143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um stóra loforð Framsóknarflokksins, eða leifarnar af því loforði. Við teljum þessar aðgerðir ekki skynsamlegar í ljósi stöðu ríkissjóðs þar sem þjóðarbúið er mjög skuldsett og veruleg þörf er fyrir styrkingu innviða. Við studdum að þessi tekjustofn yrði tekinn upp og hefðum fremur viljað sjá honum varið í að nýta hér innviði og til þess að styðja við þá sem eiga í raunverulegum vanda en ekki að þessum fjármunum sé úthlutað með þeim hætti að verulegur hluti þeirra renni til stóreignafólks sem þarf ekki á opinberum fjármunum að halda til að greiða niður verðtryggð íbúðalán.

Við teljum þessar aðgerðir ekki skynsamlegar fyrir þjóðarbúið sem heild, ekki skynsamlegar fyrir framtíðina þegar við höfum meiri þörf fyrir nýjan landspítala, sterkt menntakerfi, rannsóknir og nýsköpun og að greiða niður skuldir og við teljum dreifingu þessara fjármuna rangláta.