143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

176. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund aðila frá velferðarráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu og Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og einnig voru teknar fyrir þær umsagnir sem frá segir í nefndaráliti.

Tilgangur frumvarpsins er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í því skyni að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins í ljósi athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA og tryggja þar með réttarvernd beggja kynja hvað þetta varðar.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á orðskýringum til að koma betur til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA. Nefndin bendir á að þessar breytingar muni stuðla að auknu réttaröryggi og tryggja réttarvernd þeirra sem tilskipunin leggur grunn að.

Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til heimild handa ráðherra að setja reglugerð um launajafnrétti, þar á meðal um innleiðingu staðals um launajafnrétti, svo sem varðandi hæfniskröfur til vottunarstofa og framkvæmd launavottunar samkvæmt jafnlaunastaðli sem gefinn var út í desember 2012. Nefndin bendir á að það er valkvætt hvort fyrirtæki og stofnanir beiti staðlinum við að tryggja launajafnrétti kynja og því er það mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að fyrir liggi hvaða reglum á að fylgja. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram að vinna við gerð reglugerðarinnar væri á lokastigum.

Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 24. gr. laganna sem lýtur að almennu banni við mismunun. Með ákvæðinu er báðum kynjum tryggð sú réttarvernd sem tilskipuninni er ætlað að veita.

Með ákvæði 5. gr. frumvarpsins er lagt til að innleidd verði tilskipun Evrópuráðsins 2004/113/EB um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu eða á öðrum sviðum en á vinnumarkaði. Ákvæðið felur í sér að aðgangur að eða afhending vöru annars vegar og þjónustu hins vegar sé ekki hagstæðari fyrir annað kynið. Ákvæðið útilokar þó ekki mismunandi meðferð kynjanna ef lögmæt markmið réttlæta slíkt sem og ef aðferðirnar til að ná þeim eru viðeigandi og nauðsynlegar. Ákvæðið sætti gagnrýni við meðferð hjá nefndinni þar sem það væri ekki nægilega skýrt og byggi til fleiri flækjur en það leysti eins og hlutverk þessa frumvarps á að vera.

Nefndin vill benda á að bráðlega kemur út skýrsla þar sem fjallað er um tilskipunina og þann ágreining sem hefur komið upp í kringum hana og beitingu ákvæða tilskipunar um jafna meðferð í tengslum við vörukaup og þjónustu í aðildarríkjum ESB. Með hliðsjón af þeim vandkvæðum er það mat nefndarinnar að fresta innleiðingu á tilskipun ráðsins 2004/113/EB, þar til hún hefur fengið tækifæri til að kynna sér efni skýrslunnar.

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem taldar eru upp aftast í nefndaráliti, en þar er stærsta breytingin sú að 5. gr. falli brott.

Undir þetta rita hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, sú sem stendur hér, framsögumaður málsins, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Ég vil taka það fram að Páll Valur Björnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.