143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið gagnlegt ef hæstv. ráðherrar hefðu tekið þátt í þessari umræðu með okkur og gert sig gildandi í sjálfri umræðunni, en ekki nú þegar meiningin er að henni ljúki, svo að við hefðum getað átt orðastað við þá og lagt fyrir þá spurningar. Ég þakka engu að síður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að sýna lit í örstuttri ræðu sem nægði mér til þess að vilja spyrja hæstv. ráðherra.

Hann tók sérstaklega fram að þetta væri ekki bara almenn leiðrétting heimilisskulda sem hefði, eins og þeir gjarnan orða það, fastir í fortíðinni, mistekist á síðasta kjörtímabili heldur væri þetta líka efnahagsaðgerð. Það er hárrétt, þetta er tilfærsla á svo miklum fjármunum í samfélaginu að þetta er mjög stór efnahagsaðgerð. Hún á sér nánast ekki hliðstæðu, það segja umsagnaraðilar. En þetta er ekki bara jákvæð efnahagsaðgerð. Það er ekki eins og það sé hægt að slá því föstu fyrir fram. Ég veit ekki á hverju menn grundvalla það að efnahagsáhrifin af þessu verði öll jákvæð, eins og mér fannst hæstv. ráðherra segja.

Hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki lesið t.d. umsögn Seðlabanka Íslands og greiningu hans í heftinu Peningamál? Þar er varað við mörgum mjög alvarlegum neikvæðum áhrifum sem geta líka fylgt þessum aðgerðum, eins og verðbólguþrýstingi, hættu á þenslu, t.d. á fasteignamarkaði, og jafnvel bólumyndun og auknum viðskiptahalla. Seðlabankinn talar alveg skýrt í þeim efnum að hann reikni með því að þurfa að hækka vexti um 0,5–1% til að vinna gegn neikvæðum áhrifum aðgerðanna.

Getur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar með komið, hafandi mikið með atvinnulífið að gera sem mun auðvitað fá á sig hærri vaxtakostnað rétt eins og heimilin og (Forseti hringir.) fyrirtækin, og sagt að þetta hafi eingöngu jákvæð efnahagsáhrif ef við fáum hérna aukna verðbólgu, hærri stýrivexti, aukinn viðskiptahalla og verulega neikvæðar (Forseti hringir.) afleiðingar af því tagi?