143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

182. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndin tók vel í þá þingsályktunartillögu sem hér um ræðir og lagði til örlitlar breytingar á henni vegna þess að nú eru umferðarlögin í endurskoðun og taldi nefndin rétt að þau atriði sem tiltekin voru í þingsályktunartillögunni yrðu skoðuð sérstaklega samhliða heildarendurskoðun umferðarlaga. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að láta yfirfara viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri við heildarendurskoðun umferðarlaga með það að markmiði að fækka slíkum tilvikum. Sérstaklega skuli skoða eftirfarandi leiðir:

1. Lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og samsvarandi mæling öndunarsýnis.

2. Námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs,“ — að skoða hvort möguleiki væri á að koma þannig á fót.

„3. Hækkun sektargreiðslna vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnasjóð.

4. Ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri.“

Það var hugur allra í allsherjar- og menntamálanefnd að leggja þessa tillögu fram þar sem þarft er að breyta hugarfari varðandi ölvunar- og vímuefnaakstur.

Undir þessa breytingartillögu skrifa allir nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar.