143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á sumarþingi 2013 var frumvarp nokkurt gert að lögum en frumvarp þetta var nefnt Hagstofufrumvarpið. Frumvarpið var umdeilt og réttilega, enda heimilaði það mjög víðtæka söfnun og úrvinnslu á persónugögnum um alla landsmenn án þeirra samþykkis. Þrátt fyrir að vera óumdeilanlega í trássi við friðhelgi einkalífsins sem þó er skilgreind sem mannréttindi, bæði í stjórnarskrá og samkvæmt alþjóðasáttmálum, var frumvarpið réttlætt á þeim forsendum að það væri nauðsynlegt vegna ríkra almannahagsmuna. Þeir ríku almannahagsmunir áttu að vera einmitt þær skuldaniðurfellingar sem hér eru til umræðu.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er þessi: Hvaða þátt hefur sú gagnasöfnun átt í að gera þessar aðgerðir mögulegar?