143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar.

487. mál
[21:59]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Haraldur Einarsson og Ásmundur Friðriksson.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að taka til endurskoðunar virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem felur í sér að:

a. íþrótta- og ungmennafélög verði undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni, að öllu leyti,

b. íþrótta- og ungmennafélög hafi heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum.“

Virðulegi forseti. Meginmarkmiðið með þessari tillögu er að ríkisstjórnin komi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi og þátttöku foreldra og annarra sjálfboðaliða í því starfi. Tillagan er jafnframt í fullu samræmi við markmið og stefnuskrá ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmál. Það verði gert í samræmi við þessa tillögu.

Í fyrsta lagi, eins og fram kom í inngangi, að sjálfboðaliðastarf verði varið með einfaldari lagaumgjörð og mannvirkjagerð efld til að tryggja að allir iðkendur og sjálfboðaliðar geti notið sem bestrar aðstöðu og aðbúnaðar við íþróttaiðkun sína.

Virðulegi forseti. Fyrri hluti tillögunnar, a-liðurinn, snýr að þeirri kröfu að íþrótta- og ungmennafélög verði undanþegin virðisaukaskatti að öllu leyti. Það er eðlilegt að spyrja hvers vegna. Í stuttu máli er hér verið að verja sjálfboðaliðastarf íþróttahreyfingarinnar. Sjálfboðaliðastarf hefur löngum skipað veglegan sess í íslensku samfélagi og hægt að nefna mörg glögg dæmi um félög og stofnanir sem bornar eru uppi af slíku starfi sem skilar miklum almannagæðum.

Í þeim almannagæðum felst mikill þjóðhagslegur ábati sem þó getur oft verið erfitt að setja efnahagslega mælistiku á. Þó er hægt að vitna til fjölmargra rannsókna sem staðfesta forvarnagildi íþrótta og að þátttaka barna og unglinga í skipulegu íþróttastarfi dregur úr líkum á hvers konar frávikshegðun. Þannig hafa rannsóknir meðal annars sýnt að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Þá dregur aukin hreyfing úr tilfellum alvarlegra sjúkdóma og hefur jákvæð áhrif á allt skólastarf og vinnumarkað, fækkar veikindadögum og töpuðum vinnustundum og eykur þannig framleiðni. Þannig má færa rök fyrir því að skipulagt starf íþróttafélaga leiði til þjóðfélagslegs heilsuábata.

Virðulegi forseti. Þessu til áréttingar ætla ég að vitna til nýrrar rannsóknar sem unnin var af Rannsóknum og greiningu meðal framhaldsskólanema fyrir þróunar- og fræðslusvið Íþróttasambands Íslands. Þar kemur meðal annars fram að unglingar sem stunda íþróttir með íþróttafélagi eru líklegri til að standa sig betur í íslensku og stærðfræði í skóla. Þau meta líkamlega og andlega heilsu sína betri eftir því sem þau æfa meira. Sjálfsmynd þeirra sem æfa íþróttir er meiri og betri en hinna sem gera það ekki og þau upplifa sig hamingjusamari og ánægðari með sitt líf.

Þá kemur fram, um tengsl íþróttaiðkunar og vímuefnaneyslu, að því oftar í viku sem þau stunda íþróttir með íþróttafélagi því ólíklegri eru þau til að neyta vímuefna.

Sjálfboðaliðastarf skiptir sköpum í starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Ef ekki væri fyrir allt það óeigingjarna starf sjálfboðaliða, forráðamanna og foreldra, leyfi ég mér að fullyrða að erfitt yrði að halda úti því skipulagða starfi sem fram fer í íþrótta- og ungmennafélögum sem raun ber vitni.

Við Íslendingar gerum miklar kröfur til skipulagðrar íþróttastarfsemi, en um leið verðum við, löggjafinn, að hlúa að umgjörðinni. Fjöldi fólks leggur íþróttahreyfingunni lið án þess að þiggja endurgjald fyrir störf sín. Stjórnir, ráð, nefndir og foreldrafélög aðstoða við framkvæmd kappleikja og íþróttamóta og standa að ýmiss konar fjáröflun. Aukið aðkoma foreldra að starfi íþróttafélaganna, í gegnum íþróttaiðkun barnanna, er einn jákvæðasti þátturinn í þeirri þróun sem er að eiga sér stað.

Virðulegi forseti. Í þingsályktunartillögunni gerum við flutningsmenn grein fyrir þeirri skattskyldu sem hvílir á íþróttahreyfingunni. Þrátt fyrir að íþróttafélög séu undanþegin virðisaukaskatti, vegna íþróttastarfsemi sinnar, eru þau skattskyld ef þau selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í atvinnuskyni eða samkeppni við atvinnufyrirtæki. Í slíkum tilvikum ber íþróttafélögum því að innheimta útskatt af slíkri sölu og geta þá dregið frá innskatti af þeim aðföngum sem tengjast þeirri sölu. Sala auglýsinga, styrktarlína og ýmiss konar fjáröflunarstarfsemi, eins og til dæmis klósettpappírssala, er virðisaukaskattsskyld sala samkvæmt núgildandi lögum og ber að standa skil á fari heildartekjur félags yfir eina milljón króna.

Eins og málum er háttað í dag þegar kemur að virðisaukaskattsskyldu, getur ábyrgð stjórnarmanna og annarra sjálfboðaliða á skilum á skatti og opinberum gjöldum verið mikil og jafnvel meiri en flestir sjálfboðaliðar gera sér grein fyrir. Opinberir aðilar geta beitt þungum viðurlögum við vanskilum á opinberum gjöldum. Líklegt má telja að þeim aðilum sem taka að sér sjálfboðaliðastörf í íþróttahreyfingunni gæti fækkað verulega væri þeim þessi ábyrgð að fullu ljós og þeir upplýstir um þau viðurlög sem beita má. Það er því mikilvægt að löggjafinn bregðist við og skapi um leið hvetjandi umhverfi fyrir allt sjálfboðaliðastarf og stuðli að sem mestri þátttöku foreldra í því barna- og uppeldisstarfi sem íþróttahreyfingin veitir.

Ég ætla nú að koma að seinni lið tillögunnar sem snýr að því að efla mannvirkjagerð og þann aðbúnað og umgjörð utan um allt starfið, bæði sem snýr að íþróttaiðkuninni sjálfri en ekkert síður félagslega þættinum.

Árið 2009 var samþykkt breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem veitt var heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu meðal annars við frístundahúsnæði. Þannig geta íþróttafélög fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu við íþróttamannvirki og hefur þetta ákvæði verið framlengt í tvígang, nú síðast við fjárlagagerð fyrir árið 2014 og gildir út þetta ár.

Iðkendum fer sífellt fjölgandi, bæði í þeim hópi sem heyrir undir skilgreiningu afreksíþrótta og í þeim hópi sem út frá lýðheilsusjónarmiðum er ekkert síður mikilvægur og tilheyrir almenningsíþróttum. Áberandi fjölgun er í hópi barna og unglinga og svo eldri borgara. Þörf er fyrir fleiri mannvirki til að bæta sívaxandi fjölda og það er áberandi ákall hjá mörgum íþróttafélögum í dag að bregðast þurfi við auknum fjölda. Þá er ekkert síður mikilvægt að horfa til hins félagslega þáttar sem við meðal annars styðjum og eflum í a-lið þessarar tillögu.

Íþrótta- og ungmennafélög eru fjölskyldu- og félagsmiðstöðvar nútímasamfélags og þar þurfum við að horfa til hönnunar og aðstöðu til að tryggja að þær geti sinnt hlutverki sínu, bæði hvað varðar íþróttaiðkunina sjálfa og svo það félagslega starf sem því fylgir.

Ástæða þess að við flutningsmenn málsins förum með málið í þennan tillögufarveg er sú að það er mikilvægt að fram fari greining á fjárhagslegum áhrifum slíkrar endurskoðunar og lagabreytingar. Það er jafnframt mikilvægt að fá að mæla fyrir því nú og hraða framgangi málsins þar sem þegar er hafin vinna að heildarendurskoðun virðisaukaskattskerfisins af hálfu stýrihóps sem skipaður er af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Því töldum við, flutningsmenn þessarar tillögu, nauðsynlegt að endurskoðun á virðisaukaskattskerfi íþróttahreyfingarinnar, eins og lagt er til í þessari tillögu, geti unnist samhliða þeirri heildarendurskoðun sem þegar er hafin þannig að slík kerfisbreyting í þágu íþrótta á Íslandi falli að fyrirhuguðum tillögum og framkvæmd á virðisaukaskattskerfinu í heild sinni.

Virðulegi forseti. Það er von okkar flutningsmanna að tillagan fái góðan hljómgrunn og vandaða umfjöllun og að lokinni þessari umræðu gangi hún til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.