143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

opinber innkaup.

220. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, og tekur það einkum til innkaupa á sviði öryggis- og varnarmála.

Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um opinber innkaup þess efnis að ráðherra skuli mæla fyrir um innkaup á sviði varnar- og öryggismála í reglugerð. Gert er ráð fyrir að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/81/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð samningsyfirvalda eða samningsstofnana á tilteknum verksamningum, vörusamningum og þjónustusamningum á sviði varnar- og öryggismála og breytingar á tilskipunum 2004/17/EB og 2004/18/EB verði innleiddar með reglugerð á grundvelli heimildarinnar.

Tilskipun 2009/81/EB er að mestu leyti efnislega hliðstæð almennu innkaupatilskipuninni 2004/18/EB sem innleidd var með lögum nr. 84/2007 en víkur frá þeim reglum sem gilda um innkaup á sviði varnar- og öryggismála.

Nefndin vekur athygli á að fyrir nefndinni komu ekki fram neinar athugasemdir við efni frumvarpsins.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Að nefndarálitinu standa Frosti Sigurjónsson, formaður nefndar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, framsögumaður þessa máls, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, Vilhjálmur Bjarnason og Líneik Anna Sævarsdóttir.