143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

stimpilgjald.

585. mál
[21:42]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013.

Lög um stimpilgjald, nr. 138/2013, tóku gildi 1. janúar 2014. Þau fólu í sér umtalsverða breytingu á lagaumhverfi stimpilgjalds. Frá gildistöku laganna hefur fengist nokkur reynsla og í ljós hafa komið agnúar og óvissa sem þessu frumvarpi er ætlað að breyta.

Í fyrsta lagi segir í 1. gr. frumvarpsins:

„Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:

a. Við 2. mgr. bætist: enda endurspegli matsverðið byggingarstig eignar við afhendingu.

b. Við 1. málslið 10. mgr. bætist: og hvort matsverð endurspegli byggingarstig eignar við afhendingu.“

Ástæða þessara breytinga er sú að ekki var í lögunum um stimpilgjöld, nr. 138/2013, horft til þess á hvaða byggingarstigi byggingin væri þegar matsverð eða fasteignamatið væri lagt til grundvallar. Þessa breytingu töldu menn nauðsynlegt að gera.

Í öðru lagi hljóðar 2. gr. svo:

„Við 3. málslið 15. gr. laganna bætist: enda leiði það ekki til þess að skjöl sem voru undanþegin gjaldskyldu fyrir gildistöku laga þessara verði gjaldskyld eða að greiða þurfi hærra gjald vegna gjaldskyldra skjala sem sannanlega voru gefin út fyrir gildistöku laga þessara.“

Virðulegur forseti. Eftir breytinguna mun koma skýrt fram að óstimpluð skjöl sem eru gefin út og/eða undirrituð fyrir gildistöku laganna um stimpilgjald séu gjaldskyld samkvæmt gildandi lögum enda leiði það ekki til þess að skjöl sem undanþegin voru gjaldskyldu fyrir gildistöku laganna verði gjaldskyld eða að greiða þurfi hærra gjald.

Þetta eru þær breytingar sem áætlað er að gera til hagsbóta fyrir neytendur.

3. gr. frumvarpsins hljóðar á þann veg að lög þessi öðlist þegar gildi.