér er verið að framkvæma tæplega talist uppfylla kosningaloforð sem Framsóknarflokkurinn gaf, kannski sem betur fer. En á móti kemur að það var heldur ekki af hálfu stjórnarflokkanna, eða það heyrði ég alla vega ekki, verið að lofa niðurskurði hér og þar. Eins og ágætlega var rifjað upp af hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur var því ekki lofað að fjárfestingaráætlun yrði slegin af eða sóknaráætlanir og að menningarsamningar yrðu teknir niður á þann hátt sem nú hefur verið gert. Það er augljóslega eitthvað sem skiptir máli fyrir heimilin í landinu því að þar er vinna undir sem hefur nú verið slegin af með ákvörðunum ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagafrumvarpið.

Eins og við höfum talað fyrir eru það innviðirnir sem skipta máli. Þá þarf að styrkja. Það var það sem við vinstri græn ræddum fyrir kosningar. Við vildum sjá aukna fjármuni í heilbrigðis- og menntakerfið. Þrátt fyrir að hafa reynt að verja það sem best í gegnum eftirstöðvar hrunsins töldum við að auka ætti fé til handa þeim stofnunum en ekki að dreifa þeim eins og hér er gert, þvert yfir alla, alveg sama hvar þeir standa.

Þessi ríkisstjórn talar mikið um aga í fjármálum. Það getur tæplega talist til aga að gera þetta á þann hátt sem hér er boðað, því að það kemur fram að fjármálaráðherra á að ákveða þetta í framhaldinu í reglugerðum og sú reglugerð hefur ekki litið dagsins ljós. Þetta er kostnaðarsöm og flókin aðgerð. Það hefði auðvitað átt að lýsa henni ítarlega í að minnsta kosti einhverjum drögum að reglugerð. Það að bíða þurfi þangað til fólk hefur sótt um og þá sé fyrst hægt að búa hana til og ráðherra geti minnkað eða aukið, væntanlega, eftir því hversu margir sækja um eru líka óásættanleg vinnubrögð.

Í umræðunum um fjárlögin fyrir jólin leit hæstv. fjármálaráðherra á útgjaldahlið ríkissjóðs til þess að mæta því tekjutapi sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir í formi þess að lækka veiðigjöldin á sumarþingi og aftur núna til viðbótar, með því að leggja ekki á eða breyta virðisaukaskattinum gagnvart ferðaþjónustunni og falla frá því að halda áfram með auðlegðarskatt o.s.frv. Það voru ýmsir tekjupóstar sem þessi ríkisstjórn sá ástæðu til að láta af. Við spurðum og veltum því upp hvort og hvernig ríkisstjórnin og ráðherrann hygðust bregðast við því. Ráðherrann og þessi ríkisstjórn framkvæmdi niðurskurðinn á ýmsan hátt. Það var það sem við sáum, Landspítalinn var sleginn af, heilbrigðisþjónustan fékk enn á sig aukinn skatt, þeir sem hafa minnst á milli handanna þurfa hugsanlega að neita sér um þjónustu, þeir eru að taka út þessar ákvarðanir.

Ég held að við verðum að átta okkur á því að við stöndum frammi fyrir því að það er aldrei svo að hægt sé að bæta öllum Íslendingum upp tap vegna bankahrunsins. Þrátt fyrir að hér sé verið að reyna — eða ég veit ekki hvort verið sé að reyna að gera það á þennan hátt en ég held að það að sé alveg ljóst að þetta er að mörgu leyti tap sem þjóðin situr uppi með, því miður. Vegna stjórnarhátta undanfarinna áratuga stöndum við frammi fyrir því. Það er fyrst og fremst rýrnun kaupmáttar launa og fasteignaverð, hversu mikið það hefur lækkað, sem við stöndum frammi fyrir. Það hefur til dæmis margoft átt sér stað á landsbyggðinni og ekki hefur það sérstaklega verið bætt eða verið kallað mikið eftir því að ríkið kæmi þar að til þess að bæta fólki það upp.

Pólitíkin verður að átta sig á því að bregðast þarf við kröfum þrýstihópa, hverra sem er. Við höfum séð þrýstihópa útgerðarinnar til dæmis sem marseruðu hér á Austurvöll og brugðist var við því. Eins og ég sagði í ræðu minni í gær kiknaði ríkisstjórnin í hnjánum gagnvart útgerðinni. Það skiptir miklu máli hvernig við bregðumst við þrýstihópum. Þetta er ekki leiðin til þess, að falla á hnén og finnast eðlilegt að allt of margir sem hafa það gott eignalega séð fái fjármuni.

Ég dreg ekki í efa að það séu einhverjir sem þurfa á því að halda sem fá út úr þessum aðgerðum, það er ekki vafi í mínum huga um að þannig sé það. Það breytir því ekki að það liggur ekki góð greining á bak við þetta og maður upplifir svolítið að aðeins sé verið að klára málið til að uppfylla niðurfellingarloforð.

Í kosningabaráttunni taldi Framsóknarflokkurinn fólki líklega trú um það, þess vegna fékk hann þetta góða kjör, að hann gæti fellt niður skuldir þess án þess að ríkið kæmi þar að. Það var sagt ítrekað á fundi sem ég sat með hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni og eins með hæstv. forsætisráðherra. Þetta átti aldrei að vera á kostnað ríkisins heldur eingöngu á kostnað hrægamma.

Það er líka ástæða til að velta því fyrir sér að verið sé að nýta peninga sem eru ekki í hendi. Mér finnst það mjög alvarlegt af því þetta eru ekki einhverjir smáaurar sem við erum að ræða um. Við erum að tala um 20 þús. milljónir á ári í fjögur ár. Það hefur líka komið fram að ef ekki næst að innheimta það með bankaskatti á þrotabúin verði það samt gert, staðið verður við kosningaloforðið „no matter what“. Það er eiginlega það sem við stöndum frammi fyrir.

Þá spyr maður sig: Hvar ætlar ríkisstjórnin að bera niður? Það getur ekki verið að hún geri það öðruvísi en að skera niður því að það er yfirlýst stefna hennar að lækka skatta. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sérstaklega talað fyrir því að lækka skatta. Ef það er ekki vilji til að taka inn tekjur með sköttum þegar við erum enn í þeirri stöðu að vera að vinna okkur út úr þessu mikla hruni er ekkert annað eftir. Kannski er það í takt við hugmyndir hagræðingarhópsins um að hægt sé að skera niður út og suður í hinu opinbera kerfi. En tæplega um 80 milljarða. Ég dreg ekki í efa að lagfæra megi ýmislegt í rekstri hins opinbera, það fylgir þessu ekki að ég haldi að það sé ekki hægt, en ef bankaskatturinn innheimtist ekki hlýtur það að koma fram í niðurskurði hjá ríkinu.

Maður skynjar það í umræðunni að þegar við tölum um kostnað er átt við að við ætlum að bæta þeim sem minna hafa þá er það kostnaður, en um efnahagsaðgerð að ræða ef þetta er handa þeim sem meira hafa. Það er ábyrgð og við eigum að skoða betur hverjir fá bæturnar, hvers vegna og á kostnað hverra.

Við höfum sagt frá því í ræðum, ég og fleiri í minni hlutanum, að við teljum að með þessu sé verið að færa byrðar yfir á börnin okkar og barnabörnin, framtíðarfólkið okkar, vegna þess að það að lækka séreignarsparnaðinn og tekjur ríkis og sveitarfélaga þýðir að þeir sem njóta núna eru ekki þeir sem þurfa að lifa við væntanlegt tekjutap sveitarfélaganna og ríkisins inn í framtíðina. Það er auðvitað mjög dapurlegt að ríkisstjórn hægri manna skuli velja þá leið að skuldsetja framtíðarfólkið okkar.

Það er nefnilega þannig að við getum átt von á því varðandi lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega að með þeim aðgerðum sem eru boðaðar, bæði þessari og þeirri sem fjallar um séreignarsparnaðinn, séum við að auka lífeyristryggingar eða gjöldin þeirra í framtíðinni og hætta er á því að ríkissjóður þurfi að fjármagna það að einhverju leyti. Við höfum oft rætt, og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur talað um það í mörg ár, hvernig B-deild lífeyrissjóðsins er stödd auk þess sem vandi A-deildarinnar er mikill.

Það er líka þannig að þessi dýra aðgerð hefur fengið þá umsögn að hún sé líkleg til að valda verðbólgu, veikja gengi krónunnar og auka tap Íbúðalánasjóðs. Við fengum viðbótargreiningu vegna þess að sú greining sem kom frá fjármálaráðuneytinu var afskaplega rýr og Íbúðalánasjóður var beðinn um að greina áhrif til framtíðar. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni hvernig staðan gæti verst orðið.

Það er líka vert að vekja athygli á því að við erum að tala um sjóð sem er með í kringum 17 milljarða á svokölluðum greiðslujöfnunarreikningum. Núna þegar fyrsta greiðslan, þessir fyrstu 20 milljarðar, verður greidd út fer hún fyrst til greiðslu á greiðslujöfnunarreikningunum. Mér finnst í rauninni verið að eyðileggja úrræði sem síðasta ríkisstjórn var með vegna þess að þetta hefur það í för með sér, og það var staðfest af þingmanni Framsóknarflokksins, að fyrsta eina og hálfa árið fær fólk ekkert í budduna sína, það finnur ekki fyrir því að það hafi létt á skulda- eða greiðsluvanda. Búið var að semja um það við fjármálastofnanir að greiðslujöfnunarreikningarnir greiddust eftir að lánið væri að öðru leyti greitt og ef það kláraðist ekki innan þriggja ára áttu eftirstöðvar að falla niður.

Aðalatriðið er að með því að byrja á því að borga inn á greiðslujöfnunarreikninginn fær fólkið ekki neitt fyrsta eina og hálfa árið. Ég hef ekki mikla trú á því að það sé það sem kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins áttu von á þegar þessum aðgerðum var lofað með miklum orðavaðli í kosningunum.

Það er líka svo að allt of margir verða út undan í aðgerðunum. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að ríkisstjórninni hafi dottið í hug að skilja fólk út undan sem féll undir meðal annars vaxtabótaréttinn, eins og það hafi ekki orðið fyrir forsendubresti. Hugtakið „forsendubrestur“ er auk þess orðið afskaplega rýrt og er ágætlega farið yfir það í áliti 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem hann rekur hvers vegna forsendubresturinn er orðinn útþynntur, enda byrjaði ríkisstjórnin á því eftir að hún hafði kynnt þessar frægu aðgerðir, sem fóru úr 300 milljörðum niður í 80 af því 70 milljarðar eiga að greiðast úr eigin vasa fólks, að breyta tímabilinu sem var frá desember 2007 til ágúst 2010 í tvö ár, þ.e. 2008 og 2009. Sérfræðingaskýrslan var því í rauninni ómerk hvað þetta varðaði og má segja að hugtakið sé að verða teygjanlegt, eins og svo mörg önnur hugtök þessarar ríkisstjórnar.

Það á líka við um daginn í dag en þá átti að opna fyrir niðurgreiðsluna. (Gripið fram í.) Hæstv. forsætisráðherra sagði að ástæðan fyrir því að þetta mál væri ekki og hefði ekki fengist samþykkt væri vegna þess að stjórnarandstaðan hefði verið með málþóf. Ég vil minna á að þetta mál kom allt of seint inn og það er ekki aðeins að mati minni hlutans. Ég held að allir geti tekið undir það og hefðu gjarnan viljað fá þetta mál inn fyrr til þess að hafa rúman tíma til að fara yfir það. Það er því ekki við okkur að sakast að þetta mál komst ekki hér á dagskrá. Það á eiginlega við um flest þau mál sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og hefur komið fram meðal annars í máli þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins að hún harmar það mjög, sem og forseti þingsins, að málin hafi komið svona seint inn. Ég held að hæstv. forsætisráðherra þurfi aðeins að hugsa það aftur ef hann ætlar að kenna minni hlutanum um að skuldamálin séu ekki komin í gegn.

Aftur að því hverjir það eru sem bera skarðan hlut frá borði. Það eru leigjendurnir, sem hefur mikið verið rætt um. Minni hlutinn í fjárlaganefnd fer ágætlega yfir það og kemur með tillögu um að leigjendur geti nýtt sér séreignarsparnaðarúrræðið. Einnig komum við inn á það að mat umboðsmanns skuldara er að hann telur skjólstæðinga sína ekki vera þann hóp sem er best til þess fallinn að nýta sér það úrræði. Ég hef sagt það hér að það eru í kringum 20 þúsund Íslendingar sem greiða ekki í séreignarsparnað. Það hefði verið áhugavert að fá greiningu á þeim hópi, hvers vegna sparar hann ekki? Er það vegna þess að hann á ekki fyrir því? Eða hvað er það sem veldur? Það hefði verið áhugavert að fá niðurstöðu í það.

Eins og ég sagði áðan snýst þetta í raun um tapið sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð, sem er fyrst og fremst í rýrnandi kaupmætti og lakari lífskjörum. Það er ekki kostur að ríkisvæða einkaskuldir á þennan hátt. Eins og ég sagði áðan er í raun og veru verið að rýra kjör unga fólksins okkar til framtíðar með þessari aðgerð. Það væri miklu skynsamlegra að nýta þær aðgerðir sem hér hafa verið fram settar og hafa nýst ágætlega undanfarin ár, þ.e. vaxtabætur, barnabætur til handa þeim sem minna hafa, í staðinn fyrir að gera þetta á svona flatan hátt.

Við vinstri græn höfum ásamt mjög mörgum haft efasemdir um hvort þetta sé réttlátt. Er réttlátt og sanngjarnt og til jöfnunar að útdeila skattfé á þennan hátt? Ég hlýt að spyrja landsbyggðarþingmenn ríkisstjórnarinnar hvað þeim finnst um aðgerðina á þeim stöðum þar sem íbúðaverð hefur verið lágt og tekjur jafnvel í lægri kantinum. Eru landsbyggðarþingmenn ríkisstjórnarflokkanna sannfærðir um að þessi aðgerð sé það besta sem þeir geta gert fyrir þá aðila? Ég hef sagt að ef ríkið getur framkvæmt svona almennar niðurfellingar hlýtur það að hafa fjármuni til þess og geta ráðstafað þeim. Það er hvernig sem okkur greinir á um hér. Með því að greiða niður vaxtagjöldin, greiða niður skuldir okkar og spara vaxtagjöldin, leggja í auknar vaxtabætur og húsaleigubætur værum við að koma til móts við þann stóra hóp á leigumarkaðnum sem hefur orðið undir.

Þá má líka velta því fyrir sér: Er sanngjarnt að hampa sérstaklega þeim sem tóku verðtryggð lán á kostnað annarra? Hvernig er það réttlætanlegt gagnvart komandi kynslóðum að nota ekki tækifærið og minnka byrðarnar á þeim? Hvernig er það réttlætanlegt að veita þeim sem skulda mest, þ.e. þeim sem eru öllu jöfnu efnaðastir, langstærstu aðstoðina? Hópurinn er ekki stór en hann fær mikla peninga. Ef það á að veita aðstoð í húsnæðismálum, hvernig er réttlætanlegt að hjálpa þeim sem búa í eigin húsnæði en ekki þeim sem leigja og hafa það verra?

Árið 2007 héldum við að við værum bestu bankamenn í heimi. Fyrr á sama áratug ætluðu allir að græða á deCODE. Við trúðum því líka að fótanuddtækið væri algjör snilld. Staðan er auðvitað ekki góð, langt í frá. Við þurfum og ættum að draga djúpt andann og hugleiða vel áður en við höldum áfram með þessar aðgerðir, því að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin færir okkur og landinu og þjóðinni heim sanninn um, þ.e. hvað liggur að baki þessu heimsmeti, er ekki það sem fólk átti von á, ekki þeir sem ég tala við og kusu jafnvel Framsóknarflokkinn, enda sýnir það sig í fylgiskönnunum að það er farið að hrynja allhressilega af þeim fylgið.

Virðulegi forseti. Það kemur ekkert á óvart í sjálfu sér hver áhersla hægri stjórnarinnar er. Það á ekki á koma á óvart, en maður vildi trúa því að hugsunin væri góð þegar hér voru lagðar fram hugmyndir. En eins og ég sagði í andsvari við þingmann í gær eða fyrradag mátti maður segja sér það þegar kosningaloforðin voru sett fram á þennan hátt að það stóðst engan snúning, að sjálfsögðu átti maður ekki að búast við einhverju skynsamlegu í niðurstöðunni.

En eins og ég sagði í gær munum við halda áfram að berjast á móti. Við munum sýna málefnalega stjórnarandstöðu með því að tjá skoðanir okkar, reyna að koma okkar sýn á málin til ríkisstjórnarflokkanna, því að það er eina tækið okkar til þess að reyna að fá einhverju breytt. Það gerðum við sem flokkar í minni hluta fyrir áramótin í tengslum við fjárlagafrumvarpið, ég minni þar m.a. á desemberuppbót til handa þeim sem minnst mega sín.

Ég frábið mér að það sem við segjum hér sé talið málþóf og að það eigi ekki rétt á sér, eins og ítrekað hefur verið sagt í pontu af stjórnarmeirihlutanum, sumum að sjálfsögðu, ekki öllum. Ég tel að ríkisstjórnarflokkarnir og þingmenn þeirra eigi að hugsa vandlega í ljósi umsagna um þetta mál hvort þeir séu á réttri leið. Svo tel ég ekki vera. Forgangsröðunin er ekki rétt.