143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

verslun með áfengi og tóbak.

156. mál
[10:33]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Nefndin hefur fjallað allítarlega um þetta mál þótt það sé ekki ýkja mikið að vöxtum. Það snýst fyrst og fremst um breytingar á einni grein laga um verslun með áfengi og tóbak, 11. gr. laganna. Nefndin fékk til sín fjölda gesta og umsagnir frá mörgum aðilum, landlæknisembætti, umboðsmanni barna, Félagi atvinnurekenda, Viðskiptaráði, bindindissamtökunum IOGT, Samtökum iðnaðarins, HOB-vínum ehf. og Neytendasamtökunum.

Í frumvarpinu eru lagðar til umtalsverðar breytingar á 11. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak, en í þeirri grein er fjallað fyrst og fremst um vöruval áfengis til smásölu í verslunum ÁTVR. Meginbreytingin snýr að nánari afmörkun á því sem verið hefur í lögum um undir hvaða kringumstæðum ÁTVR er heimilt að hafna því að taka áfengi til sölu. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Það er skilmerkilega talið upp í 11. gr., eins og lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að lögunum verði breytt. Þar má nefna að ÁTVR verði heimilt að hafna áfengi ef varan sjálf, umbúðir hennar eða markaðssetning höfði sérstaklega til barna eða ungmenna yngri en 20 ára, m.a. hvað varðar texta, myndmál eða form, sýni börn eða ungmenni yngri en 20 ára o.s.frv. Það er óheimilt að fela í slíkri vöru happdrætti, tilboð eða kaupauka og allt tengist þetta auðvitað sérstöðu þeirrar vöru sem áfengi er.

Þær breytingar sem ráðherra leggur til í frumvarpi sínu tengjast einnig niðurstöðu EFTA-dómstólsins þar sem niðurstaðan varð að efni ákvæðis 11. gr. laganna eins og það stendur og ákvæði reglugerðar settrar með stoð í þeim væru ekki í fullu eða nægjanlegu samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES.

Almennt voru umsagnaraðilar jákvæðir í garð þess að skýra þyrfti þetta ákvæði 11. gr. laganna og færa það til betra samræmis við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og afmarka þar af leiðandi vöruvalsheimildir ÁTVR betur. Það er ekki deilt um að við höfum fullar heimildir til að setja um þetta reglur í samræmi við þá sérstöðu sem áfengi hefur sem neysluvara. Engu að síður fékk frumvarpið nokkra gagnrýni. Beindist hún fyrst og fremst að því hvernig ætti að ganga frá eða orða svonefnt keimlíkindaákvæði. Hugtakið keimlíkindi er notað yfir það þegar vara tekur að líkjast svo mjög annarri vöru að það er erfitt að greina þar á milli. Það kom í ljós að skilningur manna á orðalaginu „líkjast í helstu meginatriðum“ var misjafn. Við þetta glímdi nefndin og gerði allmargar atrennur að því að finna betri frágang þessa máls og skýrara orðalag. Ákvæði frumvarpsins eins og það kom fram var kynnt Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og það hefur verið haft samráð við stofnunina meðan á vinnslu málsins hefur staðið.

Það varð að lokum niðurstaða nefndarmanna að orðalagið þyrfti að vera afdráttarlausara og að það þyrfti að vera skýrara efnisinntak í því hvaða vandamál væri verið að takast á við eða leysa með einmitt ákvæðinu, ruglingshættan væri fyrst og fremst sú að keimlíkindi vörunnar mættu ekki vera slík að neytendur gætu ekki með sæmilega skýrum hætti greint þar á milli.

Þess vegna leggur nefndin til breytingu á 3. efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins með afdráttarlausara orðalagi og skýrara markmiði. Þá teljum við jafnframt að við séum mun betur tryggð en áður gagnvart því að ákvæðið standist kröfur ESA og Evrópuréttarins.

Á það má benda að í nýrri reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1169/2011, um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda, sem tekur gildi nú í desember og leysir af hólmi núgildandi reglugerð um samræmingu laga aðildarríkjanna um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla er framkvæmdastjórn ESB falið, ef við á, að leggja einmitt til sértækar kröfur um áfenga drykki í tengslum við reglugerðina. Ástæðan er sérstakt eðli áfengra drykkja og almennar áhyggjur vegna skaða af völdum áfengis, einkum hjá ungum og viðkvæmum neytendum. Heimildin sem mælt er fyrir um í 3. efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins, með þeirri breytingu sem nefndin leggur til, er í mjög góðu samræmi við þá stefnu sem þarna kemur á vegum Evrópusambandsins og þar af leiðandi ekki ástæða til að óttast að þar verði árekstrar, enda útgangspunkturinn og þetta allt saman grundvallað á vernd almannaheilbrigðis.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„3. efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:

ÁTVR er heimilt að hafna áfengi ef umbúðir þess líkjast svo annarri vöru sem boðin er til sölu eða auglýst á almennum markaði hér á landi að neytendur geta ekki auðveldlega greint á milli þeirra.“

Undir þetta rita Frosti Sigurjónsson formaður, sá sem hér talar, framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, með fyrirvara, Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.

Rétt er að taka fram að Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttur og Vilhjálmur Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir nefndarálit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.