143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[10:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég átta mig á þeim skýringum sem hv. þingmaður kemur hér fram með um breytingartillögu sína í málinu. Ég segi fyrir mína parta að mér hefði sjálfum liðið betur með það og átt auðvelt með að styðja breytingartillögu sem hefði gengið út á að fara þá inn í önnur gjöld. Af því að þingmaðurinn nefndi að framkvæmdarvaldinu, ráðherranum, væru faldar vissar heimildir til að leggja á gjöld með reglugerðum er það rétt en slíkar reglugerðir verða að sjálfsögðu að hafa lagastoð.

Að því leyti til hefði væntanlega verið hægt, af því að þetta er bandormur, að bæta inn í það öðrum tegundum gjalda. Svo er líka hitt, af því að hér er verið að ræða annað mál sem veitir framkvæmdarvaldinu heimildir til ráðstöfunar á umtalsverðum fjármunum, þ.e. frumvarpið um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána sem ráðherra er falin heimild með reglugerð að ákveða ráðstöfun í grófum dráttum á tugum milljarða króna sem margir hafa sett spurningarmerki við að standist, að menn fara þar dálítið út fyrir þær heimildir sem Alþingi getur gefið framkvæmdarvaldinu.

Þetta er bara sjónarmið sem ég vildi koma hér fram með í þessa umræðu á þessu stigi málsins.