143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrirætlun stjórnvalda um að greiða niður verðtryggð lán heimila með almannafé felur í raun í sér tilfærslu frá þeim tekjulægri til þeirra tekjuhærri og frá þeim eignaminni til þeirra eignameiri. Í raun má segja að ungt fólk, leigjendur og eldri borgarar borgi niður lán fólks sem hefur það í mörgum tilfellum mun betra en þau.

Aðgerðin felur einnig í sér „tilfærslu á fjármunum frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar“. Þetta eru orð varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem hvetur þingmenn til þess að samþykkja ekki umrætt frumvarp.

Ég vek sérstaklega athygli einnig á þeim hópum sem liggja óbættir hjá garði í þessum aðgerðum, eins og lánsveðshópurinn, fólk sem hefur flutt til útlanda og ætti að sjálfsögðu að geta notið þessarar leiðréttingar og námsmenn. Ekki er tekið á vanda þessara hópa og er því væntanlega vísað til framtíðar hvernig á að koma til móts við þá. Það er að mínu viti óverjandi að ekki skuli vera tekið heildstætt á þessum málum.