143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist. Ég kem hérna upp til að minna á að ég held að ég geti fullyrt að nánast allir þeir sem hafa á undanförnum árum talað fyrir aðgerðum af þessu tagi, flatri almennri einhvers konar leiðréttingu á höfuðstól verðtryggðra lána, hafi alltaf þvertekið fyrir að slíkar aðgerðir yrðu greiddar úr ríkissjóði. Peningurinn átti alltaf einhvern veginn að koma annars staðar að.

Nú er alveg kristaltært að þessir peningar koma úr ríkissjóði. Það gjörbreytir að sjálfsögðu forsendunum, og auðvitað lá alltaf fyrir að þetta yrði fjármagnað úr ríkissjóði.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lítur svo á að við séum að ljúka málinu hér í dag. Nei, það er rétt að byrja. 20 þús. milljónir á þessu ári fara í þetta, 20 þús. milljónir á næsta, 20 þús. milljónir á þarnæsta, 20 þús. milljónir á þarþarnæsta. Þetta mál fylgir okkur allt kjörtímabilið og þessa peninga notum við ekki í annað, t.d. til að borga niður skuldir ríkissjóðs sem væri miklu skynsamlegra.

Ég vil bara halda þessu til haga.