143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég gleðst með þeim heimilum sem fá skuldaleiðréttingu með þessu frumvarpi og þurfa á henni að halda, en ég harma að um 80 milljörðum sé nú ráðstafað úr ríkissjóði nánast blint og þokukennt. Þess vegna get ég ekki stutt þetta frumvarp.

Í frumvarpinu er ekki gerð tilraun til að skilgreina þann forsendubrest sem íslensk heimili urðu fyrir í hruninu. En ég get skilgreint fyrir ykkur forsendubrestinn, hann felst í hinni nýju hægri stjórn. (Gripið fram í: … hægri/vinstri stjórn.) Ég óska þess að við fáum sem fyrst réttláta ríkisstjórn jafnaðarmanna og þurfum ekki að upplifa fleiri slíkar óréttlátar aðgerðir þar sem þeir tekjuminni í samfélaginu eru látnir bera byrðar þeirra sem mest hafa og geta rétt svo vel borið þær sjálfir. (HöskÞ: Hvað varð um skjaldborgina um heimilin?)