143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[11:29]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um opinber skjalasöfn.

Nefndin hefur fjallað um málið á 15 fundum, farið yfir 34 umsagnir og erindi sem bárust og fengið til sín fjölda gesta.

Með frumvarpinu er lögð til heildarendurskoðun á lagaumhverfi opinberra skjalasafna, sem eru Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er markmið þess að tryggja vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Markmiðið er útfært í tólf köflum þar sem meðal annars er fjallað um stjórnsýslu málaflokksins, starfsemi og hlutverk opinberra skjalasafna, skjalastjórn og skjalavörslu, aðgang almennings og aðgang skráðs aðila að skjölum, öryggismálasafn, málsmeðferð o.fl.

Við fyrstu sýn kann að virðast sem málefni skjalasafna tengist fyrst og fremst grúski í pappírum en málefnið er í raun mjög flókið og skiptir réttindi borgaranna miklu máli, er órjúfanlegur hluti af góðri stjórnsýslu auk þess að snúast um varðveislu sögu þjóðarinnar. Við framkvæmd skjalavörslu togast á ólík sjónarmið varðandi varðveislu gagna sem byggjast meðal annars á þeim rökum að varðveita beri gögn til þess að treysta stöðu borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld eða að varðveisla gagna stuðli að því að til framtíðar litið verði dregnar réttar ályktanir af atburðum sem heyra fortíðinni til. Hins vegar sjónarmið sem mæla gegn varðveislu gagna og hafa sterk tengsl við friðhelgi einkalífsins, þ.e. „réttinn til þess að gleymast“. Í störfum sínum leitaðist nefndin við að ná utan um þessi sjónarmið ásamt sjónarmiðum þar sem leita þarf jafnvægis milli sjálfstæðis sveitarfélaga og héraðsskjalasafna og þess aðhalds sem Þjóðskjalasafni Íslands er ætlað að veita.

Nefndin hafði það að leiðarljósi að þeir sem sinna skjalavörslu þurfa að hafa svigrúm til þess að móta þjónustuna í samræmi við aðstæður á hverjum stað en á sama tíma þarf að tryggja nægt eftirlit og samræmda stefnumörkun í þessum mikilvæga málaflokki. Lykilatriði er að fyrirkomulagið geti mótast í samvinnu þeirra sem veita þjónustuna og Þjóðskjalasafnsins sem frumvarpið felur ábyrgð á eftirliti. Þá liggur fyrir að bregðast þarf við breytingum á sviði tæknimála, t.d. vegna þróunar í tengslum við vistun og myndun skjala. Auk þess á víða eftir að ljúka frágangi skjala frá fyrri tíð. Nefndin telur æskilegt að gerð verði úttekt á stöðu opinberra skjalasafna eigi síðar en fimm árum eftir að rekstrarleyfisskylda, sem frumvarpið mælir fyrir um, verður virk.

Í máli umsagnaraðila og gesta nefndarinnar var því almennt fagnað að frumvarpið væri fram komið og að til stæði að endurnýja og uppfæra löggjöf um opinber skjalasöfn. Vegna eðlis verkefnisins tókust hins vegar á ólík sjónarmið eins og að framan er rakið.

Frumvarpinu er ætlað að bæta úr stöðu opinberra skjalasafna og nefndin telur að með frumvarpinu verði tryggður skýrari lagarammi um varðveislu upplýsinga sem liggja skjalfestar fyrir hjá stjórnvöldum og geta í mörgum tilvikum varðað borgarana miklu þar sem þar er að finna heimildir um réttindi og skyldur þeirra. Það er mat nefndarinnar að frumvarpið skerpi þau skil sem lögð eru á milli heimilda til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum, þ.e. að gögnum sem eru yngri en 30 ára, og hins vegar löggjöf um opinber skjalasöfn, þ.e. að aðgangi að skjölum sem eru eldri en 30 ára.

Nefndin leggur til allnokkrar breytingar á frumvarpinu og liggja þær fyrir í þskj. 947. Flestar eru breytingarnar tæknilegar og/eða miða að því að auka skýrleika en hér verða raktar í stuttu máli helstu efnislegar breytingar í röð eftir frumvarpsgreinum.

Lagt er til að inn í markmið frumvarpsins bætist orðið „myndun“ þannig að markmiðið verði að tryggja myndun, vörslu og örugga meðferð opinberra skjala. Með breytingunni er ætlunin að ná betur utan um efni annarra frumvarpsákvæða.

Þá leggur nefndin til þá breytingu á 6. gr. frumvarpsins að ráðherra skipi sex menn í stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns Íslands í stað fjögurra. Annar hinna nýju stjórnarmanna verði tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sérstaklega verði áskilið að hann sé starfsmaður héraðsskjalasafns. Hinn verði tilnefndur af félagsvísindasviði Háskóla Íslands, en þar er að finna fræði- og fagþekkingu á sviði upplýsinga- og safnafræða. Tilgangurinn með þessari breytingu er að tryggja að æskileg fagþekking sé til staðar í stjórninni og þá vill nefndin með tillögunni stuðla að auknu trausti um umgjörð opinberra skjalasafna en einnig efla skilning þeirra sem starfa samkvæmt lögunum á umhverfi hver annars.

Nefndin tekur fram að með tillögunni er ekki ætlunin að draga úr samráðshlutverki Þjóðskjalasafns Íslands. Þannig er áfram gert ráð fyrir því að safnið leiti samráðs og leiðbeininga frá opinberum skjalasöfnum. Einnig verði samráðs áfram leitað við fyrirkomulag reglna sem varða starfsemi opinberra skjalasafna áður en þær verða sendar ráðherra til staðfestingar en ekki látið við það sitja að leita ráðgjafar stjórnarnefndar.

Nefndin leggur til þá breytingu á 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins að þar verði kveðið á um að Alþingi og umboðsmaður Alþingis falli utan gildissviðs frumvarpsins. Þannig verði Ríkisendurskoðun áfram skylt að skila gögnum til Þjóðskjalasafns eins og verið hefur en sjálfstæði löggjafans og umboðsmanns Alþingis gagnvart handhöfum framkvæmdarvalds er viðhaldið.

Nefndin leggur til þá breytingu á 13. gr. að þjóðskjalaverði verði heimilt að fela öðru safni en opinberu skjalasafni varðveislu skjala úr einkaskjalasafni. Þannig kunni til dæmis skjöl þjóðþekktra listamanna að eiga heima á listasöfnum eða skjöl sjófarenda á sjóminjasöfnum.

Nefndin leggur til að nýrri grein, 17. gr., verði bætt við III. kafla laganna varðandi þagnarskyldu starfsmanna opinberra skjalasafna.

Lagt er til að gerðar verði breytingar á 28. og 29. gr. er varða aðgang að skjölum sem eru undanþegin upplýsingarétti og efni þeirra verði sett í betra samhengi við hlutverk Persónuverndar eins og það er skilgreint í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Þá leggur nefndin til að það verði alfarið í höndum Persónuverndar að veita samþykki fyrir aðgangi og setja reglur um skilyrði fyrir notkun ákveðinna tegunda skjala og dómstólaráði verði því ekki fengið hlutverk með frumvarpinu.

Nefndin leggur til töluverðar breytingar á 44. gr. með það markmið að leiðarljósi að skýra verknaðarlýsingar greinarinnar hvað varðar skýrleika refsiheimilda.

Þrátt fyrir hina almennu reglu um skilaskyldu skjala telur nefndin rétt að leggja til að 3. töluliður 47. gr. falli brott og Hagstofa Íslands verði áfram undanþegin afhendingarskyldu trúnaðargagna til hagskýrslugerðar. Nefndin tekur þó fram að þessi niðurstaða kann að vera tímabundin í þeim skilningi að mat löggjafans kann á síðara tímapunkti að verða á annan veg. Hins vegar leggur nefndin til þá breytingu á 47. gr. að Hagstofu Íslands verði heimilt að afhenda Þjóðskjalasafni Íslands trúnaðargögn sem safnað var vegna manntals sem fór fram á grundvelli laga nr. 76/1980 um manntal 31. janúar 1981.

Til þess að ekki sé hróflað við þeim réttindum sem koma fram í lögum um sjúkraskrár leggur nefndin til að við 47. gr. frumvarpsins bætist nýr töluliður og að í honum verði kveðið á um breytingu á 11. gr. laga um sjúkraskrár. Þannig muni 2. málsliður 11. gr. laganna kveða á um að ákvæði frumvarpsins gildi aðeins um skyldu til að afhenda sjúkraskrár til opinberra skjalasafna, varðveislu þeirra og aðgang að þeim á opinberum skjalasöfnum.

Skilningur nefndarinnar er að skyldan til að sækja um rekstrarleyfi til reksturs hérðasskjalasafns virkist um leið og frumvarpið fær lagagildi. Til að veita sveitarfélögum nauðsynlegt svigrúm leggur nefndin til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við frumvarpið þar sem kveðið verði á um að rekstur héraðsskjalasafna verði heimill án starfsleyfis í þrjú ár frá því að reglugerð ráðherra um leyfi til reksturs hérðasskjalasafns tekur gildi. Þá verði þeim sveitarfélögum sem ekki hyggjast taka þátt í rekstri héraðsskjalasafns ekki skylt að flytja safngögn til Þjóðskjalasafns eða afhenda þau fyrr en þremur árum eftir gildistöku sömu reglugerðar. Með þessu móti gefst tími til þess að koma héraðsskjalasöfnum, sem starfrækt eru við lögtöku frumvarpsins, í það horf að þau uppfylli skilyrði til þess að fá úthlutað starfsleyfi og sveitarfélögum sem ekki reka héraðsskjalasafn er veitt færi á að taka ákvörðun um hvort þau komi að rekstri hérðasskjalasafns eða feli Þjóðskjalasafni Íslands að annast um skjalavörslu fyrir þau gegn gjaldi.

Að lokum vil ég þakka nefndinni, allsherjar- og menntamálanefnd, sérstaklega gott samstarf við vinnuna að málinu sem oft og tíðum krafðist talsverðrar þolinmæði.

Þá legg ég til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali 947 og skýrðar eru í ítarlegu nefndaráliti á þskj. 403, en nefndarálitið er á sextándu blaðsíðu að lengd.

Undir nefndarálitið rita Unnur Brá Konráðsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Valur Björnsson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Þá ritar Helgi Hrafn Gunnarsson undir álitið með fyrirvara, en Jóhanna María Sigmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.