143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tímamót, já. Fráfarandi ríkisstjórn leiðrétti skuldir heimilanna eftir efnum. Hún gaf ekki út tékka inn í framtíðina, inn í algera óvissu um hvað skilaði sér af sköttum til ríkissjóðs til að fjármagna þær aðgerðir. Það sem menn ætla að samþykkja hér er ófjármagnað, við skulum muna það. Það kemur meira að segja fram, það eru fyrirvarar um það í sjálfu frumvarpinu, en ég ætla ekki að ræða það hér.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra skýrrar spurningar í von um að fá skýr svör. Ástæðan fyrir því að við stöndum hér og ástæðan fyrir því að menn ætla að leysa vanda ákveðinna heimila er sú að við erum með gjaldmiðil sem kallar á það að við verðtryggjum hann með þeim hætti sem við þekkjum og þeim afleiðingum sem við þekkjum fyrir íslensk heimili og lán þeirra. Þegar menn gefa út þennan óútfyllta tékka er með engu gerð tilraun til að setja tappa í baðkarið og koma í veg fyrir lekann, því lekinn mun halda áfram.

Það kemur skýrt fram hjá Seðlabankanum að bara þessar aðgerðir munu hækka lán heimilanna um 22 milljarða. Ég vil fá skýr svör hæstv. forsætisráðherra við eftirfarandi: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í peningamálum? Með hvaða hætti á að koma í veg fyrir það að þessi saga endurtaki sig? Það er algerlega ljóst að sá forsendubrestur, sem menn eiga reyndar eftir að skilgreina en hafa gert í skýrslu upp á 4,8%, mun verða aftur, þetta mun allt gerast aftur. Hann hefur gerst áður nokkrum sinnum, oft í gegnum tíðina og þetta mun gerast aftur og aftur meðan við búum við óbreytt ástand. Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir áframhaldandi leka og peningastefnu? Það er stóra spurningin.