143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

vörugjald.

506. mál
[21:53]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörugjöld, sem eru nr. 97/1987, með síðari breytingum. Þetta frumvarp varðar vörugjald á jarðstrengi. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Frumvarpið er ákaflega einfalt og auðskilið og tillögugreinin, 1. gr., efnistillögugreinin hljóðar svo:

„Tollskrárnúmerið 8544.6000 fellur brott úr C-lið viðauka I.“

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Með þessu frumvarpi er einfaldlega lögð til sú breyting á lögum um vörugjöld, sem ég áður vitnaði til, að þetta tollskrárnúmer falli brott þar sem það stendur. Breytingin hefur það í för með sér að 15% vörugjald sem lagt er á vörur í umræddu tollskrárnúmeri fellur þar með sömuleiðis niður.

Undanfarin þrjú ár hafa tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á þennan tollskrárlið verið í kringum 100 millj. kr. og niður í mjög lítið til dæmis á árinu 2013, þá voru þau 512 þúsund, en 108 milljónir árið 2011 og 126 milljónir árið 2012. Þannig að ekki snýst þetta um mikla fjárhagslega hagsmuni, satt best að segja, en þó er þetta vissulega niðurfelling á vörugjöldum sem hafa gefið ríkissjóði lítils háttar tekjur af og til á undanförnum árum.

Nú eru hv. þingmenn kannski vanari öðru en því að sá sem hér stendur mæli sérstaklega fyrir skattalækkunum eða niðurfellingu gjalda á tekjustofna ríkissjóðs og ekki ætla ég að fara að hrökkva úr karakter, en hér er á ferðinni að mínu mati augljóst sanngirnismál, augljóst framfaramál. Það er einfaldlega vegna þess að jarðstrengir til raforkuflutnings sem eru í þessum tollskrárflokki bera 15% vörugjöld en efni í loftlínur gera það ekki, þau bera engin gjöld. Það er alveg fráleitt að mati okkar flutningsmanna, og vonandi allra þingmanna, að mismuna með þessum hætti með sköttum, jarðstrengjum í óhag. Það má spyrja sig að því hvers vegna í ósköpunum við erum ekki fyrir löngu búin að fella þetta niður, t.d. vegna þess að nú er farið að leggja meira og minna allt dreifikerfi sem er endurnýjað í jarðstrengi. Það er þá þarna verið að leggja viðbótarkostnað á það og gera það að skattstofni fyrir ríkið til að mynda þegar dreifiveiturnar, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða eða hverjir það nú eru, eru að endurnýja dreifikerfin og koma þrífasa rafmagni á í leiðinni. Almennt er það þannig að lágspennta dreifikerfið er ekki endurnýjað nema í jarðstrengjum.

Þetta mundi líka að sjálfsögðu eiga við um jarðstrengi fyrir meiri spennu. Nú er það orðið svo að það er lítill ef nokkur verðmunur að verða á jarðstrengjum og loftlínum allt upp í a.m.k. 66 þús. kílóvolta spennu og dregur saman með jarðstrengjum og loftlínum í jafnvel enn stærri línum.

Herra forseti. Þetta er heitt mál og ég ætla ekki tímans vegna að blanda því neitt inn í þetta, þ.e. deiluna um það hvar eigi að leggja jarðstrengi og hvar eigi að leggja línur í lofti. En eitt hljótum við að geta verið sammála um og það er að ríkið á ekki að mismuna öðrum valkostinum í óhag með skattlagningu af þessu tagi. Það er lágmark, finnst okkur a.m.k., að jarðstrengirnir sitji við sama borð og loftlínurnar að þessu leyti. Ef eitthvað væri mætti frekar færa rök fyrir því að það væri vörugjald á hinum megin ef stjórnvöld vildu frekar en hitt stuðla að því að við losnuðum við þá sjónmengun og þær deilur sem í vaxandi mæli eru farnar að tengjast því þegar á að fara að leggja nýjar háspennulínur þvers og kruss.

Málið er afar einfalt. Ég held að það sé líka óumdeilt. Þetta er í raun og veru samkvæmt ábendingu nefndar sem fjallaði um þessi jarðstrengjamál og ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn þekki skýrsluna, þannig að það hefur beinlínis verið mælt með þessu við íslensk stjórnvöld. Umhverfisverndarsamtök og fleiri aðilar mundu fagna því mjög ef Alþingi drifi í því að gera þessa einföldu breytingu. Það gætum við auðvitað gert á þeim sólarhring eða tveimur sem eftir standa þingstarfanna ef við verðum í góðu skapi í efnahags- og viðskiptanefnd í fyrramálið, sem ég legg til að fái málið eftir þessa 1. umr.