143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

greiðslur yfir landamæri í evrum.

238. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum. Nefndarálitið er að finna á þskj. 727 og ég vísa til þess þar sem ég mun ekki fara yfir það frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Frumvarpið kemur í stað gildandi laga um greiðslur yfir landamæri í evrum. Þá felur það í sér minni háttar breytingar á lögum um greiðsluþjónustu og lögum um útgáfu og meðferð rafeyris. Frumvarpið mætir þörf fyrir innleiðingu Evrópugerða sem orðnar eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á 4. gr. frumvarpsins. Bent var á að afleiðingar brota gegn ákvæðum laganna yrðu óhóflegar með tilliti til þeirra hagsmuna sem ætlunin væri að vernda með lagasetningunni. Var sérstaklega gagnrýnt að lagt væri til að heimilt yrði að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga, þ.e. starfsmenn greiðsluþjónustuveitenda. Nefndin telur gagnrýnina réttmæta og leggur því til breytingar á frumvarpinu.

Í öðru lagi er sú breyting lögð til að sektir verði ekki lagðar á einstaklinga vegna brota gegn ákvæðum laganna heldur aðeins á greiðsluþjónustuveitendur. Því til samræmis er í þriðja og síðasta lagi lagt til að 4. mgr. greinarinnar verði felld brott í heild sinni. Mat nefndarinnar er að með þeim breytingum sem hún leggur til muni ákvæði 4. gr. um stjórnvaldssektir vera í eðlilegu samræmi við þau markmið sem að er stefnt með frumvarpinu.

Athygli nefndarinnar var vakin á ósamræmi í orðalagi 18. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011 og 25 gr. laga um rafeyri. Í báðum tilvikum væri rætt um tryggilega varðveislu fjármuna en einungis kæmi skýrt fram í lögum um rafeyri að með því væri átt við að fjárfest skuli í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að samræmis sé gætt og því leggur nefndin til breytingu á 1. mgr. 18. gr. laga um greiðsluþjónustu. Með tillögunni er gert ráð fyrir að orðalag málsgreinarinnar færist nær orðalagi 1. mgr. 25. gr. laga um rafeyri og greiðslustofnun verði gert skylt að varðveita fjármuni notenda greiðsluþjónustu eða annarra greiðsluþjónustuveitenda tryggilega ásamt því að halda þeim aðgreindum frá öðrum fjármunum. Samhliða leggur nefndin til örlitlar orðalagsbreytingar á 1. mgr. 25. gr. laga um rafeyri og greiðslustofnun til samræmingar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum.

Undir nefndarálitið rita þann 12. mars hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, Vilhjálmur Bjarnason, Líneik Anna Sævarsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.