143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[12:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis fagna því að við erum að nálgast afgreiðslu á þessu frumvarpi og gera það að lögum og ganga þar með með skýrum hætti frá því hvernig samstarf og stofnanaumgjörð er og hvar ábyrgð liggur í sambandi við fjármálastöðugleika í landinu. Þetta er afrakstur mikillar vinnu sem hefur í raun og veru tekið til þess að endurskoða allt lagaverk og skipulag í kringum fjármálamarkaðinn og fjármál í landinu og er að sjálfsögðu sprottin af okkar dýrkeyptu reynslu af hruninu.

Við erum mjög langt komin með þetta verkefni að segja má með ýmsum breytingum sem menn hófust handa um að gera á t.d. lögum um fjármálafyrirtæki strax á árunum 2009 og 2010. Það hefur síðan alltaf staðið til að ljúka því verki, m.a. með því sem hér er á dagskrá, að formfesta og lögbinda rækilega skipulag um fjármálastöðugleika. Það hefur byggt á laustengdu samstarfi og samkomulagi milli stofnana og ráðuneyta a.m.k. aftur til ársins 2006 þegar ráðuneyti og stofnanir gerðu með sér samkomulag um það og nefnd um fjármálastöðugleika kom til sögunnar, en hún hefur í raun verið tæki til að sinna þessum viðfangsefnum.

Verkefni þeirrar nefndar voru aukin og það samstarf útfært, fyrst með samkomulagi í júlí 2010 og síðan aftur með nýju samkomulagi í apríl 2012. Þessu tengjast líka viðamiklar skýrslur sem unnar hafa verið og hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi hér áðan, í fyrsta lagi stór og mikil skýrsla um framtíðarskipan fjármálakerfisins sem gefin var út í mars 2012 og lögð fyrir Alþingi. Síðar á sama ári, í október, skilaði svo þriggja manna sérfræðingahópur skýrslu sinni og tillögum. Hann hafði tekið við þessu starfi og vann upp úr fyrri skýrslu tillögur og ábendingar sem voru meira afmarkaðar. Í þessum hópi eða nefnd sátu þeir Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans, Gavin Bingham og Kaarlo Jännäri. G3-hópurinn var þetta kallað. Í þeirri skýrslu komst nokkuð skýr mynd á hugmyndir manna um skipan fjármálastöðugleikaráðs og hvernig þeim málum yrði háttað.

Það sem segja má að aðallega standi út af enn er að endurskoða löggjöf um meðferð á skilum eða slitum fjármálafyrirtækja, en nefnd mun vera að störfum til að fylgja því verkefni eftir. Sömuleiðis hefur verið í undirbúningi og spratt upp úr þessu starfi að setja sérstaka löggjöf um íbúðalán eða fasteignaveðlán. Þá fer þetta nú að verða nokkuð langt komið.

Tímans vegna vil ég aðeins staldra við tvö, þrjú atriði. Nefndin ræddi nokkuð 6. gr. frumvarpsins sem er í raun og veru mikilvæg lykilgrein þess. Ég lýsti því strax í 1. umr. að ég teldi að hana þyrfti að styrkja. Hún virðist hafa tekið einhverjum breytingum frá því fyrstu drög um frumvarpið komu fram og voru lögð upp á netinu og heldur hefur dofnað áherslan á mikilvægi þess að með skýrum og skilmerkilegum hætti sé kveðið á um mismunandi aðstæður og horfur hvað varðar fjármálastöðugleika og að einhverju leyti aðgreint hvort um er að ræða það sem við gætum reynt að kalla venjulegt ástand eða jafnvægisástand, þar sem menn hafa ekki tiltakanlega miklar áhyggjur af því að fjármálastöðugleika sé eða verði ógnað, og síðan aðstæður þar sem ástæða er til að viðhafa meiri viðbúnað og vera meira á tánum og allt upp í að fjármálakreppa teljist yfirvofandi eða hún sé skollin á.

Til að bregðast við þessu leggur nefndin til, eins og framsögumaður hefur farið yfir, ákveðna umorðun á orðalagi 2. mgr. 6. gr. sem ég tel vera til mikilla bóta, og að sú málsgrein orðist svo:

„Ráðið leggur mat á til hvaða nauðsynlegu aðgerða eða ráðstafana þurfi að grípa, skilgreinir það viðbúnaðarstig sem við á og samræmir aðkomu stjórnvalda.“

Þetta er að mínu mati ákaflega mikilvægt vegna þess að hér er ráðinu falin sú skylda að vega og meta á hverjum tíma hverjar aðstæður eru og hvort ástæða sé til sérstaks viðbúnaðar. Það tengist breytingu á fyrirsögn greinarinnar sem nú fjallar um það sem kallaðar eru sérstakar aðstæður. Þá virkjast sömuleiðis aukin samráðsskylda fjármálastöðugleikaráðs, formanns ráðsins eða ráðherrans sem fer með málefnið eftir atvikum við ríkisstjórn, við forustumenn stjórnarandstöðu og upplýsingagjöf og samráð við efnahags- og viðskiptanefnd.

Þetta tel ég mjög mikilvægt. Þar með á að vera orðið sæmilega tryggt að ringulreið og ástand eins og var hér á vikunum í kringum hrunið, mánuðina þar á undan og jafnvel missirin og árin þar á undan, endurtaki sig aldrei. Nú hefur einn aðili þetta verkefni með höndum samkvæmt lögum. Ábyrgðin liggur þar á því að fylgjast með aðstæðum, meta þær, skilgreina viðbúnaðarstigið og upplýsa þá sem eðlilegt og nauðsynlegt er að upplýsa um stöðuna eins og hún er á hverjum tíma. Þetta tel ég vera mikilvægustu breytingarnar fyrir utan þær að tryggja eðlilegt pólitískt samráð um viðsjárverðar aðstæður ef þær teljast vera að koma upp.

Þá held ég að við höfum sömuleiðis með breytingum á 10. gr. gert skynsamlegar lagfæringar á því hvernig fjármálastöðugleikaráð gerir opinberlega grein fyrir störfum sínum, sem sagt með því að gera strax í kjölfar funda sinna grein fyrir þeim og hvað þar hafi verið á dagskrá og gera síðan fundargerðir ráðsins opinberar innan eins mánaðar. Að sjálfsögðu hefur ráðið heimild til þess að halda undan slíkri upplýsingagjöf viðkvæmum upplýsingum ef veiting þeirra gæti beinlínis verið skaðleg fyrir verkefni ráðsins sem er að tryggja fjármálastöðugleika.

Frú forseti. Ég vildi láta koma hér fram að ég er ánægður með að málið er komið á þetta stig og að þetta frumvarp verði gert að lögum. Ég tel frumvarpið í grunninn vera ágætt og að þær breytingar sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur í góðu samstarfi ákveðið að leggja til á því séu til bóta.