143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

meðhöndlun úrgangs.

215. mál
[10:40]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum. Þetta frumvarp felur í sér innleiðingu tilskipunar 2008/98/EB, rafhlöður og rafgeymar, raf- og rafeindatæki og drykkjarvöruumbúðir.

Nefndin fór afar ítarlega ofan í þetta frumvarp, gaf sér góðan tíma og kallaði fjölmarga aðila á fund sinn og barst fjöldi umsagna.

Umsagnaraðilar töldu frumvarpið almennt jákvætt en settu sérstaklega út á ákvæði er varða framleiðendaábyrgð á drykkjarvöruumbúðum, ákvæði um sérstaka söfnun úrgangs frá heimilum, ákvæði um töluleg markmið í úrgangsmálum og skýrleika ákvæða um ábyrgð og skilgreiningar.

Árið 1989 voru sett sérstök lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Á grundvelli þeirra laga var Endurvinnslan hf. stofnuð sem síðan hefur séð um söfnun skilaskyldra drykkjarvöruumbúða um land allt. Skilagjald af þessum umbúðum hefur verið innheimt af tollstjóra og eru því allir framleiðendur og innflytjendur slíkra umbúða gjaldskyldir. Með frumvarpinu er stefnt að því að lög nr. 52/1989 falli úr gildi og að framleiðendum verði frjálst að stofna ný skilakerfi, eitt eða fleiri. Sveitarfélög lýstu yfir áhyggjum sínum varðandi þetta. Bent var á að í frumvarpinu kæmi ekki fram nein skylda fyrir framleiðendur til þess að taka á móti umbúðum frá framleiðendum sem stæðu utan þess skilakerfis. Vakin var athygli nefndarinnar á því að allvíða hafi Endurvinnslan gert samninga við sveitarfélög og verndaða vinnustaði fyrir fatlaða um að veita fötluðu fólki atvinnu við móttöku og flokkun skilaskyldra drykkjarvöruumbúða. Til dæmis séu tveir slíkir vinnustaðir á Vesturlandi þar sem slíkir samningar skipta verulegu máli fyrir starfsemi þeirra. Þessi starfsemi er sett í mikið uppnám ef frumvarpið verður að lögum og engin trygging sett fram fyrir því að nýju skilakerfin muni viðhalda slíkum samningum.

Einnig bentu umsagnaraðilar á að sú leið sem lagt er til að verði farin í 30. gr. frumvarpsins, sé í meginatriðum sama fyrirkomulag og gerð hefur verið tilraun með hér á landi fyrir raftæki og rafeindatæki að því frátöldu að ekki er lagt til að sérstök stýrinefnd annist eftirlit með skilakerfum fyrir drykkjarvöruumbúðir. Það virðist vera samdóma álit sveitarfélaga og innflytjenda raftækja að falla beri frá því fyrirkomulagi og gagnrýna því að í frumvarpinu sé byggt á sömu hugmyndafræði. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að umrædd ákvæði verði felld úr frumvarpinu. Þá leggur nefndin til að ráðherra skoði framtíðarfyrirkomulag betur í samráði við hagsmunaaðila og eftir atvikum geri tillögu að breytingum á kerfinu síðar. Sökum þessa leggur nefndin til að lög nr. 52/1989 gildi áfram og gerir breytingartillögu þess efnis.

Umsagnaraðilar lýstu einnig áhyggjum sínum af því að samkvæmt frumvarpinu yrði farið of skarpt í breytingar á ákvæði um sérstaka söfnun úrgangs frá heimilum. Breytingar kæmu af miklum þunga á rekstur sveitarfélaganna og yrðu til þess að hækka þyrfti álögur á íbúa. Einnig væri ljóst að ekki hafi öll sveitarfélög tekið upp flokkun úrgangs frá heimilum með því að hafa þar til gerða poka eða tunnur. Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að eðlilegt væri að fyrirkomulag sérsöfnunar yrði ekki um of niðurnjörvað í lögunum heldur fengju sveitarfélög svigrúm til að útfæra þær leiðir sem þættu hagkvæmastar í hverju tilfelli. Núverandi fyrirkomulag sérsöfnunar úrgangs í sveitarfélögum er nokkuð mismunandi og hafa sum þeirra stærstu, t.d. Reykjavík og Akureyri, notað grenndargáma með góðum árangri. Þannig eru um 180 grenndargámar á höfuðborgarsvæðinu sem taka við miklu magni af pappír, pappa og plasti frá heimilum. Þá má nefna að nýlega hóf Reykjavíkurborg átak til þess að auka sérstaka söfnun á pappír og pappa og er nú óheimilt að setja slíkan úrgang í tunnur fyrir almennan úrgang. Íbúar hafa hins vegar val um það hvort þeir greiða sérstaklega fyrir bláa tunnu frá borginni eða endurvinnslutunnu frá einkafyrirtækjum sem bjóða upp á slíka þjónustu. Einnig geta íbúar komið sér hjá slíkum aukakostnaði með því að losa pappírs- og pappaúrgang i grenndargám eða fara með hann á endurvinnslustöð. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa hins vegar farið þá leið að gera þá kröfu að endurvinnslutunnur séu við öll íbúðarhús. Árangur af þessum mismunandi aðferðum við sérstaka söfnun virðist vera nokkuð sambærilegur miðað við þann stutta reynslutíma sem er að baki.

Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur skynsamlegt að lögin kveði á um að endurvinnslutunnur verði valkvæðar fyrir íbúa, ef sveitarstjórn telur það heppilegt, en einnig verði hægt að fyrirskipa í samþykkt samkvæmt 8. gr. laganna að allir fasteignaeigendur hafi endurvinnslutunnu og greiði fyrir það gjald í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins. Þar sem söfnun úrgangs er nærþjónusta sem sveitarfélögin bera ábyrgð á þarf mjög sterk rök til þess að lögfesta að sveitarfélögum beri að viðhafa eina tiltekna aðferð til að ná settu markmiði um flokkun úrgangs. Með slíkri framsetningu er löggjafinn að gera aðferðina við söfnun að aðalatriði í stað þess að leggja áherslu á að ná settum markmiðum um endurvinnslu. Erlendis hafa sum sveitarfélög farið þá leið að safna öllu rusli óflokkuðu en beita svo nýrri tækni við flokkun á einum stað. Slík tækni á vafalaust eftir að taka miklum framförum á næstunni. Nefndin leggur áherslu á að markmið laganna um endurvinnslu úrgangs verði skýr en að sveitarfélög hafi svigrúm til að ákveða hvar og hvernig sérsöfnun úrgangs eigi sér stað.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði töluleg markmið eða viðmiðanir í reglugerð, samanber i-lið 5. gr., svo sem hvað varðar endurvinnslu og nýtingu, en í því sambandi má nefna að samkvæmt tilskipun 2008/98/EB skulu að lágmarki 50% af heildarþyngd heimilisúrgangs, og mögulega úrgangs frá öðrum líkum uppsprettum, undirbúin fyrir endurnotkun og endurunnin fyrir árið 2020. Gert er ráð fyrir að framangreind markmið verði sett í reglugerð ef frumvarpið verður að lögum. Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að athuga þyrfti hvort tilefni væri til þess að setja í lögin skýrari ákvæði um viðmið við setningu reglugerðar samkvæmt 13. gr., svo sem að við setningu viðmiða skuli hafa hliðsjón af kröfum í löggjöf Evrópusambandsins, stefnu um úrgang og svæðisáætlunum sveitarfélaga. Nefndin styður þessa tillögu þar sem hún felur í sér að tryggt yrði að markmiðssetning um meðhöndlun úrgangs byggðist á langtímahugsun sem sé í samræmi við innlent og alþjóðlegt samhengi.

Hér eru einnig breytingartillögur varðandi stjórn Úrvinnslusjóðs. Það hafa komið athugasemdir eftir að nefndin kláraði umfjöllun um málið um að misskilnings hafi gætt hvort tilteknir aðilar hafi samið sig undan lögunum. Ég hef í hyggju að kalla nefndina saman í hádegisverðarhléinu til þess að fara yfir þær athugasemdir þannig að ég óska eftir því, virðulegi forseti, að málið verði kallað inn í nefnd fyrir 3. umr.

Ég ætla að halda áfram yfirferð yfir álitið.

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til að ný grein bætist við frumvarpið í stað 2. og 3. mgr. e-liðar 5. gr., sem var tillaga um nýja 9. gr. Nefndin telur tillöguna til bóta og leggur til breytingartillögu þess efnis. Til viðbótar leggur nefndin til að ráðherra skoði hvort setja þurfi nánari ákvæði um stjórnvaldssektir þar að lútandi og gerir tillögur þess efnis.

Í ljósi þess að í svæðisáætlunum sveitarfélaga á að útfæra nánar stefnumörkun um meðhöndlun úrgangs telur nefndin eðlilegt að upplýsingar um úrgang verði sveitarfélögum aðgengilegar beint, af vefsíðu Umhverfisstofnunar, til þess að þau geti með viðhlítandi hætti sinnt ábyrgðarhlutverki sínu hvað varðar söfnun, endurvinnslu og förgun úrgangs og leggur til breytingu þess efnis.

Þá leggur nefndin til breytingu á n-lið 1. mgr. 30. gr., staflið b, þar sem lífrænn úrgangur, svo sem matarleifar frá heimilum og veitingahúsum, er almennt ekki nothæfur til áburðar án undangenginnar meðhöndlunar. Orðalag ákvæðisins opnar á þann möguleika að slíkum úrgangi sé dreift ómeðhöndluðum og er orðalagsbreytingunni ætlað að koma í veg fyrir að slíkt gerist.

Aðilar gagnrýndu að ekki væri kveðið skýrar á um hlutverk og ábyrgð sveitarfélaga og annarra aðila sem koma að úrgangsmálum í frumvarpinu. Óskýr ábyrgðarskipting í málaflokknum væri beinlínis ávísun á deilu- og klögumál. Ef sveitarfélög eiga að bera ábyrgð á að ná markmiðum samkvæmt 13. gr. verður að liggja skýrt fyrir að lögin veiti þeim heimild til að fela byggðasamlögum, sem þau eiga aðild að, að ná settum markmiðum í viðkomandi landshluta. Einnig þarf að liggja fyrir að sveitarfélögin hafi heimildir til þess að beina úrgangi frá fyrirtækjum í tiltekinn farveg í þeim tilgangi að uppfylla þessi markmið. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að ráðherra geri tillögur að breytingum með þetta í huga.

Þá kom fram í umfjöllun um málið að frumvarpið er gott skref til að skerpa á að gagnasöfnun Umhverfisstofnunar varðandi úrgangsmál sé markviss og áreiðanleg, sérstaklega 8. gr. frumvarpsins sem tiltekur að starfsleyfisskyldir rekstraraðilar sem meðhöndla úrgang og önnur fyrirtæki sem meðhöndla eigin úrgang skuli senda töluleg gögn á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. Einn helsti óvissuþáttur í söfnun og úrvinnslu gagna virðist einmitt hafa verið að gagnaskráningar rekstraraðila sem meðhöndla úrgang hafa verið ósamræmdar og að gögn hafi ekki borist til Umhverfisstofnunar. Lagt er til að þess verði gætt í 8. gr. að gögn sem vísað er til í ársskýrslum eða skýrslu um grænt bókhald verði einnig á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til, samanber 1. mgr. Ef slíkt er ekki tiltekið er hætt við að vísað verði til ófullnægjandi gagna eða gagna á ólíku gagnaformi, en slíkt eykur verulega við tíma og kostnað vegna úrvinnslu gagna.

Þá leggur nefndin til að gildistöku breytinga á ákvæðum varðandi raf- og rafeindatæki verði frestað til 1. janúar 2015 svo að unnt verði að klára nauðsynlegan undirbúning fyrir færslu verkefnisins til Úrvinnslusjóðs.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku skjali.

Undir þetta álit skrifa Höskuldur Þórhallsson, sá sem hér stendur, formaður nefndarinnar og framsögumaður álitsins, Margrét Gauja Magnúsdóttir, Haraldur Einarsson, Brynhildur S. Björnsdóttir, Birgir Ármannsson, Edward H. Huijbens og Pétur H. Blöndal.

Ég vil þakka umhverfis- og samgöngunefnd fyrir gott samstarf við vinnu þessa nefndarálits og þessara breytingartillagna. Við gáfum okkur rúman tíma og fórum mjög vandlega yfir þetta mál. Þetta er stærra í sniðum og mikilvægara en kannski lítur út fyrir í fyrstu. Þetta snertir daglegt líf fólks á hverjum einasta degi. Þetta snýr að framkvæmd sveitarfélaga á sorpmálum og skiptir verulegu máli hvernig lagaumgjörðinni er háttað fyrir sveitarfélögin vegna þess að í þessu felst og getur falist kostnaðarauki fyrir þau. Um leið held ég að við höfum náð að stíga stór skref til umhverfisverndar, í átt til þess að allur úrgangur og sorp frá heimilum verði endurnýtt og komið á mjög skynsamlegu fyrirkomulagi hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að málið verði kallað inn til nefndar fyrir 3. umr., eins og ég minntist á áðan.