143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Alþingi er málstofa þar sem við skiptumst á skoðunum. Hér hefur verið bent á það sem hefur komið fram við meðferð þessa máls, m.a. að hér er verið að ráðstafa fjármunum sem við innheimtum í sameiginlega sjóði okkar allra með hætti sem a.m.k. sumum okkar þykir ekki skynsamlegur og ekki réttlátur því að ekki er tekið tillit til tekju- eða eignastöðu fólks.

Tekist hefur verið á um þetta af því að það er okkar hlutverk hér að skiptast á skoðunum og kafa ofan í mál og reyna að átta okkur á því hvaða gögn og rök búi að baki. Það að hæstv. forsætisráðherra sem hefur viljað kenna sig við skynsemi og rökhyggju telji sig þess umkominn að koma hér upp og taka þessari gagnrýni með þeim orðum að hér sé um að ræða illkvittin stjórnmál — mér finnst ekki mikill bragur á því, að minnsta kosti ekki mikill bragur skynsemi og rökhyggju. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)