143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fiskeldi.

319. mál
[12:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt mál, það að taka til skoðunar lagaumhverfi fiskeldis. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt í þessu samhengi öllu að halda því til haga að ekki er að mínu mati gengið nógu langt í varnaðarátt. Hér eru undir alveg gríðarlega miklir náttúruhagsmunir, bæði að því er varðar vistkerfi og erfðaþætti og þeim þáttum þarf öllum að koma vel fyrir.

Með því bráðabirgðaákvæði sem boðað hefur verið við fullnaðarafgreiðslu málsins er gert ráð fyrir endurskoðun á næstu 18 mánuðum þar sem horft er sérstaklega til þessara þátta og það tel ég vera til verulegra bóta, að haldið sé utan um þá framtíðarsýn, vegna þess að þarna eru í húfi verðmæti sem ekki er rétt að taka áhættu með að því er varðar villta laxastofna.

Ég vil bara í þessari stuttu umræðu hér gera grein fyrir þessum vangaveltum og væntanlega munum við í þingflokki Vinstri grænna gera betur grein fyrir niðurstöðu okkar við atkvæðaskýringu við lokaafgreiðslu málsins.