143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, og ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar.

Annar minni hluti bendir sérstaklega á að eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar var að lækka veiðigjöld umtalsvert. Rökin fyrir því fólust aðallega í því að koma þyrfti til móts við minni og meðalstórar útgerðir. Engu að síður var lækkunin flöt og breytingartillögum þáverandi minni hluta um að mæta minni útgerðum með hækkuðu frítekjumarki var hafnað. 2. minni hluti undirstrikar enn mikilvægi þess að komið sé til móts við minni og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi í stað þess að beita flatri lækkun. Brýnt er að greina þau fyrirtæki sem teljast til minni og meðalstórra en ekki kemur fram að slík greining hafi farið fram. Þegar slík greining liggur fyrir verður unnt að koma til móts við þau fyrirtæki án þess að lækka veiðigjöld vegna þeirra sem eiga auðvelt með að standa undir þeim.

Á innan við ári leggur stjórnarmeirihlutinn í aðra umferð og leggur til verulega viðbótarlækkun veiðigjalda á næsta fiskveiðiári, auk þess að leggja til að fella niður eða stórlækka veiðigjöld á tilteknar fisktegundir á yfirstandandi fiskveiðiári.

Annar minni hluti telur frumvarpið sem og lagabreytinguna sem fólst í lögum nr. 84/2013 byggjast á afar veikum efnisforsendum sem eru ekki studdar trúverðugum, tölulegum gögnum. Þó fyrir liggi vísbendingar um að afkoma að minnsta kosti sumra greina sjávarútvegsins hafi nokkuð versnað frá metárinu 2012 verður að hafa í huga að hún er enn góð og með því besta sem hefur sést í sjávarútvegi í sögulegu samhengi. Verðþróun virðist einnig vera jákvæðari og á það til dæmis við um saltfisksafurðir, auk þess sem liðkast hefur um sölu og birgðahald hefur þar með minnkað. Rétt er að minna á að lækkun verðvísitölu sjávarútvegsins hefði samkvæmt álagningu á grundvelli gildandi laga sjálfkrafa leitt til samsvarandi lækkunar sérstaks veiðigjalds, enda innbyggt í ákvæði laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, mikið næmi fyrir slíkum breytingum. Hér er hins vegar gengið miklu lengra og það svo langt að allt virðist stefna í að bolfiskshluti sjávarútvegsins greiði nær ekkert sérstakt veiðigjald á næsta ári að teknu tilliti til lækkunarréttar.

Annar minni hluti telur jákvætt í sjálfu sér að leitast við að skipta álagningu veiðigjalda betur niður á einstakar fisktegundir, enda alltaf að því stefnt að þróa kerfið í þá átt frá því ný lög um veiðigjöld voru sett árið 2012. Forsendurnar í gildandi frumvarpi eru hins vegar mjög veikar og því í reynd að lokum um pólitískar ákvarðanir að ræða.

Þá gagnrýnir 2. minni hluti að í athugasemdum við frumvarpið er röksemdafærsla sem klárlega gengur í þá átt að færa aðferðafræði veiðigjaldanna frá þeirri meginhugsun að auðlindin er sameign þjóðarinnar og á hún því eðlilega kröfu á hlutdeild í umframarði eða rentu af henni. 2. minni hluti telur þó til bóta að stjórnarandstaðan hefur náð fram þeirri breytingu á málinu að um hreina bráðabirgðaráðstöfun er að ræða fyrir næsta fiskveiðiár enda gildir helsta ákvæði frumvarpsins í ákvæði til bráðabirgða fyrir næsta fiskveiðiár og þegar það er liðið munu lögin um veiðigjöld standa óbreytt.

Annar minni hluti bendir á að í umsögn Indriða H. Þorlákssonar um málið kemur fram að lögunum um veiðigjöld hefði fremur verið ætlað að vera auðlindamál en tekjuöflunarmál. Hann bendir á að lögin hefðu verið sett með það grundvallarsjónarmið í huga að fiskstofnarnir væru eign þjóðarinnar og hluti af náttúruauðlindum hennar. Þá vísaði hann til þess í umsögn sinni að markmið laganna væri annars vegar að með tekjum af veiðigjöldum ætti að greiða þann kostnað við umsýslu sjávarútvegs sem ríkið stæði straum af og hins vegar að sameign þjóðarinnar á auðlindinni fæli í sér að hún nyti arðs sem skapaðist af nýtingu auðlindarinnar. Í umsögninni kemur fram það álit að ekki sé lengur samhengi milli framangreinds markmiðs laganna og ákvörðunar veiðigjalda. Þá er í umsögninni bent á það sem 2. minni hluti hefur þegar getið um, þ.e. að engin efnisleg sjónarmið sé að finna í frumvarpinu eða athugasemdum með því um hvernig heildarfjárhæð veiðigjalda er ákveðin.

Annar minni hluti telur allt of langt gengið í illa rökstuddri og verulegri lækkun veiðigjalda í annað sinn á innan við ári. Lækkunin mun leiða til mikils tekjutaps fyrir ríkissjóð og umfram það sem þörf er á til að mæta tímabundið lítillega lakari afkomu í sjávarútvegi frá því sem hún hefur albest orðið fyrir aðeins einu og hálfu ári. 2. minni hluti leggst því gegn frumvarpinu í heild sinni.

Ég ætla að gera aðeins nánari grein fyrir afstöðu minni í málinu. Það er kannski ekki alveg allt sem sýnist því að í þeim breytingartillögum sem kynntar eru með nefndaráliti framsögumanns málsins, formanns atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, er verið að lækka veiðigjöld enn frekar um 1.100–1.200 milljónir frá því sem var í frumvarpinu sem gerði ráð fyrir lækkun upp á 1 milljarð í ár og 1,8 milljarða á næsta ári. En talið er að með aflaaukningu verði veiðigjöld álíka og kemur fram í því frumvarpi sem við ræðum hér og liggur fyrir.

Ég verð að segja að mér finnst vera gengið allt of langt í lækkun veiðigjalda. Þó að fram hafi komið hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að framlegð fyrirtækja hafi dregist eitthvað saman og afurðaverð tekið sveiflum þá kom líka fram að það lægi einnig í loftinu hjá þeim sem væru að vinna fyrir sjávarútveginn og markaðsmönnum að allt benti til þess að verð væri aftur að fara upp á við. Því finnst mér mjög óeðlilegt að menn stökkvi til án þess að hafa greiningu eða nákvæmar afkomutölur til að styðjast við og fari út í enn meiri lækkun en komin er og þykir nú víst mörgum nóg um.

Ég sé það í töflunni sem fylgir breytingartillögunni að verið er að lækka ýmsar tegundir og hækka aðrar. Heilt yfir sýnist mér að verið sé að hækka bolfiskstegundirnar en lækka uppsjávartegundirnar. Þær breytingar eru ákveðnar með pólitískri ákvörðun. Það er ekki einhver reikniformúla sem liggur þar vísindalega að baki, það á bara enn eftir að lenda því hvernig það verður útfært ef menn vilja breyta núverandi lögum um veiðigjöld. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu sisvona að nota eigið hyggjuvit eða setja puttann upp í loftið með það að í heild eigi að lækka veiðigjöldin enn frekar en boðað var í frumvarpinu, sem boðaði 2,8 milljarða í lækkun á þessu ári og næsta ári, og fara út í 1,2 milljarða, sýnist mér, en vísa svo í eitthvað sem er auðvitað ekki í hendi enn sem komið er. Menn hafa ýmsar væntingar um að þorskafli verði aukinn um allt að 30 þúsund tonn og loðnan fari úr áætluðum 200 þúsundum á næsta fiskveiðiári í 360 eða 400 þúsund og að í makrílveiðum gæti aukning hugsanlega orðið upp á 7 þúsund tonn.

Allt eru þetta að sjálfsögðu ánægjulegar fréttir ef það stenst og mjög ánægjulegt bæði fyrir greinina og allt það starfsfólk sem vinnur í henni og okkur sem þjóð að við séum að fá vonandi aflaaukningu í þeim tegundum og það skili okkur öllum gjaldeyri, tekjum og líka auðlindarentu. En það er eins og þetta afgjald til þjóðarinnar verði einhver afgangsstærð sem alltaf er hægt að klípa af. Ef þessi viðbót verður að veruleika og við fengjum okkar eðlilegu rentu af því í ríkiskassann værum við auðvitað að tala um háar fjárhæðir þar fyrir ríkissjóð, sem honum veitir ekki af í velferðarmál og ýmis mál sem brenna á okkur. En svo er verið að tala um enn frekari lækkun veiðigjalda í þeim breytingartillögum sem hafa verið gerðar í atvinnuveganefnd milli 2. og 3. umr.

Það eru nokkrar tegundir sem ég tel að full rök séu fyrir því að skoða lækkun á og hafa verið rökstuddar afkomutölum, sem ég kom ekki inn á í nefndaráliti mínu en ég mun taka afstöðu til þeirra lækkana á umræddum tegundum þegar að atkvæðagreiðslu kemur, og er ég að tala um það sem kemur fram í 3. lið breytingartillögunnar.

„2. Úthafskarfa sem veiddur er á ICES-svæði I og II (í Síldarsmugunni) vegna almanaksársins 2014.

3. Dohrnbankarækju, úthafsrækju og rækju á miðunum við Snæfellsnes vegna fiskveiðiársins 2013/2014.

4. Lindýr og skrápdýr vegna fiskveiðiársins 2013/2014.“

Ég tel að það skýrar afkomutölur liggi fyrir varðandi þessar tegundir að fullt tilefni sé til að bregðast við því, þ.e. að þar séu ekki greidd sérstakt veiðigjald eða almennt gjald.

Varðandi þorsk og meðafla hans í rússneskri og norskri lögsögu vegna almanaksársins 2014 hef ég ekki fengið neinar vísindalegar sannanir eða rökstuðning fyrir því að svo slæmar afkomutölur séu í þeim veiðum sem rökstyðja það að fella niður álagningu almenns og sérstaks veiðigjalds á þeim tegundum. Ég hef fengið þær fregnir að menn hafi verið að gera mjög góða túra á þær slóðir sem hafa skilað góðum tekjum og aflahlut. Íslendingar eru með samning við þær þjóðir og mér finnst því ekki óeðlilegt, þar sem við erum með samning við þær, að þeir sem nýti sér það, íslenskar útgerðir, greiði að lágmarki almenna veiðigjaldið. Og ef menn skila góðum hagnaði, sem ég hef fengið fréttir af og er ekki að rengja það, greiði menn sérstakt veiðigjald ef hagnaðurinn gefur það í skyn að innstæða sé fyrir því.

Mér finnst mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu að fá fram afkomu hverrar tegundar, það er það sem átti að halda áfram að vinna í framhaldi af lagasetningunni um veiðigjöld 2012, að endurskoða þorskígildin. Sú vinna hefur kannski gengið frekar hægt, hún hefði mátt ganga miklu hraðar. Mjög brýnt er að fá sem bestar samtímaupplýsingar, raunupplýsingar, um hvað hver og ein tegund er að skila svo hægt sé að leggja á veiðigjald sem byggist á sem bestum og nýjustum upplýsingum.

Maður batt vonir við að það mundi gerast miklu fyrr að aðilar eins og Fiskistofa, ríkisskattstjóri og Hagstofan gætu tengt upplýsingar sínar saman um sjávarútveginn svo hægt væri að fá upplýsingar um afkomu greinarinnar sem næst rauntíma þess að veiðigjöld væru lögð á. En eitthvað er þetta nú að mjakast áfram að mér skilst. Ég vona að þegar við fjöllum aftur um þessi mál í haust, trúlega kemur nýtt frumvarp fram frá hæstv. ráðherra, verði búið að greina sem best allt undirliggjandi sem ekki lá nægjanlega fyrir þegar lög um veiðigjöld voru sett á árið 2012, svo hægt sé að innheimta eðlilega auðlindarentu miðað við afkomu hverrar tegundar og afkomu greinarinnar. Og að við tölum um auðlindarentuhugtakið en ekki skattlagningu, því að skattlagning er auðvitað bara allt, allt annar handleggur. Auðlindarentuhugtakið á að fylgja sveiflum í greininni eftir afkomu. Ekki á að vera hægt að blanda óskyldum fjárfestingum til frádráttar áður en til auðlindarentu kemur, að hún falli til þjóðarinnar. Það er ekki eðlilegt að menn geti þá dregið frá alls kyns óskyldan rekstrarkostnað og fjárfestingarkostnað áður en menn greiði sjálfsagt afgjald til þjóðarinnar. En þetta liggur svona.

Ég sagði í síðustu ræðu um þessi mál að sjávarútvegurinn skilaði miklum hagnaði og útgerðin hefur verið að sýna hagnað á síðasta ári, fjögur stærstu útgerðarfyrirtækin upp á 25 milljarða. En vissulega þarf að greina betur afkomu minni og meðalstórra útgerða og það kemur fram í því nefndaráliti sem ég mælti fyrir. Ég tel líka alveg fullkomlega koma til greina að skoða það sem kom fram hjá Daða Má Kristóferssyni auðlindahagfræðingi hvort við ættum að splitta upp sérstaka veiðigjaldinu eftir útgerðarflokkum, hvort ástæða þætti til að draga línu þar á milli.

Ég vil sjá í landinu fjölbreytt rekstrarform í útgerð. Ég tel að þar eigi mismunandi bátastærðir fullkomlega rétt á sér. Mér hefur alltaf þótt svolítið sérkennilegt og kannski undirstrika nauðsyn þess að smábátaútgerð geti þrifist og verið blómleg við strendur landsins að í kynningum og auglýsingum hjá einu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, Samherja, þegar það er að markaðssetja sjávarafurðir sínar — hvaða mynd haldið þið að sé þar á lógóinu hjá því fyrirtæki í kynningu? Það er smábátur á veiðum við Íslandsstrendur. Og af hverju ætli það sé? Vegna þess að markaðsmenn Samherja vita að alltaf er verið að kynna meir og meir vistvænar veiðar og horfa til þess að umhverfisvænar, vistvænar veiðar og ferskt hráefni sem kemur sem fyrst að landi og fer beint á borð neytenda, í því hafa þessir dagróðrabátar einmitt verið að eflast. Sjávarklasinn hefur verið að þróa sig áfram með það að markaðssetja vistvænar veiðar. Eftirspurnin ræður líka útgerðarforminu. Menn geta ekki á Alþingi teiknað upp einhverja löggjöf sem þrýstir öllu í samþjöppun og allt á að vera til þess að ná sem mestri hagræðingu. Við verðum líka að horfa til þess að markaðir kalla líka eftir því að útgerðarmynstur við Ísland sé fjölbreytt og að þeir sem kaupa afla af okkur erlendis fái sem fjölbreyttastar afurðir. Ferskfiskútflutningur er auðvitað alltaf að aukast og þar eru hin minni fyrirtæki mörg hver að gera mjög góða hluti.

Það hefur líka komið fram í umræðunni að eitthvert samasemmerki sé á milli þess að frystitogurum sé að fækka og að veiðigjöld hafi verið lögð á. Ég tel ekki vera neina samfellu þar á milli. Menn eru fyrst og fremst að aðlagast markaðnum og eru þess vegna að fara frekar í línuútgerð og ísfisktogaraútgerð og hætta að reka frystitogara. Menn geta ekki sagt að þeir séu að selja frystitogara sína frá sér og breyta útgerðarformi vegna þess að veiðigjöldin séu að sliga þær útgerðir. Það er fyrst og fremst eftirspurn markaðarins sem ræður þar för og menn aðlaga sig markaðnum þar eins og annars staðar, eftirspurn hverju sinni eftir hráefnum. Þess vegna finnst mér mikilvægt að greinin borgi eðlilegt afgjald. Ég er ekki hlynnt því að tekin séu óeðlilega há gjöld af sjávarútvegi umfram það sem greinin rís undir, en hún verður líka að vera tilbúin til þess að leggja öll spil á borðið og menn geri grein fyrir því heiðarlega og aðgengi sé að öllum upplýsingum hjá útgerðum til þess að við, sem erum löggjafinn hverju sinni, getum unnið með sem réttastar upplýsingar og tölur í þeim efnum til að byggja á álagningu.

Ég ætla ekki að segja að eitthvað hafi verið fundið upp sem er óbreytanlegt og megi ekki bæta og laga. Ég tel að mikil og góð vinna hafi verið lögð í að reyna að greina þessa auðlindarentu og aðferðafræðina í kringum hana. Það var viðurkennt að það þyrfti að endurskoða og breyta enn frekar þorskígildisstuðlum. Ég tel því að sú aðferðafræði sé góð þó að alltaf megi bæta um betur. Ef einhverjir koma með leiðir sem einfalda þetta enn frekar án þess að menn fari að fara í einhverjar krókaleiðir til að auðvelda mönnum að draga allt af áður en til auðlindarentunnar kemur tek ég ekki þátt í slíkri vinnu og tel að þá séum við farin að tala um allt, allt aðra hluti.

Mér finnst að útvegurinn sjálfur sé nú að gangast inn á það að þetta sé bara eðlilegt, það er ekki neitt verið að hýrudraga menn. Það er ekki sjálfgefið að við höfum þessa auðlind hér allt í kringum okkur, okkur ber líka að ganga um hana þannig að við getum afhent hana næstu kynslóð með sjálfbærum hætti. Þetta er fjöregg þjóðarinnar, sjávarauðlindin í kringum allt landið, og það skiptir máli hvernig við umgöngumst hana og það veit ég að þeir sem stunda sjóinn skilja, því að þetta er þeirra mjólkurkýr. Ég held að alltaf sé að aukast enn frekar skilningur á því að sátt þarf að nást í þessum málum, að þjóðin fái sem eðlilegasta rentu til þess að við getum haldið áfram að yrkja þá auðlind okkar, þó að alltaf verði til þeir aðilar sem berji sér og telji sig alltaf vera á hausnum. Því miður hefur það dálítið loðað við útgerðir gegnum tíðina að menn hafa verið með svolítinn barlóm og kannski oftar en ekki þeir sem síst þurfa að vera með barning. Það heyrist kannski minna í þeim sem hafa hægt og bítandi verið að byggja sig upp og ekki farið neinu offari. En þeir sem hafa stundum farið óvarlega og farið fram úr sér og farið út í alls konar fjárfestingar óskyldar sjávarútvegi og tekið út úr greininni til eigin neyslu og fjárfestinga í óskyldum rekstri og skilið eiginlega greinina eftir í þeirri stöðu að hún stendur höllum fæti, það heyrist kannski stundum oftast í þeim sem þá kalla á að þeir geti ekkert lagt af mörkum en eru kannski búnir að mergsjúga fyrirtækin sjálfir í eigin hagnað og neyslu en hafa skilið minna eftir í fyrirtækjunum til að byggja upp innviði þess. En í öllum fyrirtækjum á auðvitað að vinna þannig að féð sé nýtt í uppbyggingu á rekstrinum til framtíðar.