143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[23:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég er á því nefndaráliti sem framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Jón Gunnarsson, kynnti hér fyrr og skrifa undir með fyrirvara. Þetta mál hefur verið mikið til umræðu í nefndinni og kannski á mörgum öðrum stöðum líka því að þarna er um að ræða hluti sem hafa skipt miklu máli upp á atvinnu í byggðarlögum sem hafa byggt sig upp á rækjuveiðum frá því að veiðar á rækju voru gefnar frjálsar árið 2010. Þau horfðu fram miklar breytingar ef hlutfallssetning á úthafsrækju yrði sú sem kom fram í frumvarpinu áður en sú breytingartillaga sem hér er kynnt var lögð fram. Hlutfallssetningin gekk út á það að handhafar svokallaðar rækjuhlutdeildar áttu að fá 70% af hlutdeildarsetningu, en þeir sem höfðu verið á frjálsum veiðum frá árinu 2010 áttu einungis að fá 30%. Töldu menn sig ekki geta haldið áfram rekstri á þeim forsendum, hvort sem var í rækjuvinnslu á mörgum stöðum, kannski sérstaklega á Ísafirði en aðrar rækjuvinnslur voru vissulega inni í myndinni líka, eða hjá þeim útgerðum sem hafa útvegað rækjuvinnslum hráefni og hafa stundað veiðar eftir að þær voru gefnar frjálsar árið 2010.

Þarna lágu því undir miklir hagsmunir og fjöldi starfa, tugi starfa. Því miður held ég að tíminn sem hefur farið í að reyna að fá niðurstöðu í þetta mál hafi haft alvarlegar afleiðingar nú þegar. Menn hafa tekið ákvarðanir sem leiða af sér að störfum hefur fækkað bæði til sjós og lands. Það er mjög mikið áhyggjuefni að vita af því. En ég hef lagt mikla áherslu á að reyna að koma einhverri málamiðlun í gegn í þessu máli og talað fyrir að fyrst hlutdeildarsetja ætti úthafsrækju aftur og leggja af frjálsar rækjuveiðar yrði reynt að mætast á miðri leið. Núverandi handhafar aflahlutdeildar, þ.e. sem voru með hlutdeild áður en rækjuveiðar voru gefnar frjálsar, gerðu tilkall til þess að þeir fengju 100% úthlutun. Í raun komu sömu kröfur, álíka kröfur á móti frá þeim sem hafa veitt frjálst undanfarin fjögur ár. Það er því að vissu leyti fólginn salómonsdómur í þessari breytingartillögu en mér finnst það vera sanngjarnari salómonsdómur að skipta þessu í 50% á báða vegu gagnvart þeim aðilum sem voru fyrir með hlutdeild, áður en rækjan var gefin frjáls, og þeim sem stunduðu veiðar í framhaldi af því.

Ég held því að málinu hafi verið lent vel á lokametrunum en það var ekkert sjálfgefið í þeim efnum og vil ég þakka þeim sem þar áttu hlut að máli. Ég vil líka beina orðum mínum að hæstv. sjávarútvegsráðherra og hv. formanni atvinnuveganefndar og þakka þeim fyrir að hafa komið til móts við þessar óskir og tel að það hafi verið skynsamlegt. Svo verðum við að sjá til með framhaldið og hvernig vinnst úr þessum málum þegar nýtt frumvarp um þau kemur fram á næsta þingi. En þetta er að minnsta kosti lagt til núna og gefur ákveðið merki fram á við, tel ég.

Ég ætla að stikla á stóru varðandi nokkur atriði í þessu frumvarpi. Það var á tímabili orðið ansi viðamikið en núna er búið að hreinsa út úr því breytingar á veiðigjöldum sem fóru þar inn svo að ekki stendur eins mikið eftir en samt kennir ýmissa grasa. Hér eru lagðar til breytingar um að fastsetja 5,3% af úthlutun aflamarks í hverri tegund, sem er aukning. Þarna er um að ræða félagslegar aðgerðir eða byggðapotta. Það er með öðrum orðum lagt til að ráðherra hafi heimild til að skipta þessu aflamagni niður til ólíkra ráðstafana til að bregðast við þeirri þörf sem sýnir sig við úthlutun hverju sinni, m.a. séð í ljósi þess markmiðs laga um stjórn fiskveiða að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu fiskstofnanna og treysta byggð og atvinnu í landinu. Hér er lagt til að ráðherra verði falið að leggja fyrir þingið tillögu um ráðstöfun á þessu aflamagni, í formi þingsályktunartillögu, eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. En í framkvæmd verður að ætla ráðherra að hann geri langtímaáætlun um hvernig heimildirnar verði nýttar.

Ég sé ástæðu til að taka fram að engin meiri háttar breyting er fyrirhuguð um nýtingu á þessum pottum á komandi fiskveiðiári, en stefnt er að því að lengri tíma áætlun um nýtingu þeirra verði fyrst lögð fram á næsta löggjafarþingi 2014–2015. Það verður sem sagt ekki nein sérstök tilgreining á einstökum tegundum eins og nú er mælt fyrir um í gildandi lögum. Það fer eftir aðstæðum og þörfum á hverjum tíma hvaða aflamarkstegundum ráðherra sækist eftir til að ráðstafa til byggðatengdra og félagslegra verkefna. Til þess hefur einkum verið um að ræða tilteknar botnfiskstegundir og er því nauðsynlegt að starfrækja skiptimarkað með aflaheimildir eins og gerð er tillaga um í frumvarpsgreininni og slíkur skiptimarkaður um aflaheimildir er í raun þegar starfandi.

Ég veit að mörgum sem starfa undir þessum hluta fiskveiðistjórnarkerfisins er brugðið við að heyra um þessar breytingar þar sem þeir aðilar hafa ekki komið að þeirri vinnu ráðuneytisins að setja þetta allt í einn pott og ekki er skilgreint hvað fer í línuívilnun eða strandveiðar eða aðrar byggðalegar aðgerðir. Samt skal ítrekað að fyrirkomulagið verður óbreytt næsta fiskveiðiár. Ég treysti því að málið fái í framhaldinu góða umfjöllun þar sem allir þeir sem hlut eiga að máli fái að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og ekki sé verið að draga úr byggðalegum og félagslegum aðgerðum eða tilgangi þeirra heldur sé hugsað um að nýta þennan hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, sem er í dag orðinn, ef þetta verður að lögum, 5,3% af úthlutuðu aflamarki. Hann verði nýttur enn þá markvissar en gert er í dag og til staðar sé sveigjanleiki til að mæta þeim aðstæðum sem uppi eru hverju sinni, en þó með langtímahugsun að baki. Ráðherra verði að gera grein fyrir því í þingsályktunartillögu fyrir þinginu til þriggja ára og leggja fram áætlun til sex ára.

Í sjálfu sér er ég ekkert andsnúin því að þetta kerfi sé stokkað upp og skoðað með slíkum gleraugum en tek undir að auðvitað eiga allir þeir sem starfa og vinna í greininni undir þessum lögum og sem hafa stundað veiðar samkvæmt pottunum sem þarna um ræðir, að hafa eðlilega aðkomu að umræðu og skoðanaskiptum um þessi mál svo að niðurstaðan verði sem farsælust í framhaldinu.

Ég talaði fyrir því á síðasta kjörtímabili að við mundum stokka upp byggðakvótakerfið og gefa upp á nýtt og reyna að nýta það sem best byggðunum til hagsbóta. Ég tel að byggðakvóti undanfarinna ára hafi færst í algjört rugl. Margar stórútgerðir hafa fengið byggðakvóta en ég tel ekki eðlilegt að þær fái til sín byggðakvóta með einhverjum viðskiptum sem hafa farið fram um skip þeirra á milli heldur eigi kvótinn að bindast fyrst og fremst byggðarlögunum. Byggðakvótinn eigi ekki að ganga kaupum og sölum í gegnum sölu einhverra fyrirtækja, hann eigi að bindast byggðarlögunum og tengjast vinnslunni í landi og því fólki sem starfar þar og á allt sitt undir að öflugur sjávarútvegur sé áfram í þeirra byggðarlagi. Ég vil því treysta því að vel verði unnið úr þeirri uppstokkun sem fyrirhuguð er og bind væntingar við að sú aukning sem vonandi verður með auknum afla, samkvæmt aflaráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár sem er talað um að geti stefnt í 30 þús. tonn af þorski, eigi eftir að koma til góða fyrir þennan hluta kerfisins.

Menn hafa verið í vandræðum í krókaaflamarkskerfinu vegna ýsu, hafa ekki haft aðgengi að ýsu, og hér er talað um að opna á það að hægt sé að skipta á tegundum á milli stóra kerfisins og krókaaflamarkskerfisins og þá eingöngu tegundatilfærslu í þorskígildum innan ársins. Ég styð þetta líka því að ég held að þetta leysi vanda í báðum kerfunum. Menn séu þá bara að gera þetta innan ársins og það geti komið til góða fyrir þær útgerðir sem hafa verið í miklum vanda í krókaaflamarkskerfinu með veiðar vegna þess að þær hafa ekki átt aflaheimildir eða aflamark fyrir ýsu. Ég styð þetta því heils hugar.

Svo er verið að hreinsa þarna til ýmiss konar bráðabirgðaákvæði og líka það sem snýr að tilgreindu magni í ýmsa potta sem fellur út miðað við þá grein sem ég kynnti áðan. Hér er einnig gerð grein fyrir magni af íslenskri sumargotssíld, að allt að 800 lestir fari til smábáta og ég er mjög ánægð með það. Þarna hækka nokkuð mörk á fjárhæðir sem hafa verið óbreyttar í nokkur ár og ekki óeðlilegt að þær uppfærist. Nú fer kíló af síld úr 13 kr. í 16 kr., sem ég tel vera innan sanngirnismarka.

Að lokum ætla ég að koma aðeins inn á þann skilning sem við í nefndinni leggjum í það, með ráðherra, um að til viðbótar þeim 1.100 tonnum sem ráðherra hefur þegar kynnt á heimasíðu ráðuneytisins að verði til aukinnar ráðstöfunar fyrir Byggðastofnun til að mæta áföllum í tilteknum sjávarbyggðum bætist að lágmarki við 700 tonn sem Byggðastofnun hafi aðgang að á næsta fiskveiðiári. Þá er horft til þess að Byggðastofnun hafi nokkurt viðbótarsvigrúm til að takast á við fyrirliggjandi vanda og eins ef áföll kynnu að verða síðar. Þetta tel ég mjög mikilvægt vegna þess að við þekkjum vanda þann sem hefur komið upp á Þingeyri, Djúpavogi og Húsavík í kjölfar þess að sjávarútvegsfyrirtækið Vísir tilkynnti að það ætlaði að hætta starfsemi á þessum stöðum, en gaf þó mislangan fyrirvara. Mér skilst að fyrirtækið hafi eitthvað dregið í land með að hætta strax, eins og á Djúpavogi, og það ætli að vera þar eitthvað lengur, en gert er ráð fyrir að fyrirtækið hætti starfsemi á öllum þessum stöðum og hefur það boðið fólki að flytjast til Grindavíkur þar í eina blokk til þess að fylgja fyrirtækinu og vinnslu þess í þann bæ.

Ég verð að segja að mér finnst það dapurlegt þegar svona ákvarðanir leiða til þess að fólk er teymt landshorna á milli með atvinnurekendum. Yfirbragðið á þessu er einhvern veginn þannig að fólk er frekar eins og vinnuþrælar en fólk sem hefur ákveðið að búa sér heimili á ákveðnum stað vegna þess að þar vill það vera. Það hefur byggt upp heimili sitt, á sína vini og vandamenn í bænum og vill vera þar. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að það sé síðan flutt hálfgerðum hreppaflutningum landshluta á milli þegar fyrirtækið skellir í lás og segist ætla að fara með rekstur sinn og allar aflaheimildir í burtu í kjölfarið, það sem hefur fengið mikinn stuðning í formi byggðakvóta frá sameiginlegum sjóðum landsmanna í gegnum árin.

Við þurfum að leita allra leiða til að girða fyrir að slíkt gerist og að aflaheimildir séu upp að ákveðnu marki bundnar sjávarbyggðum því að annars býr fólkið á þessum stöðum alltaf við mikla óvissu. Það er ekki bara fólkið sem vinnur akkúrat í fiskvinnslu eða á sjónum sem á allt sitt undir að starfsemi í sjávarútvegi haldist áfram með eðlilegum hætti því að það molnar undan öllu öðru í leiðinni þegar fyrirtæki fer. Þá eru menn búnir að setja byggðarlagið í raun og veru á hnén og allt er í uppnámi og eignir viðkomandi fólks falla í verði. Þetta er óásættanlegt. Ég tel því að sú ráðstöfun sem farið var af stað með á síðasta kjörtímabili varðandi brothættar byggðir og fór í framkvæmd á síðasta ári hafi gefið gott fordæmi og gengið mjög vel. Ég er ánægð með að hæstv. ráðherra hyggst vinna áfram á þeirri braut, með þann byggðakvóta sem kemur til viðbótar, að gera langtímasamninga og tryggja þannig atvinnuöryggi og byggðaöryggi fólks á þeim stöðum sem þarna eiga í hlut. Við þurfum að vinna að framgangi þessara mála enn betur í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að málið fari til nefndar á milli 2. og 3. umr.