143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er athyglisvert í þessari umræðu hér í dag að þeir sem vilja halda því mjög á lofti að hlutirnir séu ekki svartir eða hvítir heldur hljóti að vera að finna einhver mismunandi litaafbrigði af gráu þar á milli í þessu máli eins og öðrum eru einkum þeir sem vildu halda því á lofti hversu miklu hafi verið ráðstafað á síðasta kjörtímabili til að koma til móts (Gripið fram í: Ha?) við skuldsett heimili.

Nú þegar verið er að ráðstafa 20 milljörðum á ári til að það sé meðal annars ekki of íþyngjandi fyrir ríkissjóð en nái á sama tíma því markmiði sem að er stefnt, sem er að létta undir með heimilunum, er sagt: Það á ekki að leggja áherslu á þessar háu fjárhæðir. Og það eru dregin fram jaðartilvikin, sem svo sem má alltaf gagnrýna þegar um almennar aðgerðir er að ræða, til að fordæma málið í heild sinni. Þetta þýðir að fólk sér ekki skóginn fyrir trjánum. Enginn af þeim stjórnarandstæðingum sem hér hafa komið upp í dag hefur getað talað um jákvæðar hliðar málsins með nokkrum einasta hætti (Forseti hringir.) og þar með dæmir sig sjálf umræðan um það að hlutirnir séu (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) hvorki svartir né hvítir. [Háreysti í þingsal.]