143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um skuldaleiðréttingu á fasteignaveðlánum, einu stærsta og óábyrgasta kosningaloforði sem nokkurn tímann hefur verið boðið upp á og margir bitu því miður á þann öngul.

Það er illa farið með almannafé. Ég er sammála því að það eigi að leggja skatt á bankana en ég er ekki sammála því að menn nýti þann skatt með svo ómarkvissum hætti sem gert er hér.

Við heyrðum í fréttum í morgun að skýrsla hjá Rauða krossinum sýndi fram á að 9% landsmanna búa undir fátæktarmörkum og 13% stefna í sömu átt. Er ekki rétt að vinna að félagslegum jöfnuði í þjóðfélaginu og nýta þá peninga sem koma frá bönkunum með þessum hætti til forgangsröðunar sem nýtist fólki sem þarf á því að halda en ekki hlaða enn eina ferðina undir þá sem vel geta staðið undir skuldum sínum, stóreignafólk í landinu sem vel getur greitt af þeim íbúðum og því húsnæði sem það hefur fjárfest í? (Forseti hringir.)

Ég segi því nei.