143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:08]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er alveg furðulegt að heyra það viðhorf hér enn þá að það sé óásættanlegt að ráðast í aðgerð ef hún gerir ekki allt fyrir alla og þá sé betra að gera ekki neitt fyrir neinn.

Ríkisstjórnin vinnur að úrbótum fyrir alla hópa samfélagsins. Það er unnið að úrbótum fyrir leigjendur með nýrri stefnu í húsnæðismálum. Það er unnið að úrbótum fyrir byggingarsamvinnufélög, fyrir aldraða og öryrkja með mestu framlögum til þess málaflokks sem nokkurn tíma hafa verið, sérstaklega eftir að skerðingar síðustu ríkisstjórnar voru afnumdar.

Það er verið að vinna fyrir alla hópa samfélagsins.

Það að bregðast svona við þegar loksins, eftir fimm ára bið, á að koma til móts við hóp sem hefur verið skilinn út undan, hefur verið vanræktur, hóp sem er meiri hluti landsmanna, millitekjufólk og fólk með lægri millitekjur sem hefur stritað við að vinna sér inn fyrir húsnæði, þegar loksins á að innheimta réttmæta kröfu þess fólks sem hefur verið vanrækt núna í fimm ár, að menn skuli bregðast við með þessum hætti (Forseti hringir.) og leika þann ljóta leik að ala á tortryggni og gera sem flesta (Forseti hringir.) hópa samfélagsins ósátta, eru ekki (Forseti hringir.) samvinnustjórnmál, þetta eru illkvittin stjórnmál.