143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér fjöllum við um þetta mjög svo umdeilda mál. Ég sé mér ekki fært að styðja það eins og það er hér fram komið þar sem verið er að varpa ábyrgðinni yfir á ungt fólk, eldri borgara, leigjendur sem eru í rauninni að greiða niður skuldir fólks sem margt hvert er mun betur sett en það sjálft.

Getur til dæmis verið að langveik börn og aðstandendur þeirra og margir aðrir sem reiða sig á velferðarstofnanir þurfi miklu meira á þessu fé að halda en stóreignafólk? Það er pólitísk forgangsröðun stjórnvalda að afhenda milljarða úr ríkissjóði til fólks sem hefur lítið með það að gera í stað þess að hjálpa þeim sem minna mega sín eða lækka skuldir ríkissjóðs.

Þessa aðgerð hefði þurft að afmarka mun betur með miklu betri greiningum. Því miður segir hún glöggt fyrir hvað hægri stjórnin stendur.

Það er líka vert að halda því til haga að skili bankaskatturinn sér ekki hefur það komið hér fram að skorið verður niður í ríkisrekstrinum til að fjármagna aðgerðirnar.