143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um aukna misskiptingu sem er því miður það stef sem er orðið þrástef í aðgerðum núverandi ríkisstjórnar.

Innlegg hæstv. forsætisráðherra um illkvittin stjórnmál gefur tilefni til að staldra við. Mér finnst orðið nokkuð algengt að hæstv. forsætisráðherra eigi mjög erfitt með skoðanaskipti, að það megi ekki einfaldlega viðra misjafnar skoðanir, hann vilji í raun ekki rökræðu og vilji ekki velta upp álitamálum. Þöggunartilburðir koma fyrir aftur og aftur.

Virðulegi forseti. Þetta er að þróast með mjög alvarlegum hætti fyrir lýðræðið hér. Það er staðan sem er komin upp og orðið samvinnustjórnmál úr munni hæstv. forsætisráðherra er beinlínis hlægilegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)