143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

skrásetning kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014.

62. mál
[12:49]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um skrásetningu kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014.

Með tillögunni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að hlutast til um að Hagstofa Íslands kalli eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur frá og með árinu 2014, auk hefðbundinnar tölfræði.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að mörg önnur lönd vinna slíka tölfræði um þátttöku í kosningum og er því unnt að átta sig á hvernig hún þróast eftir tímabilum.

Efni tillögunnar er afmarkað við kjörsókn eftir fæðingarári við kosningar til Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslur. Nefndin telur einnig rétt að fá slíka tölfræði um þátttöku í sveitarstjórnarkosningum og leggur til breytingar á tillögugreininni í þá veru þannig að við næstu kosningar, sem fara fram 31. maí nk., verði slíkri tölfræði safnað saman. Á fundum nefndarinnar kom fram að með aukinni tækni er auðveldara að vinna tölfræðilegar upplýsingar byggðar á kennitölum kjósenda.

Breytingin fylgir með tillögunni en nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt svo breytt.

Undir nefndarálit rita hv. þingmenn Ögmundur Jónasson, Helgi Hjörvar, Brynjar Níelsson, Valgerður Bjarnadóttir og Willum Þór Þórsson.