143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður skuli viðurkenna að þetta sé meiri háttar efnahagsaðgerð. Hér hafa menn ítrekað talað þessa aðgerð niður. Það er ágætt að nú undir lokin skuli hv. þingmaður viðurkenna það. Hann hefur farið mikinn gegn þessari tillögu enda ekki skrýtið, hann stóð gegn því að meira yrði gert fyrir heimilin, sem einn af forustumönnum fyrrverandi ríkisstjórnar, allt frá því að hann lýsti því yfir 2012 að ekki yrði meira gert fyrir heimilin í landinu.

Já, ég þekki greiningu Seðlabankans. Ég þekki líka aðrar greiningar sem benda til þess að efnahagsáhrifin séu miklu jákvæðari en þau neikvæðu áhrif sem Seðlabankinn hefur ævinlega talað um, að þau séu ekki með þeim hætti sem Seðlabankinn lýsir. Ég tel mjög mikilvægt að menn taki þessar tvær aðgerðir saman, séreignarsparnaðarleiðina annars vegar og skuldaleiðréttinguna hins vegar, því að í heild sinni kemur út að þetta sé jákvæð efnahagsaðgerð sem muni skila miklu fyrir heimilin, muni hafa jákvæð áhrif á hagvöxt, minnka atvinnuleysi, hjálpa til við byggingariðnaðinn og annað í þeim dúr sem eru mjög jákvæð teikn.

Það er líka rétt að margt mjög jákvætt er að gerast í samfélaginu. Við verðum því að fara varlega til þess að ekki verði þensla. Það er einfaldlega þannig að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að því að bæta hér efnahagsástandið og það gengur býsna vel.